Fæðingarorlof, fjölskyldulíf og starfsframi

Málstofustjóri: Íris Dögg Lárusdóttir

Foreldrar, fæðingarorlof og staða á vinnumarkaði

Árið 2000 voru lög um fæðingar og foreldraorlof (nr. 95/2000) samþykkt á Alþingi. Um var að ræða róttæka löggjöf þar sem Ísland varð fyrst landa til að veita báðum foreldrum jafnan sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs. Í erindinu verður spurt hvaða áhrif fæðing fyrsta barns hafi á stöðu feðra og mæðra á vinnumarkaði og hvort breytingar hafi átt sér stað síðan lögin tóku gildi. Fyrst verður fjallað um hvort breytingar hafa orðið á því hvernig foreldrar hreyfast innan starfs og milli starfa eftir fæðingu fyrsta barns eftir gildistöku laganna. Þá verður skoðað hvernig orlofsnýting tengist því hvort foreldrar telja auðvelt eða erfitt að samhæfa vinnu og fjölskyldulíf. Birtar verða niðurstöður úr fjórum könnunum meðal foreldra ungra barna. Árið 2001 var gerð umfangsmikil könnun á atvinnuþátttöku og tilhögun umönnunar meðal foreldra sem áttu sitt fyrsta barn árið 1997, áður en lögin komu til framkvæmda. Könnunin var endurtekin árið 2007, meðal foreldra sem áttu sitt fyrsta barn árið 2003, en þá áttu feður rétt á þriggja mánaða fæðingarorlofi. Könnunin var aftur gerð árið 2013 og gagna var aflað í fjórða sinn vorið 2018, meðal foreldra fjögurra ára barna. Kannanirnar gefa einstakt tækifæri til að meta hvernig foreldrar hafa hagað atvinnu­þátttöku síðastliðin 20 ár og breytingar á áhrifum fæðingar á stöðu þeirra á vinnumarkaði.

Ásdís A. Arnalds og Guðný Björk Eydal

Fæðingarorlof og æðstu stjórnendur: kynjaójafnrétti á íslenskum vinnumarkaði

Á Íslandi hafa mörg mikilvæg skref verið tekin í átt að auknu jafnrétti kynjanna. Konur og karlar hafa sömu réttindi þegar kemur að fæðingarorlofi og eiga rétt á að snúa aftur í sitt fyrra starf að því loknu. Þrátt fyrir framsækna velferðastefnu þá eru fáar konur í æðstu stjórnendastöðum á íslenskum vinnumarkaði. Í þessu erindi er sjónum beint að einsleitni í æðstu stjórnenda­stöðum með því að leita skýringa í reynslu og viðhorf framkvæmdastjóra til fæðingarorlofs og fjölskylduábyrgðar. Alls voru 30 viðtöl tekin við kven- og karlkyns framkvæmdastjóra á árunum 2015 og 2016. Sú fræðilega nálgun sem greiningin byggir á fjallar um valdatengsl ástarinnar (e. love power). Helstu niðurstöður gefa til kynna að stjórnendur telja foreldraorlof hindrun. Á meðan að karlar litu á foreldraorlofið sem val þá var veruleiki kvenna annar. Þær þurftu því að finna leiðir til að sinna ungviðinu og krefjandi starfi á sama tíma. Til að auka kynjajafnrétti í æðstu stjórnendastöðum er nauðsynlegt að beina sjónum ekki eingöngu að þeim hindrunum sem eiga sér stað innan fyrirtækjanna heldur líka hvað á sér stað í nánum samböndum, sérstaklega þegar stjórnendur eiga börn sem búa á heimilinu.

Ólöf Júlíusdóttir, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir og Þorgerður Jennýjardóttir Einarsdóttir

Fæðingarorlof í prentmiðlum árin 2000 til 2017

Á vordögum árið 2000 samþykkti Alþingi einróma ný lög um fæðingar- og foreldraorlof. Mjög róttækar breytingar voru þar með gerðar sem hefði mátt ætla að vektu töluverðar umræður og deilur. Svo varð ekki á þingi en mikilvægt er að skoða hvort merkja megi samfélagslegar deilur eða umræður við laga­setninguna eða síðar. Sérstaklega á þetta við um þá stóru breytingu að binda hluta orlofsins við hvort foreldri en þegar lögin voru sett var ekkert ríki heims sem batt jafn langt fæðingarorlof við feður. Markmið rannsóknarinnar var að skoða umfjöllun í íslenskum prentmiðlum um fæðingarorlof frá því að nýju lögin voru sett árið 2000 og til ársins 2017. Leitað var á timarit.is eftir orðinu „fæðingarorlof“ og öll dæmi um það orð skráð. Í kjölfarið var umfjöllun flokkuð í nokkra hópa og innhaldsgreind. Meðal helstu niðurstaðna er að umfjöllun er ekki mikil, hún er á heildina litið jákvæð og þá sjaldan umfjöllun er ítarleg snýr hún að fæðingarorlofstöku feðra. Fæðingarorlof mæðra virðist svo sjálfsagt að óþarfi er að fjalla um það. Greiningin styður fyrri niðurstöður um að breið samfélagsleg eining sé um uppbyggingu fæðingarorlofs feðra með þeim hætti sem lögin frá árinu 2000 segja til um.

Ingólfur V. Gíslason og Sunna K. Símonardóttir

„Það er auðvitað bara, það er bardagi“. Um samræmingu fjölskyldu og atvinnu á meðal doktorsmenntaðra

Þrátt fyrir góða stöðu Íslands í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að jafnrétti kynjanna benda rannsóknir til þess að enn sé nokkuð óunnið þegar kemur að verkaskiptingu á heimilum. Konur bera enn meiri ábyrgð á heimilishaldi og umönnun barna. Þetta virðist eiga við þvert á stéttir og óháð menntun fólks. Niðurstöðurnar sem hér eru kynntar byggja á íslenskum hluta norrænnar rannsóknar sem hefur það að markmiði að skoða starfsferilsþróun á meðal fólks með doktorspróf, sem starfar bæði innan og utan háskóla. Rannsóknin byggir á fjölþættri gagnaöflun en hér verða kynntar niðurstöður úr viðtölum sem tekin voru við 32 einstaklinga. Um er að ræða konur og karla sem luku doktorsprófi á síðustu 5–20 árum og starfa á höfuð­borgar­svæðinu. Niðurstöðurnar benda til þess að konur sem lokið hafa doktorsprófi séu líklegri en karlar með doktorspróf til að lýsa álagi sem fylgir samræmingu fjölskyldu og atvinnu. Þá benda niðurstöðurnar til þess að akademískt starfsfólk finni fyrir meiri streitu við að samræma fjölskyldu og atvinnu en doktors­menntaðir sem starfa utan háskólasamfélagsins. Háskólafólki er tíðrætt um kosti sveigjanleikans sem það nýtur en talar jafnframt um að í honum felist þrýstingur á að vera alltaf í vinnunni, sem bitnar gjarnan á heimilisstörfum og fjölskyldulífi.

Andrea Hjálmsdóttir

Áhrif kyns, aldurs og fjölskyldugerðar á starfsferilsþróun doktorsmenntaðra á Íslandi

Síðan árið 2009 hefur Ísland setið á toppi lista Alþjóðalega efnahags­ráðsins yfir þau lönd sem teljast standa hvað best hvað varðar  jafnrétti kynjanna. Þrátt fyrir þann árangur hafa rannsóknir hér á landi sýnt fram á viðvarandi kynjahalla, ekki síst þegar kemur að akademíunni, stjórnunarstöðum í fyrirtækjum og launum. Ný­legar greiningar á stöðu kynjanna í íslensku háskólasamfélagi hafa til að mynda sýnt að karlar eru ekki einungis líklegri til að vera í prófessorsstöðum heldur reynist framgangur þeirra einnig almennt nokkuð hraðari en kvenna. Eins sýna tölur frá Hag­stofunni fram á töluverðan mun körlum í vil þegar kemur að stjórnunarstöðum og launum. Í ljósi þessa er markmið rann­sóknarinnar að skoða þróun starfsferils doktors­menntaðra einstaklinga bæði innan sem utan akademíunnar og kanna sérstaklega hvernig aldur, kyn og fjölskyldugerð hafa áhrif á þá þróun. Til greiningar verða nýtt langtímagögn Hag­stofunnar frá árunum 1997–2017. Sjónum verður beint að einstaklingum með 5–20 ára gamalt doktorspróf. Sérstaklega munum við skoða starfs- og launaþróun einstaklinga, en einnig verða þættir tengdir þróun fjölskyldugerðar, líkt og barneignir og fæðingar­orlofstaka skoðuð. Á grundvelli gagnanna viljum við kortleggja starfs­feril þessa tiltekna hóps og greina með hvaða hætti fyrr­nefndir þættir hafa áhrif þegar kemur að starfsferils­þróun þeirra á ólíkum sviðum vinnumarkaðarins.

Maya Staub

Event Details
 • Start Date
  01/11, 2019 15:00
 • End Date
  01/11, 2019 16:45
Höfundar erinda
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Ph.D. / Phd
Háskóli Íslands / University of Iceland
Doktorsnemi
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Nýdoktor / Post Doc
Háskóli Íslands / University of Iceland
Doktorsnemi / PhD student
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Nýdoktor / Post doc
Háskóli Íslands / University of Iceland
Event Details
 • Start Date
  01/11, 2019 15:00
 • End Date
  01/11, 2019 16:45