Rannsóknir í fötlunarfræði

Öll með í nýsköpun

Verkefnið Öll með í nýsköpun er afurð samstarfs á milli Stefans C. Hardonk, dósents við Háskóla Íslands, ÖBÍ, Landssamtaka Þroskahjálpar, Samtaka frumkvöðla og hugvitsmanna og Félags kvenna í nýsköpun.

Rannsókn sem Stefan C. Hardonk gerði árið 2020 sýnir að fatlað fólk vilji taka þátt í nýsköpun en upplifi á sama tíma hindranir. Því var myndað fyrrnefnt samstarf og mótaðar hugmyndir um hvernig mætti bæta stöðuna. Undirbúningur á frekari útfærslu hugmynda hófst árið 2022 og var styrkt af Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu.

Verkefnið hefur það að markmiði að veita fötluðum einstaklingum stuðning við nýsköpun og nær stuðningurinn til einstaklinga sem vilja taka þátt í nýsköpunarverkefnum annarra sem og þeirra sem vilja þróa sínar eigin hugmyndir. Stuðningurinn felst í fræðslu og ráðgjöf til fatlaðra einstaklinga en einnig til frumkvöðla, vinnuveitenda og sérfræðinga í virkniúrræðum fyrir fatlað fólk. Auk þess verður tækifærum til þátttöku í nýsköpun miðlað til fatlaðs fólks og veitt ráðgjöf um stuðning á vinnustaðnum í samstarfi við virkniúrræði og úrræði fyrir fatlað fólk á almennum vinnumarkaði. Að lokum fylgir samstarfsverkefninu rannsókn til að leggja mat á framkvæmd og árangur.

Undirbúningi var lokið í desember 2022 og er unnið að fjármögnun verkefnisins svo það geti farið í framkvæmd. Áhersla er á að stuðningurinn verði án aðgreiningar og nýtist bæði fötluðu fólki og öðrum aðilum í nýsköpun. Með þessum hætti er samstarfsverkefnið framlag til framkvæmdar nýsköpunarstefnu yfirvalda Nýsköpunarlandið Ísland en í henni er áhersla á fjölbreytt umhverfi nýsköpunar.

Rannsóknarteymið

Stefan C. Hardonk dósent í fötlunarfræðum og Sandra Halldórsdóttir verkefnisstjóri og MA í félagsfræði.

Fjármögnun og samstarfsaðilar

Unnið í samstarfi við Öryrkjabandalag Íslands – ÖBÍ, Landssamband Þroskahjálpar, Samtök frumkvöðla og hugvitsmanna og félag kvenna í nýsköpun.

Rannsóknin tengist meistaranámi í fötlunarfræði

Thjodarspegill_stubbur 2 2021