Þjóðarspegillinn – rannsóknir í félagsvísindum
Hvernig hefur samfélagið áhrif á hegðun fólks sem í því býr? Hvernig bregst fólk við breytingum og hvernig myndar það tengsl sín á milli? Þetta er meðal þeirra ótal spurninga sem rannsóknir í félagsvísindum fást við að svara. Viðfangsefnin eru fjölmörg: allt frá stjórnskipulagi og lögum til menningar, upplýsinga og fötlunar svo örfá dæmi séu tekin. Flestar eiga þessar rannsóknir beint og ekki síður brýnt erindi við íslenskt samfélag.
Í samræmi við stefnu HÍ um aukinn sýnileika og virkara samtal fræðanna við samfélagið var ákveðið að ráðast í það verkefni að vinna markvisst að því að auka sýnileika rannsókna í félagsvísindum og stuðla að enn virkari samvinnu við samfélagið. Í dag vísar hugtakið Þjóðarspegillinn því ekki einvörðungu til ráðstefnu sem haldin er einu sinni á ári heldur til vettvangs samtals félagsvísinda við samfélagið allt árið um kring.
Ráðstefna Þjóðarspegilsins
Ráðstefna Þjóðarspegilsins hefur verið haldin frá því árið 1994. Frá upphafi hefur verið lögð mikil áhersla á að hún sé ekki aðeins vettvangur fyrir fræðafólk að ræða hvert við annað heldur einnig vettvangur fyrir virkt samtal félagsvísindanna við samfélagið utan veggja háskólanna. Ráðstefnan er hluti af Þjóðarspeglinum, sem í heild nær yfir umfangsmeiri miðlun og kynningu á rannsóknum félagsvísinda. Þessi vefsíða er afrakstur vinnu í samræmi við þessa breyttu áherslu.
Hafðu samband
Vinnur þú að rannsókn sem vert er að lyfta upp á þessum vettvangi ? Eða ertu með ábendingu eða fyrirspurn um rannsóknir í félagsvísindum? Endilega sendu okkur línu.