Ráðstefna Þjóðarspegilsins
2. og 3. nóvember 2023

Opnun ráðstefnunnar verður frá kl. 15:00 til 16:30, fimmtudaginn 2. nóvember, í Hátíðasal Aðalbyggingar Háskóla Íslands. Viðburður verður einnig í streymi. (smella hér fyrir streymi)

Stefán Hrafn Jónsson,
forseti Félagsvísindasviðs, setur ráðstefnuna

Hulda Proppé, rannsóknastjóri Félagsvísindasviðs:
Mikilvægi ráðstefnu Þjóðarspegilsins fyrir samfélagið

Opnunarerindi

Sigríður Benediktsdóttir,
lektor við Viðskiptafræðideild: Samspil fasteignalána, peningastefnu og fjármálastöðugleika

Pallborð

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna
Kári Hólmar Ragnarsson, lektor við Lagadeild
Sigríður Benediktsdóttir, lektor Viðskiptafræðideild
Sigurður Jóhannesson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar

Pallborðsumræðum stýrir Gylfi Magnússon, prófessor við Viðskiptafræðideild

Föstudagurinn 3. nóvember

Á föstudeginum er ráðstefnudagurinn sjálfur og málstofur hefjast en ítarlega dagskrá má nálgast með því að smella á hnappinn hér fyrir neðan.

Mynd af Stefáni Hrafni Jónssyni forseta Félagsvísindasviðs

Ótrúlegt en satt 

Það er eins og gerst hafi í gær en skyndilega eru tvö ár liðin frá því að við héldum ráðstefnu Þjóðarspegilsins með fjarfundabúnaði í ljósi óvissu í sóttvarnarmálum. Í ár stóðum við fyrir annarri en jákvæðari áskorun og færðum ráðstefnuna aftur um viku til að auðvelda samræmingu vinnu og einkalífs þegar stór hluti grunnskóla á höfuðborgarsvæðisins er með vetrarleyfi. Flest okkar erum sammála um mikilvægi þess að geta haldið ráðstefnuna í salarkynnum skólans þar sem mikið af mannlegum samskiptum tapast með notkun á rafrænum tengibúnaði.

Árlega tekst kennurum og öðru starfsfólki Félagsvísindasviðs að púsla saman stofubókunum til þess að við náum að halda ráðstefnuna með miklum sóma. Kennarar hliðra til, til þess að starfsfólk Félagsvísindastofnunar og skrifstofu Félagsvísindasviðs nái að setja saman öfluga dagskrá. Eins og í fyrra þá  hefjum við ráðstefnuna á fimmtudegi með inngangsfyrirlestri þar sem Sigríður Benediktsdóttir lektor við Viðskiptafræðideild fjallar um hvort fyrirkomulag fasteignalána hafi áhrif á fjármálastöðugleika. Í kjölfarið verða pallborðsumræður undir stjórn Gylfa Magnússonar prófessors í Viðskiptafræðideild þar sem þeir Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna, Kári Hólmar Ragnarsson lektor við Lagadeild og Sigurður Jóhannesson forstöðumaður Hagfræðistofnunar bregðast við erindi Sigríðar.

Ráðstefna Þjóðarspegilsins er nú haldin í tuttugasta og fjórða sinn. Eins og fram hefur komið í fyrri ávörpum þá stóðu Félagsvísindadeild og Viðskipta- og Hagfræðideild Háskóla Íslands að fyrstu ráðstefnu Þjóðarspegilsins árið 1994. Síðar bættist Lagadeild við. Allar deildir Félagsvísindasviðs hafa staðið að ráðstefnunni frá árinu 2008. Friðrik H. Jónsson, prófessor í sálfræði og fyrrum forstöðumaður Félagsvísindastofnunar og Ingjaldur Hannibalsson prófessor í viðskiptafræði og fyrrum deildarforseti Viðskiptafræðideildar voru helstu hvatamenn fyrstu ráðstefnu Þjóðarspegilsins.

Árið 2006 var ráðstefnan nefnd Þjóðarspegillinn  en á  síðasta ári stækkuðum við hlutverk hans þannig að hugtakið nær ekki aðeins yfir árlega ráðstefnu heldur er Þjóðarspegilinn stærri vettvangur fyrir kynningar á íslenskum rannsóknum í félagsvísindum. Frá því að ráðstefna Þjóðarspegilsins var haldin fyrst, hefur verið lögð mikil áhersla á að hún væri ekki aðeins vettvangur fyrir fræðafólk að ræða hvert við annað heldur einnig vettvangur fyrir virkt samtal félagsvísindafólks út fyrir háskólasamfélagið. Þessi áhersla hefur þannig stutt við að sérfræðingar í félagsvísindum hafa í nokkra áratugi átt gott og virkt samtal við íslenskt samfélag samhliða því að birtingatíðni þeirra á erlendum vettvangi hefur stóraukist. Þessi áhersla er og verður áfram hugmyndafræðin á bak við útvíkkað hlutverk Þjóðarspegilsins, að hann styðji við þetta hlutverk árið um kring. Eins og dagskrá ráðstefnunnar í ár ber glöggt vitni um er mikil gróska í rannsóknum í félagsvísindum á Íslandi.

Félagsvísindastofnun hefur frá upphafi haft umsjón og skipulagt ráðstefnu Þjóðarspegilsins í samvinnu við annað gott starfsfólk sviðsins. En ráðstefnan verður ekki að veruleika ef ekki væri fyrir þátttöku fyrirlesara, málstofustjóra og annarra góðra gesta. Ég vil þakka öllum sem koma að ráðstefnunni fyrir þeirra góðu vinnu.

Dagskráin fram undan með öllum þeim áhugaverðu erindum eru glöggt merki um blómlegt og kröftugt starf félagsvísinda á Íslandi og að það mun halda áfram að þróast og dafna sem aldrei fyrr.

Eigið góðar stundir.

Stefán Hrafn Jónsson, forseti Félagsvísindasviðs

Thjodarspegill_stubbur 2 2021