14. apríl 2025

Ofbeldi og vopnaburður ungmenna: Þróun, áhættuþættir, forvarnir og inngrip

Margrét Valdimarsdóttir dósent í félagsfræði flytur erindið.

Undanfarin ár hafa borist fregnir af fjölgun alvarlegra ofbeldisbrota meðal ungmenna og áhyggjur af vaxandi vopnaburði hafa verið áberandi. Í erindinu verður farið yfir þróun ofbeldishegðunar ungs fólks á Íslandi út frá fjölbreyttum gögnum. Farið verður í helstu áhættuþætti sem tengjast ofbeldishegðun og vopnaburði. Auk þess verður fjallað um gagnreyndar aðferðir til að draga úr ofbeldishegðun, bæði í formi almennra forvarna og sértækra inngripa fyrir þá sem hafa beitt ofbeldi. Rætt verður um hvaða aðgerðir skila árangri og hvaða nálganir geta haft öfug áhrif, með hliðsjón af bæði innlendum og alþjóðlegum rannsóknum.

Erindið er hluti af fyrirlestraröð Þjóðarspegilsins um ofbeldi.

7. apríl 2025

„Feita mellan þín, ég stúta þér“: Tegundir og birtingarmyndir ofbeldis í nánum samböndum

Freydís Jóna Freysteinsdóttir prófessor í félagsráðgjafardeild kynnir niðurstöður rannsóknar um ofbeldi í nánum samböndum.

Meginmarkmið rannsóknarinnar var að rannsaka tegundir og birtingarmyndir ofbeldis í nánum samböndum sem og kyn gerenda og þolenda í okkar litla norræna samfélagi. Dómar í sakamálum sem fólu í sér ofbeldi í nánum samböndum voru innihaldsgreindir. Niðurstöðurnar sýndu að gerendur voru 42, þar af 40 karlar og tvær konur. Líkamlegt ofbeldi var algengasta tegund ofbeldis, eða í yfir 90% tilfella, en lýsingar á tilfinningalegu ofbeldi komu fram í um 40% dómanna. Loks var að finna dæmi um kynferðislegt ofbeldi í nokkrum dómum (7%). Birtingarmyndir ofbeldisins voru fjölbreyttar, s.s. morðhótanir, að berja þolandann, hrinda honum, toga í hár hans, taka hann hálstaki eða nauðga honum. Í þriðjungi tilfella þegar um börn var að ræða urðu þau vitni að ofbeldinu. Hámarksrefsing fyrir ofbeldi í nánum samböndum reyndist ekki vera notuð í neinu þessara tilvika þrátt fyrir að sum þeirra fælu í sér mjög gróft ofbeldi gagnvart þolendunum.

Erindið er hluti af fyrirlestraröð Þjóðarspegilsins um ofbeldi.

31. mars 2025

Fjölskyldumiðuð hugræn atferlismeðferð: úrræði fyrir börn sem búa við ofbeldi

Fjallað verður um Fjölskyldumiðaða hugræna atferlismeðferð eða FM-HAM (á ensku Combined Parent-Child Cognitive Behavioral Therapy). FM-HAM er gagnreynt meðferðarúrræði  fyrir fjölskyldur þar sem hætta er á að börn séu beitt andlegu- og eða líkamlegu ofbeldi. Um er að ræða stutt erindi sem veitir fræðslu um meðferðarúrræðið, stöðu innleiðingar FM-HAM á Íslandi og framtíðarsýn.

Fyrirlesari er Paola Cardenas, lektor við Félagsráðgjafardeild.

Erindið er hluti af fyrirlestraröð Þjóðarspegilsins um ofbeldi.

21. mars 2025

Tinna Laufey Ásgeirsdóttir – Áhrif ofbeldis á þolendur: Hvernig metum við sársauka og þjáningu?

Fjallað verður um nýjar rannsóknir sem beita hagfræðilegum aðferðum til að meta efnahagslegt virði sársauka og þjáningar vegna ofbeldis. Meðal annars verður byggt á íslenskum gögnum og rætt hvernig mismunandi tegundir ofbeldis hafa áhrif á lífsgæði þolenda og hvernig hægt er að beita þessum mælingum til að styðja opinbera stefnumótun og réttlátari ákvörðunartöku um miskabætur.

Fyrirlesari er Tinna Laufey Ásgeirsdóttir prófessor í hagfræði.

Erindið er hluti af fyrirlestraröð Þjóðarspegilsins um ofbeldi.

14. mars 2025

Dagrún Ósk Jónsdóttir: Kynbundið ofbeldi í íslenskum þjóðsögum

Í erindinu greinir Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur frá rannsóknum sínum á birtingarmyndum kynbundis ofbeldis í íslenskum þjóðsögum frá 19. og 20. öld.

Kynbundið ofbeldi er sjaldan miðpunktur sagna en það má engu að síður finna í þjóðsagnasöfnum, bæði heimilisofbeldi og kynferðisofbeldi. Í erindinu verður sjónum meðal annars beint að því í hvernig sögum ofbeldi af þessu tagi birtist helst, hvaða tilgangi þessar sögur gætu hafa þjónað, hvað þær geta sagt okkur um kynjuð valdatengsl og hvaða áhrif það hefur hver segir söguna og hverjum.

5. mars 2025

Marco Solimene: Lögreglan, Róma innflytjendur og mannfræðingur í Róm

Fyrirlesturinn byggir á vettvangsrannsókn Marco Solimene meðal pappírlausra Bosníu-Róma sem búa í óformlegum byggðum á jaðri Rómar á Ítalíu. Rannsóknin fjallar um þær siðferðilegu og fræðilegu áskoranir sem mannfræðingar standa frammi fyrir í samhengi þar sem ofbeldi er allsráðandi og fléttast saman á mismunandi vegu. Fyrirlesari mun lýsa því hvernig kerfislægt ofbeldi, ofbeldisfull karlmennska lögreglunnar og aukin andúð á Rómafólk á grasrótarstigi mótuðu daglegt líf, samskipti og tengsl milli Róma. Hann mun líka lýsa þeim siðferðislegu klemmum og gildrum sem geta komið upp þegar mannfræðingar lenda í aðstæðum þar sem ofbeldi á sér stað. Kynningin fjallar um hið vandasama verk þess að skilgreina athafnir, samskipti og atburði sem ofbeldi og hættuna á því að rannsakendur taki óafvitandi þátt í, stuðli að eða viðhaldi slíku ofbeldi.
Fyrirlesturinn fer fram á ensku.

Einkennismynd-ofbeldi

Fyrirlestraröð Þjóðarspegilsins vor 2025 – Ofbeldi á Íslandi

Dagana 4. mars til 10. apríl 2025 verða haldin vikuleg erindi um ofbeldi á Íslandi. Fræðimenn úr ýmsum deildum Félagsvísindasviðs munu kynna niðurstöður rannsókna sinna:

4. mars: Marco Solimene, „Lögreglan, Róma innflytjendur og mannfræðingur í Róm“, Oddi 101 – kl 12:00-13:00

14. mars : Dagrún Ósk Jónsdóttir, „Kynbundið ofbeldi í íslenskum þjóðsögum“, Oddi 101 – kl 12:00-13:00

21. mars: Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, Áhrif ofbeldis á þolendurHvernig metum við sársauka og þjáningu?“, Oddi 101 – kl 12:00-13:00

28. mars: Paola Cardenas, Fjölskyldumiðuð hugræn atferlismeðferð: úrræði fyrir börn sem búa við ofbeldi“ HT-101 – Kl. 12:00-13:00

3. apríl: Freydís Freysteinsdóttir, „Feita mellan þín, ég stúta þér“: Tegundir og birtingarmyndir ofbeldis í nánum samböndum eins og það birtist í dómumOddi 101 – Kl. 12:00-12:40

10. apríl: Margrét Valdimarsdóttir, Ofbeldi og vopnaburður ungmenna: Þróun, áhættuþættir, forvarnir og inngrip.“ Oddi 101 – Kl. 12:00-13:00

Valdar rannsóknir:

Rannsóknir í viðskiptafræði

Rannsóknir í félagsfræði

Rannsóknir í þjóðfræði

Rannsóknir í lögfræði

Thjodarspegill_stubbur 2 2021
Skráning á póstlista

Skráning á póstlista

Nafn persónu, stofnunar eða félagasamtaka