Rannsóknir í félagsfræði

Þátttaka almennings í COVID-19 sóttvarnaraðgerðum: Rauntímarannsókn á samstilltum aðgerðum

Rannsóknin skoðar hvaða öfl lágu að baki þátttöku íslensks almennings í COVID-19 sóttvarnaraðgerðum. Markmiðið er að skoða „farþegavandann“ með nýstárlegum hætti, það er, við viljum svara því hvað þarf til þess að einstaklingar ákveði að taka á sig persónulegan kostnað sem fylgir því að taka þátt í samstilltum aðgerðum (e. collective action).

Gagnaöflun fór fram í rauntíma: við gerðum daglegar kannanir til þess að fylgjast með þátttöku einstaklinga í sóttvarnaraðgerðum. Auk þess var kannað í rauntíma hvernig einstaklingarnir skynjuðu þátttöku annarra og hvernig þeir skynjuðu nytsemi aðgerðanna.

Niðurstöðurnar benda til þess að félagslegir hvatar gegndu veigamiklu hlutverki í að virkja einstaklinga til þátttöku í aðgerðunum. Þannig kemur í ljós að herðing sóttvarnarreglna jók þátttöku almennings í sóttvarnaraðgerðum einkum vegna þess að þegar reglurnar voru hertar töldu fleiri einstaklingar að aðrir væru að taka þátt í aðgerðunum. Að sama skapi kemur í ljós að eftir því sem leið á faraldurinn dróg úr þátttökunni að hluta til vegna þess að einstaklingar töldu síður að aðrir væru að taka þátt, auk þess sem trúin á nytsemi aðgerðanna minnkaði. Niðurstöður hafa gildi bæði fyrir aðila sem skipuleggja þurfa sóttvarnaraðgerðir í framtíðinni, auk þess sem þær bæta við almenna kenningu um farþegavandann.

Rannsóknarteymið

Jón Gunnar Bernburg prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, Sigrún Ólafsdóttir prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, Magnús Torfason dósent í viðskiptafræði og Guðbjörg Andrea Jónsdóttir forstöðumaður Félagsvísindastofnunar.

Fjármögnun og samstarfsaðilar

Félagsvísindastofnun bar kostnað af framkvæmdinni

Rannsóknin tengist námi í félagsfræði

Heimsmarkmið sem tengjast rannsókninni

  • 3. Heilsa og vellíðan
Thjodarspegill_stubbur 2 2021