Virði óáþreifanlegra gæða

Málstofustjóri: Tinna Laufey Ásgeirsdóttir
Skuggavirði óhóflegrar áfengisneyslu

Neysla áfengis á Íslandi hefur farið vaxandi. Þó rannsóknir hafi bent til þess að hófleg áfengisneysla geti haft jákvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu er ljóst að óhóflegri neyslu áfengis fylgir skaði og getur hann verið verulegur. Samfélagslegur kostnaður vegna óhóflegrar áfengisneyslu hefur víða verið metinn, en greiningarnar taka sjaldnast tillit til þess einka­kostnaðar sem neytandinn sjálfur verður fyrir. Markmið þessarar rannsóknar er að varpa ljósi á einkakostnaðinn með því að meta svokallað skuggavirði neytandans af óhóflegri áfengisneyslu. Þetta er gert með tekjuuppbótaraðferðinni, þar sem tölfræðilegt samband nytja, tekna og áfengisneyslu er notað til að meta það velferðartap sem neytandinn verður fyrir vegna óhóflegrar áfengisneyslu. Notuð eru gögn úr könnun um heilsu og líðan Íslendinga sem framkvæmd var af Embætti landlæknis árin 2007, 2009 og 2012. Niðurstöður benda til þess að skuggavirði óhóflegrar áfengisneyslu megi mæla í milljónum og jafnvel tugum milljóna króna að meðaltali á mann á ársgrundvelli og virðist það hærra hjá körlum en konum. Upplýsingar um skugga­virði óhóflegrar áfengisneyslu eru mikilvægar við opinbera ákvörðunartöku á úthlutun fjár innan heilbrigðis­kerfis­ins og víðar. Þá eru þessar niðurstöður mikilvægt framlag til rannsókna á samfélagslegum kostnaði vegna óhóflegrar áfengis­neyslu, en einkakostnaður neytandans hefur ekki áður verið metinn á þennan hátt.

Anna Guðrún Ragnarsdóttir

The Shadow Price of Inadequate Sleep

How much a person sleeps is affected by many factors and not getting enough sleep can have great consequences for their health, both mental and physical. While modern society is improving lives in many ways, the quantity of sleep seems to be declining and it is impacting people’s well-being. The costs associated with insufficient sleep have been estimated in various ways but not the private cost incurred by each individual. Using the compensating income variation (CIV) method we estimate the shadow price of inadequate sleep using individual-level panel data set from the Directorate of Health in Icelandic, a health-and-lifestyle survey carried out in 2007, 2009, 2012, and 2017. To better understand the impact sleep has we looked at males and females separately as well as people of different income levels. Attention is also paid to people who work shifts and people with mental health problems as these factors affect sleep significantly. Preliminary results of our study indicate a substantial welfare loss due to lack of sleep. Furthermore we discuss some possible economical and societal explanations for too little sleep and what policy changes could be considered for a better rested society.

Þórhildur Magnúsdóttir og Tinna Laufey Ásgeirsdóttir

Mat á virði hlutfallslegrar efnahagslegrar stöðu

Markmið rannsóknarinnar er að skoða áhrif efnahagslegrar stöðu á velferð fólks. Rannsóknin felur í sér að meta virði þess að vera vel eða illa stæður fjárhagslega, þegar miðað er við hvar fólk telur sjálft sig vera samanborið við aðrar fjölskyldur á Íslandi. Notast er við gögn úr „Heilsu og líðan Íslendinga“ frá árunum 2007, 2009, 2012 og 2017, sem inniheldur m.a. spurningar um tekjur, menntun, aldur, kyn og hamingju. Þar að auki er fólk beðið að meta sjálft hvort fjölskylda þeirra sé betur, álíka vel eða verr stæð fjárhagslega miðað við aðrar fjölskyldur á Íslandi og því byggir matið ekki á raunverulegri efnahagslegri stöðu fólks heldur upplifaðri. Flestir telja fjölskyldu sína álíka vel stæða og aðrar fjölskyldur. Tekjuuppbótaraðferðin er notuð við matið, þar sem gert er ráð fyrir að velferð eða hamingja einstaklinga ákvarðist af heimilistekjum og upplifaðri fjárhagslegri stöðu og öðrum bakgrunnsbreytum. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að það að upplifa fjölskyldu sína verr stæða hefur neikvæð áhrif á velferð á meðan það að finnast fjölskylda sín betur stæð hefur jákvæð áhrif. Hins vegar eru áhrif verri efnhagslegrar stöðu um­talsvert meiri á hamingju fólks en betri efnahagsleg staða.

Guðrún Svavarsdóttir og Tinna Laufey Ásgeirsdóttir

Virði þess að vera í kjörþyngd og samspil þess við þyngd maka

Að vera utan kjörþyngdar getur haft margvísleg líkamleg, andleg og félagsleg áhrif. Þótt erfitt sé að verðmeta óáþreifanleg gæði, líkt og að vera í kjörþyngd, er slíkt mat mikilvægt til upplýstrar ákvarðanatöku. Markmið þessarar rannsóknar er að meta virði þess að vera í kjörþyngd. Notuð er svokölluð tekju­uppbótaraðferð til að meta þær viðbótartekjur sem þarf til að bæta einstaklingum upp það velferðartap sem fylgir því að vera ekki í kjörþyngd. Greiningin byggir á gögnum frá Swiss House­hold Panel sem safnað var á árunum 2004 til 2017 og  innihalda upplýsingar um lífskjör og þjóðfélagslegar aðstæður í Sviss. Notuð er tveggja þrepa aðfallsgreining til að meta bæði virði kjör­þyngdar fyrir einstaklinginn og hvernig virðið breytist með þyngd maka. Niðurstöðurnar sýna að metin tekjuuppbót hækkar eftir því sem einstaklingar eru lengra frá metnum kjör­líkams­þyngdarstuðli og á þetta bæði við um karla og konur. Jafnframt er varpað ljósi á sterkt samspil milli óska um eigin líkamsþyngd og líkamsþyngd maka og gefa niðurstöður til kynna að metinn kjör­líkamsþyngdarstuðull einstaklings hækkar með hækkandi líkams­þyngdarstuðli maka og öfugt. Ástæður þessa eru óljósar en þar sem félagsleg tengsl hafa áhrif á skoðanir fólks um kjör­þyngd gætu makar haft sérstaklega mikil áhrif í því sambandi. Mikilvægt er að varpa skýrara ljósi á virði kjörþyngdar og áhrifa­þætti ofþyngdar. Slíkar upplýsingar geta reynst verðmætar við for­gangsröðun fjárúthlutana innan heilbrigðiskerfisins.

Kristjana Baldursdóttir

Að meta velferð til fjár: Siðfræðileg greining á tekjuuppbótaraðferð

Hagfræðingar nota ýmsar aðferðir til að meta gæði sem hafa ótvíræð áhrif á velferð fólks en enginn hefðbundinn markaður er fyrir. Tilgátan er að slíkt mat geti leiðrétt hefðbundna hag­fræðilega mælikvarða sem taka ekki mið af þeim óáþreifan­legu gæðum sem þó skipta okkur mestu máli. Mörgum finnst hins vegar sitthvað siðferðilega bogið við það að meta þessi gæði til fjár sem aftur hefur vakið upp spurningar um hvort ekki sé ástæða til að greina þessar rannsóknir með aðferðum siðfræði. Í þessu erindi verður svokölluð tekju­uppbótaraðferð útskýrð og algeng siðferðileg viðbrögð við henni rædd, sem oft snúast um að eitthvað sé rangt við að meta gæði eins og heilsu til fjár. Við nánari athugun virðast þessi viðbrögð ekki á rökum reist og því verður sýnt fram á kosti og réttmæti þess að meta óáþreifanlega þætti velferðar til fjár. Í seinni hluta erindisins er bent á hvað þurfi að hafa í huga við hagfræðilegt mat af þessu tagi með hliðsjón af nokkrum frumforsendum siðfræði.

Henry Alexander Henrysson og Guðrún Svavarsdóttir

Event Details
  • Start Date
    01/11, 2019 13:00
  • End Date
    01/11, 2019 14:45
Höfundar erinda
MA/MS nemi / MA, Msc. student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Doktorsnemi / PhD student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Ph.D. / Phd
Háskóli Íslands / University of Iceland
Doktorsnemi
Háskóli Íslands / University of Iceland
Doktorsnemi / PhD student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Event Details
  • Start Date
    01/11, 2019 13:00
  • End Date
    01/11, 2019 14:45