Rannsóknir í viðskiptafræði

Leigumarkaðurinn á Íslandi

Rannsóknin kannar tvísýnleika (e. precarity) fólks á leigumarkaði, í húsnæðisaðstæðum sem flestir Íslendingar kjósa að vera ekki í til langframa. Þrátt fyrir að séreignarstefna sé ríkjandi hjá almenningi og stjórnvöldum, þá jókst fjöldi einstaklinga á leigumarkaði eftir hrunið 2008. Það hlutfall hefur staðið nánast óbreytt síðan þá, þrátt fyrir stöðugan efnahagsvöxt, að undanskildu tímabili Covid-19 faraldursins.

Skoðað er af hverju svo hátt hlutfall einstaklinga sé enn á leigumarkaði og hvaða aðgerðir séu nauðsynlegar til þess að breyta þeirri þróun. Einn veigamikill þáttur tengist ferðamennsku. Fjöldi íbúða í langtímaleigu hefur dregist saman með tilkomu Airbnb skammtímaleigu fyrir ferðamenn, sem veitir leigusölum í flestum tilvikum miklu betri tekjur. Samhliða því hefur fjöldi nýrra Íslendinga, sem eru af erlendu bergi brotnir, aukist mikið vegna atvinnutækifæra í ferðamannageiranum. Fæstir hafa annan kost en að leigja sér íbúð, í það minnsta í fyrstu. Því hefur framboð á leiguhúsnæði minnkað og eftirspurn aukist.

Þó svo að laun hafi hækkað að raunvirði undanfarin ár þá hefur hækkun húsnæðisverðs verið enn hærri. Með hækkandi húsnæðisverði hafa möguleikar fólks á því að kaupa sitt eigið húsnæði því enn minnkað samanborið við það sem áður var. Hætta er því að skapast hérlendis, sem er í takti við þróunina víða erlendis, að hér myndist svokölluð „leigukynslóð,“ sem á ensku nefnist Generation Rent. Slíkt getur valdið vanlíðan og óöryggi hjá fjölda einstaklinga.

Þessi rannsókn miðar að því að draga saman upplýsingar og rannsaka möguleika á því að sporna við slíkri þróun.

Fjármögnun og samstarfsaðilar

Mobility and Transnational Iceland (Rannís) og Rannsóknarsjóður Háskóla Íslands

Heimsmarkmið sem tengjast rannsókninni

  • 1. Engin fátækt
  • 2. Ekkert hungur
  • 3. Heilsa og vellíðan
  • 5. Jafnrétti kynjanna
  • 6. Hreint vatn og hreinlætisaðstaða
  • 10. Aukinn jöfnuður
  • 16. Friður og réttlæti
  • 17. Samvinna um markmiðin
Thjodarspegill_stubbur 2 2021