Rannsóknir í félagsfræði

Ójöfnuður á Íslandi: Samanburður yfir tíma og á milli svæða

Ójöfnuði hefur verið lýst sem einni mestu vá sem heimurinn stendur frammi fyrir á 21. öldinni. Ójöfnuður á sér stað út frá ýmsum þáttum, til dæmis kyni, tekjum, menntun og trúarskoðunum. Í þessari rannsókn köfum við dýpra í þau félagslegu mörk sem liggja á milli einstaklinga með að skoða hvernig mismunandi tegundir auðmagns hafa áhrif á viðhorf til tekjuójafnaðar og velferðarkerfisins.

Þar skoðum við sérstaklega efnahagslegt auðmagn sem vísar til kaupmáttar, menningarlegs auðmagns sem skoðar smekk og þátttöku einstaklinga í svokallaðri hámenningu, félagslegt auðmagn þar sem við skoðum hvernig einstaklingar eru tengdir inn í mismunandi elítur samfélagins og táknrænt auðmagn sem vísar til þeirrar virðingar sem einstaklingar hafa í ljósi stöðu sinnar sem gerir þeim auðveldara að ná fram áhrifum í samfélaginu.

Niðurstöðurnar sýna að efnahagslegt auðmagn hefur áhrif á viðhorf til ójafnaðar, þar sem þeir sem standa sterkar fjárhagslega eru síður líklegir til að sjá tekjuójöfnuð sem vandamál og að ríkisvaldið eigi að draga úr slíkum ójöfnuði. Við sjáum einnig að þau sem hafa hærra menningarlegt auðmagn upplifa það frekar sem óréttlátt að hægt sé að kaupa betri heilbrigðisþjónustu eða menntun.

Rannsóknir okkar sýna að Íslendingar vilja búa í tiltölulega jöfnu samfélagi, en það eru líka teikn á lofti um aukinn ójöfnuð hér á landi. Gögn eins og þessi geta nýst í stefnumótun og verið leiðarljós um hvernig samfélag Íslendingar í heild vilja og það hlýtur að vera hlutverk stjórnmálanna að skapa samfélag sem endurspeglar vilja þorra almennings.

Rannsóknarteymið

Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands og Jón Gunnar Bernburg, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.

Rannsóknin tengist námi í félagsfræði

Heimsmarkmið sem tengjast rannsókninni

  • 1. Engin fátækt
  • 10. Aukinn jöfnuður

Fjármögnun og samstarfsaðilar

Rannsóknarsjóður Rannís

Thjodarspegill_stubbur 2 2021