Loftslag, menning, vald. Pólitískur bakgrunnur umhverfisorðræðu

Málstofustjóri: Hólmfríður Garðarsdóttir

Þótt loftslagsvandinn sé hnattrænn og varði alla jafnt í vissum skilningi, er umræðan um hann mjög ólík eftir ríkjum, stjórnarfari, menningu og félagslegum aðstæðum. Í málstofunni verður fjallað um helstu einkenni umræðunnar loftslagsbreytingar og áhrif hlýnunar í Rússlandi, Kína, Japan og Rómönsku Ameríku, og hugað að skýringum þeirra.

Óbyggðirnar kalla: Loftslagsorðræða í ríki Pútíns

Því er stundum haldið fram að kosturinn við valdstjórnir sé sá að þær geti komið mörgu í verk. Þegar stjórnvöld séu háð almennings­áliti í sama mæli og tíðkast í frjálslyndum lýðræðis­ríkjum geti verið erfiðara að ná styrk til sársaukafullra eða óvin­sælla aðgerða. Í fyrirlestrinum eru færð rök gegn þessari skoðun með því að skoða loftslagsumræðu – og orðræðu – í Rússlandi. Vandinn liggur ekki í ákvörðunum stjórnvalda heldur í um­ræðunni sjálfri, sem er stýrt af yfirvöldum. Í pólitískri umræðu í Rússlandi hafa loftslagsmál ekki sama vægi og á Vesturlöndum og þess vegna vantar enn meira upp á að almenningur (og fjölmiðlar) búi yfir þeim skilningi á hættumerkjum sem nauðsynlegur er til að breyta stefnu og réttlæta aðgerðir.

Rannsóknin beinist að pólitískri orðræðu þar sem annars vegar er rýnt í efnistök fjölmiðla, hins vegar í fræðileg skrif um umhverfisstefnu, umhverfisvitund og loftslagsorðræðu í Rúss­landi. Beitt er greiningu á orðræðu og mælskugerðum til að sýna fram á að því fer fjarri að skortur á lýðræðislegri ábyrgð auðveldi stjórnvöldum aðgerðir sem telja má viðbrögð við loftslagsvá.

Jón Ólafsson

Blóðrauð sól: Loftslagsvandi Kína

Ekkert ríki mengar meira en Kína. Mengunin er gríðarlegt vandamál og áframhaldandi útblástur mun hafa úrslitaáhrif fyrir heimsbyggðina á tímum versnandi loftgæða. Að sama skapi liggur metnaður fyrir náttúruvernd djúpt í þjóðarsál kínverja og í landinu er þróun á umhverfisvænum tæknilausnum, ekki hvað síst, vatnsafls-, sólar- og vindorku, í fararbroddi á heimsvísu.

Í fyrirlestrinum verður sjónum beint að loftslagsumræðu í Kína og spurt með hvaða hætti fjölmennasta þjóð heims gerir það upp við samvisku sína hvernig hún geti lagt sitt af mörkum við lausn loftslagsvandans. Rannsóknin sem liggur fyrirlestrinum til grundvallar beinist að greiningu á pólitískri orðræðu. Rýnt er í umfjöllun opinberra og óopinberra fjölmiðla, ásamt því sem fræðileg skrif um loftslagsorðræðu í Kína er höfð til hliðsjónar. Textagreining er höfð að leiðarljósi við rannsókn á orðræðu ritaðra miðla og fræða og markmiðið að sýna fram á að að loftslagsmál eru í dag lykiláskorun kínversku þjóðarinnar og stjórnvalda. Fyrstu niðurstöður gefa til kynna að umtalsverðar breytingar eigi sér stað um þessar mundir og að þótt viljinn sé góður er vandinn – að því er virðist – óendanlegur.

Hafliði Sævarsson

Kjarnorka (?): Um loftslagsorðræðuna í Japan

Í Japan snýst loftslagsumræðan að miklu leyti um orkumál og þá einkum kjarnorku og nýtingu hennar. Umræðan hefur blossað upp eftir hinar svökölluðu 3/11 hörmungar en þá er átt við Tohoku jarðskjálftann 11. mars 2011. Í kjölfar hans fylgdi flóðbylgja sem leiddi til kjarnorkuslyssins í Fukushima. Umræða um kjarnorku í japönsku samhengi á sér þó alltaf aðra hlið sem snýr að kjarnorkusprengjunum tveimur sem Bandaríkjamenn vörpuðu undir lok seinni heimstyrjaldarinnar.

Í erindinu eru kynntar niðurstöður sem byggja bæði á fræðitextum og greiningu á orðræðunni eins og hún birtist í fjölmiðlum og opinberum gögnum og þar er því haldið fram að greina megi tvo megin ása sem umræðan og átökin hverfast um. Í fyrsta lagi verður rýnt í umræðuna um kjarnorkuna sjálfa og ímynd hennar í sögulegu samhengi. Japan er eina landið sem orðið hefur fyrir kjarnorkuárásum og því er áhugavert að skoða afstöðu ólíkra hópa til hennar, en þar ber mest á hugmyndum um hana sem eyðileggingarafl annars vegar og hreina orku hins vegar. Í öðru lagi verða nýjustu kenningar um stjórnkerfi Japans ræddar og skoðað að hve miklu leyti klofningur vegna and­stæðra stjórnkerfa („developmental state“ vs „free market“) geti útskýrt átökin um kjarnorkuna og orkulausnir framtíðar­innar.

Kristín Ingvarsdóttir

Dauðans alvara: Loftlagsmál og náttúruvernd í Rómönsku Ameríku

Í erindinu verður leitað svara við því hvers vegna umræða um umhverfis- og loftlagsmál fer ekki hátt í fjölmiðlum landa Rómönsku Ameríku. Hvaða skilning leggja íbúar álfunnar í merkingu hugtakanna og hvaða áhrif hefur það á aðstæður ólíkra þjóðfélagshópa. Réttindabarátta frumbyggja og ásælni auð­kýfinga og alþjóðafyrirtækja koma þar meðal annars við sögu.

Greiningin beinist að pólitískri orðræðu þar sem rýnt er í efnistök fjölmiðla og skýrslur alþjóðastofnana um leið og stuðst er við fræðileg skrif um umhverfisvitund og loftslagsorðræðu. Aðferða­fræði textagreiningar er beitt til að sýna fram á að talsmenn ólíkra sjónarmiða svífast einskis til að hagræða og/eða sveigja fyrirliggjandi upplýsingar að eigin geðþótta, vild og hags­munum.

Fyrstu niðurstöður staðfesta að umræða um umhverfismál fer ekki hátt í fjölmiðlum landa Rómönsku Ameríku. Að brauðfæða þá sem þar búa er mest áberandi baráttumál vinstrimanna en leitin að leiðum til að auka arð af nýtingu náttúruauðlinda hjá hægrimönnum. Málssvarar móður jarðar eða „pachamama”, sem eru einna helst baráttusamtök frumbyggja og kvenna­hreyfingar ýmiskonar, auk fræðimanna, er vísað á bug. Rök og líf baráttufólks úr þeirra röðum mega sín lítils gagnvart elítu land­eigenda og herja þeirra.

Hólmfríður Garðarsdóttir

Event Details
  • Start Date
    01/11, 2019 13:00
  • End Date
    01/11, 2019 14:45
Höfundar erinda
Lektor / Assistant Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Annað / Other
Háskóli Íslands / University of Iceland
Event Details
  • Start Date
    01/11, 2019 13:00
  • End Date
    01/11, 2019 14:45