Þjóðmenning og menningararfur

Málstofustjórar: Snjólaug G. Jóhannesdóttir og Pétur Húni Björnsson
Sköpun íslenskrar þjóðarímyndar: Karlmennska eða kerlingabækur?

Í erindinu verður farið yfir þjóðfræðasöfnun á Íslandi á 19. öld og hún borin saman við sambærilegar safnanir í Evrópu. Áhrif þjóð­fræðaefnis á viðleitni til sköpunar íslenskrar þjóðarímyndar á tímum sjálfstæðisbaráttunnar verður skoðuð og grafist fyrir um rætur þeirrar ímyndar sem varð ofan á og mat lagt á áhrif hennar á viðgang alþýðumenningar. Upphaf þjóðfræðasöfnunar á Íslandi átti sér rætur og fyrirmyndir í evrópskri rómantík og þjóðfræðasöfnunum sem fram höfðu farið í Evrópu. Slík söfnunar­verkefni voru í langflestum tilfellum viðleitni til að grafa upp alþýðumenningu af ýmsu tagi til að sýna fram á, og jafnvel búa til, þjóðareiningu og þjóðarímynd.

Þegar þjóðfræðasöfnun á Íslandi á 19. öld er borin saman við þá evrópsku má sjá að þessu var á margan hátt öðruvísi farið á Íslandi. Margir virtust telja að Íslendingar hefðu þegar trausta þjóðarímynd sem sótt var í fornbókmenntirnar og var þeirri ímynd haldið stíft fram í orðræðu sjálfstæðisbaráttunnar. Af þeim sökum átti margt í alþýðumenningunni ekki upp á pall­borðið sem grundvöllur þjóðareiningar og -ímyndar og var jafnvel afskrifað sem kerlingabækur, fals eða ómenning.

Pétur Húni Björnsson

„Vandræðalausn“ eða „vel heppnaður gjörningur“: Viðhorf borgarbúa til húsaflutninga á miðborgarsvæðinu

Miðborg Reykjavíkur hefur tekið ýmsum breytingum í gegnum tíðina en nú sem aldrei fyrr eru breytingar að eiga sér stað á svæðinu. Nýbyggingar hafa risið inn á milli gamalla húsa, eða ýtt þeim í burtu. Einhver hús hafa verið rifin en önnur, jafnvel friðuð hús, hafa verið flutt frá upprunastað til að búa til pláss fyrir þau nýju. Hús eru óaðskiljanleg borginni og allt svæðið breytist ef ný hús eru byggð eða gömul flutt, með óhjákvæmilegri truflun á kunnugleika staðarins. Hver eru áhrif húsaflutninga á íbúa borgarinnar? Hver er upplifun borgarbúa þegar húsið sem hefur alltaf verið þarna er allt í einu horfið og búið er að koma því fyrir á nýju heimilisfangi?

Til að greina  áhrifin sem íbúar upplifa vegna húsaflutninga, og viðhorf þeirra til þeirra, voru tekin viðtöl við nokkra almenna íbúa borgarinnar á gönguferð um miðborgarsvæðið. Í erindinu verður fjallað um hvernig þátttakendur tengja sig við mið­borgina og húsin á svæðinu auk áhrifanna sem breytingar á kunnuglegu svæði hefur á þá og staðartengsl þeirra. Þátt­takendur eru allir bundnir miðborginni tilfinningaböndum heimamanns og hafa mótað marglaga tengsl við svæðið og húsin sem þar eru að finna.

Snjólaug G. Jóhannesdóttir

Rödd fólksins: Danska hetjukvæðastríðið (1847-1848)

Veturinn 1847-1848 var „hetjukvæðastríðið” svokallaða háð á síðum danskra dagblaða og tímarita í tilefni af fyrirhugaðri útgáfu hins unga Svend Grundtvig á dönskum þjóðkvæðum (Danmarks gamle Folkeviser). Margir helstu andans menn Danmerkur gripu þar til stílvopna og börðust með eða á móti þessari heildarútgáfu allra tilbrigða við dönsk þjóðkvæði, risa­verkefni sem lauk ekki fyrr en með útgáfu síðasta bindisins árið 1973.

Helst var deilt um þau áform Grundtvigs að láta prenta orðrétt öll tilbrigði við öll þjóðkvæði fremur en samræmt og lagfært úrval kvæða (eins og venjan hafði verið). Ýmsum þótti þetta furðu­legt, fáranlegt eða þaðan af verra, en Grundtvig stóð fótunum fastar á þessu höfuðatriði útgáfunnar. Síðar varð útgáfu­stefna Grundtvigs að fyrirmynd að allri vísindalegri þjóð­kvæðaútgáfu í Evrópu og Bandaríkjunum.

Vopnaskakið í „hetjukvæðastríðinu” er hins vegar frábær heimild um sambandið á milli hugmynda manna um höfundinn og þess sem féll utan þeirra hugmynda um miðja 19. öld. Ritdeilan er jafnframt einstök heimild um hvernig hlutverk höfundarins, rit­stjórans og alþýðunnar/þjóðarinnar mótuðust í núverandi mynd. Í ólíkum framlögum til deilunnar kristallast spurningin um hver hafði umboð til að tala í nafni og með rödd fólksins/ þjóðarinnar á byltingarárinu 1848, þegar lýðfrelsishreyfingar gripu til vopna víða í Evrópu og einræðið vék fyrir nýju þjóðs­kipulagi í Danaveldi.

Valdimar Tr. Hafstein

Kirkjan á Íslandi og tengsl hennar við veraldleg yfirvöld frá þjóðveldi til vorra daga

Í þessum fyrirlestri verður fjallað um það hvernig kirkjan hefur mótað menningu og samfélag á Íslandi gegnum aldirnar. Lykillinn til skilnings á því er hvernig tengsl hennar hafa verið við ríkisvaldið á hverjum tíma. Kirkjan á Íslandi haslar sér völl með því að innlendur höfðingi verður biskup í Skálholti og yfir skólahaldi á biskupssetrunum. Eftir að erkibiskup hefur tengst málefnum kirkju og veraldlegra yfirvalda og staðamálin svokölluð eru komin í algleyming má segja að tengsl kirkju og veraldlegra yfirvalda hafi runnið í sama farveg og annars staðar í Evrópu.

Næsti áfangi í þróun þessara tengsla er bundinn við eflingu konungsvalds á Íslandi, siðaskiptin á 16. öld og einveldi dana­konungs á Íslandi árið 1662. Sjálfstæðisbarátta Íslendinga, trúfrelsi með stjórnarskrá og aðgreining ríkis og kirkju í kjölfar heimastjórnar á Íslandi árið 1904 markar næsta áfanga. Lokaáfanginn eru svo lög frá alþingi Íslendinga um stjórn, stöðu og starfshætti þjóðkirkjunnar árið 1997. Fjarlægð landsins frá meginstofnunum hinnar alþjóðlegu kirkju og ríkisvalds sköpuðu nokkra sérstöðu á Íslandi en þjóðlegar og pólitískar kröfur höfðu áhrif hér á landi sem víðast annars staðar í Evrópu.

Pétur Pétursson

Event Details
  • Start Date
    01/11, 2019 15:00
  • End Date
    01/11, 2019 16:45
Höfundar erinda
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Annað / Other
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Aðjúnkt / Adjunct Lecturer
Event Details
  • Start Date
    01/11, 2019 15:00
  • End Date
    01/11, 2019 16:45