Þjóðarspegillinn 2019
Sviðsforseti, Daði Már Kristófersson – Ávarp 2019
Í ár [2019] er Þjóðarspegillinn – Ráðstefna í félagsvísindum haldinn í tuttugasta sinn. Ráðstefnan var fyrst haldin árið 1994 en að henni stóðu félagsvísindadeild og viðskipta – og hagfræðideild Háskóla Íslands. Síðar bættist lagadeild við.
Aðalhvatamenn ráðstefnunnar voru þeir Friðrik H. Jónsson, prófessor í sálfræði og fyrrum forstöðumaður Félagsvísindastofnunar og Ingjaldur Hannibalsson prófessor í viðskiptafræði og fyrrum deildarforseti viðskiptafræðideildar.
Frá skipulagsbreytingum Háskóla Íslands árið 2008 hafa allar deildir Félagsvísindasviðs staðið að ráðstefnunni. Nafn ráðstefnunnar, Þjóðarspegill, hefur verið notað í rúman áratug. Þjóðarspegillinn hefur orðið meginvettvangur kynningar á rannsóknum í félagsvísindum á Íslandi. Frá upphafi var því lögð áhersla á að ráðstefnan væri vettvangur þar sem fræðafólk gæti kynnt rannsóknir og efnt til samræðna við almenning. Þannig hafa fyrirlesarar í gegnum tíðina verið hvattir til að haga erindum sínum og efni þannig að nemendur og almenningur geti haft gagn og gaman af.
Umsjón og skipulagning ráðstefnunnar hefur frá upphafi verið í höndum starfsfólks Félagsvísindastofnunnar en margir aðilar innan félagsvísindasviðs hafa í gegnum tíðina lagt hönd á plóg og komið að undirbúningi ráðstefnunnar. Á síðastliðnum tuttugu árum hefur ráðstefnan vaxið mikið að umfangi. Þjóðarspegillinn er nú þverfræðileg ráðstefna á sviði félagsvísinda þar sem taka þátt sérfræðingar og fræðafólk af ýmsum fræðasviðum svo sem lögfræði, félagsfræði, bókasafns- og upplýsingafræði, aðferðafræði, afbrotafræði, fötlunarfræði, félagsráðgjöf, hagfræði, mannfræði, sálfræði, námsráðgjöf, kynjafræði, viðskiptafræði, uppeldis- og menntunarfræði, stjórnmálafræði, safnafræði og þjóðfræði. Árlega tekur jafnframt þátt erlent fræðafólk, sérfræðingar hinna ýmsu stofnana, sjálfstæðir rannsakendur og fræðafólk frá öllum háskólum landsins. Það er von mín Þjóðarspegillinn haldi áfram að þróast, vaxa og dafna um ókomna framtíð.
Aðalfyrirlesari Þjóðarspegilsins 2019 var Hein de Haas.
Hein de Haas, leiðandi fræðimaður á sviði fólksflutninga, mun setja erlent starfsfólk á Íslandi í alþjóðlegt samhengi.
De Haas er prófessor í félagsfræði við háskólann í Amsterdam. Hann er einn af stofnendum og fyrrum formaður International Migration Institute við Oxford University. Rannsóknir de Haas snúa að tengslum milli fólksflutninga og víðari félagslegra breytinga. Hann hefur skrifað fjölmargar kenningarlegar og empirískar greinar og bækur um orsakir fólksflutninga og áhrif stefnumótunar á lífsskilyrði innflytjenda, og fært rök fyrir því að helsti drifkraftur fólksflutninga til Evrópu sé þörf evrópska hagkerfisins fyrir ódýrt vinnuafl.
De Haas er höfundur (ásamt Stephen Castles og Mark Miller) bókarinnar The Age of Migration: International Population Movements in the Modern World.
Málstofur 2019
Allar málstofur í stafrófsröð. Smelltu á málstofu til að lesa ágrip erinda.