Rétturinn til að eiga ekki börn: Um móðurhlutverkið og þungunarrof

Málstofustjóri: Silja Bára Ómarsdóttir
Mæður og manneskjur frá fyrstu frumuskiptingu: Fjölmiðlaumfjöllun um þungunarrof í Bretlandi og á Íslandi

Kyn- og frjósemisréttindi kvenna á Íslandi hafa talsvert verið í deiglunni undanfarna mánuði og þá sérstaklega í tengslum við breytingar á lögum um þungunarrof sem Alþingi samþykkti á vormánuðum 2019. Umræðan um hið nýja frumvarp heilbrigðis­ráðherra um þungunarrof fékk gríðarlega athygli í fjölmiðlum þar sem hart var tekist á. Fyrir ellefu árum lá fyrir breska þinginu frumvarp sem ætlað var að þrengja lög um þungunarrof í Bretlandi, stytta tímarammann sem konur hefðu til að fram­kvæma það úr 24 vikum í 20 eða 22 vikur. Lagabreytingin, sem náði raunar á endanum ekki fram að ganga, olli hins vegar heitum umræðum í samfélaginu og mörg hundruð greinar um þungunar­rof birtust í blöðum og tímaritum. Greining á þessari fjölmiðlaumfjöllun leiddi í ljós að konum var ítrekað stillt upp sem annað hvort góðum mæðrum, sem kjósa að ganga með og eiga börn sín, eða vondum mæðrum sem kjósa að fara í þungunar­­rof, á meðan fóstrið var persónugert frá fyrstu frumu­skiptingu. Í þessum fyrirlestri verður gerð grein fyrir niður­stöðum þessarar orðræðugreiningar á fjórum stærstu dag­blöðum Bretlands á 11 mánaða tímabili og þær settar í sam­hengi við nýlega fjölmiðlaumfjöllun á Íslandi. Leitast verður við að varpa ljósi á sameiginleg þemu í fjölmiðlaumfjöllun þessara tveggja landa og eins að hvaða leyti orðræðan er ólík.

Sunna K. Símonardóttir

„Öll viðkvæmni óþörf“ – um sjálfsákvörðunarrétt kvenna til þungunarrofs

Markmið erindisins er að skoða vægi sjálfsákvörðunarrétts kvenna yfir eigin líkama þegar kemur að ákvörðunartöku um þungunar­rof, í ljósi laga sem samþykkt voru 13. maí 2019 á Alþingi. Með þeim var konum loks tryggður sjálfsákvörðunar­réttur til þungunarrofs. Það er veigamikil breyting frá fyrri lögum um fóstureyðingar sem sett voru 1975. Þau sættu gagnrýni fyrir að heimila þungunarrof einvörðungu með leyfi tveggja heil­brigðis­­starfsmanna. Fyrri hluti erindisins fjallar um upplifun kvenna, sem hafa farið í þungunarrof, af þeim takmörkunum sem voru á sjálfsákvörðunarrétti þeirra. Frásagnir þeirra, sem var safnað 2014-2015, lýsa upplifuninni sem streitu- og kvíða­valdandi, erfiðum hluta ferilsins og óánægju með að þurfa að sækja um leyfi og/eða rökstyðja þessa ákvörðun um eigin framtíð. Seinni hluti erindisins greinir umræðu um sjálfs­ákvörðunarrétt til þungunarrofs við afgreiðslu laganna á Alþingi árið 2019 og meginstef hennar til að skoða hvaða vægi þingmenn gefa sjálfsákvörðunarrétti kvenna við ákvörðunar­tökuna. Þemagreining er gerð á báðum þáttum og niðurstöður settar í sögulegt samhengi við umræðu við afgreiðslu eldri laga árið 1975. Niðurstöður benda til að áhersla á sjálfsákvörðunar­rétt kvenna hafi orðið ofan á við afgreiðslu laganna 2019, en þó séu þau sjónarmið algeng að sjálfsákvörðunarréttur og frelsi kvenna sé ekki mikilvægustu atriðin sem horfa skuli til þegar kemur að lagasetningu um rétt kvenna til að rjúfa þungun.

Steinunn Rögnvaldsdóttir

Kvenleikanum ögrað: Að hafna móðurhlutverkinu eða að sjá eftir því að hafa orðið móðir

Samfélagslegar hugmyndir um móðurhlutverkið, sem er eitt af hryggjarstykkjum kvenleikans, mótast af samspili margra þátta eins og kynhneigð, hæfishroka (ableism), þjóðerni, kynþætti og kynvitund (gender identity). Í erindinu verða kynntar fræðilegar undir­stöður rannsóknar sem ráðist verður í á næstu misserum. Í rannsókninni verður sjónum beint höfnun móðurhlutverksins og þeim sem sjá eftir því að hafa eignast barn/börn. Tekin verða eigind­leg viðtöl við konur og fólk sem getur gengið með börn en hafa tekið ákvörðun um að gera það ekki og þær/þau sem sjá eftir þeirri ákvörðun að hafa eignast börn hvort sem börnin eru líffræðilega skyld þeim eða ekki. Viðmælendahópurinn verður að öðru leyti fjölbreyttur þar sem markmiðið er að kort­leggja reynslu bæði þeirra sem njóta samfélagslegra forréttinda og þeirra sem eru í jaðarstöðu vegna kynhneigðar, kynvitundar, kynþáttar, þjóðernis og líkamlegra eða andlegra skerðinga. Í rann­sókninni verður upplifun viðmælenda sett í samhengi við samfélagslegar hugmyndir um gerendamátt og valfrelsi. Spurt er: Hver er gerendamáttur og/eða valfrelsi (kvenna) þegar kemur að barneignum; hvaða rými hafa mæður/fólk sem mæðrar til að tjá eftirsjá í tengslum við móðurhlutverkið; að hvaða leyti er rýmið til að afsala sér móðurhlutverkinu eða tjá eftirsjá í tengslum við það mótað af samspili ólíkra þátta, forréttinda- og jaðarstöðu.

Gyða Margrét Pétursdóttir og Margaret Anne Johnson

„Ekki vera að hrófla við þessum lögum“ Um baráttuna fyrir nýjum þungunarrofslögum

Þegar lög um fóstureyðingar tóku gildi á Íslandi árið 1975 höfðu kvennahreyfingar, einkum Rauðsokkahreyfingin, barist fyrir því að með þeim yrði sjálfsákvörðunarréttur kvenna tryggður. Alþingi var ekki tilbúið til þess og skyldaði konur til að sækja um leyfi frá heilbrigðisstarfsfólki áður en aðgerð gæti farið fram. Baráttan fyrir sjálfsákvörðunarréttinum var því í höndum komandi kynslóða baráttukvenna en um leið lá í loftinu ótti við bakslag ef farið yrði að hrófla við gildandi lögum. Markmið þessa erindis er að varpa ljósi á þá togstreitu sem skapaðist milli hreyfinga kvenna sem vildu verja kyrrstöðuna og hinna sem vildu færa mörkin lengra og tryggja kynsystrum sínum sjálfs­ákvörðunarrétt yfir eigin líkama. Í því er fjallað um baráttu kvenna fyrir fyrri lögum og aðkomu kvennahreyfingarinnar að setningu nýrra laga. Erindið byggir á þátttökuathugun aðgerða­sinna á sviði kyn- og frjósemisréttinda, auk viðtala við baráttu­konur, fyrirliggjandi gögn frá kvennahreyfingum og fjölmiðla­umfjöllun um málefnið. Niðurstöður benda til að með aukinni áherslu á réttindi kvenna hafi kvennahreyfingin freistað þess að taka upp málið að nýju og þrýsta á Alþingi að koma á lögum um þungunarrof þar sem sjálfsákvörðunarréttur kvenna yrði tryggður.

Fríða Rós Valdimarsdóttir

Þungunarrof og hið stöðuga bakslag

Í erindinu er fengist við stjórnspekilegar spurningar sem liggja til grundvallar nýrri rannsókn á viðbrögðum pólitískra íhalds­sinna við frjálslyndri þungunarrofslöggjöf. Spurt er hvort eitt­hvað í hugmyndafræði þeirra útskýri þau viðbrögð sem greina mátti við lagafrumvarpinu. Færð eru rök fyrir því að nauðsynlegt sé að skilja hugmyndina um stöðuga endursköpun og bakslag. Hin almenna hugmynd er véfengd, að íhaldsstefna felist fyrst og fremst í friðsamlegri andstöðu við breytingar þar eð rík hefð er fyrir því hjá íhaldssinnum að beita róttækum aðferðum til að varð­veita stigveldi í samfélaginu. Rannsóknin beinir bæði sjónum að íhaldsömum hugsuðum og að hópum, bæði rót­tækum og hófsamari, sem andæft hafa auknu kvenfrelsi. Stutt­lega eru skoðuð fjögur tilfelli: Stefna stjórnvalda í Póllandi og Ungverjalandi sem markvisst hafa grafið undan kvenfrelsi og kven­réttindum og andóf íhaldsmanna á Írlandi og Íslandi en í báðum ríkjum voru nýlega samþykkt frjálslynd lög um þungunar­rof. Bent er á að sú gagnrýni sem sett var fram á lög­gjöfina á Íslandi endurómi mælskubrögð sem iðulega eru kennd við pólitísk bakslög og eru orðin ríkjandi straumur víða um heim um þessar mundir. Hugtakagreiningu eru beitt til að endur­byggja málflutning íhaldsmanna sem og orðræðu­greiningu til meta hann. Færð eru rök fyrir því að málflutningur úr ranni íhalds­sinna veiti innsýn inn í bakslagsorðræðu almennt og þar með betri skilning á íhaldshreyfingu samtímans.

Gunnar Sigvaldason

Event Details
  • Start Date
    01/11, 2019 11:00
  • End Date
    01/11, 2019 12:45
Höfundar erinda
Doktorsnemi / PhD student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Doktorsnemi / PhD student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Sérfræðingur / Specialist
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Nýdoktor / Post doc
Háskóli Íslands / University of Iceland
Event Details
  • Start Date
    01/11, 2019 11:00
  • End Date
    01/11, 2019 12:45