Rannsóknir í safnafræði

Samofin tengsl loftslags, lífríkis og fólks í og við Ísland

Þessi rannsókn er hluti af heildarmarkmiði ROCS rannsóknasetursins og svarar sífellt háværara kalli eftir athugunum sem fást við að endurheimta og þróa þekkingu um heiminn sem samtvinnaða heild. Í því felst að fara handan hefðbundins aðskilnaðar náttúru, menningar, og samfélags á Mannöld en hugmyndir sem byggja aðskilnaði þessara þátta og tengslaleysis þeirra hver við annan þykja ekki vænlegar til að fást við krefjandi vanda sem birtist meðal annars í loftslagbreytingum og dvínandi líffræðilegum fjölbreytileika. Megin verkefni ROCS rannsóknasetursins snúa að rannsóknum og greiningu á sögulegu sambandi vistkerfa og loftslagsþróunar. Verkefnið beitir nýjum aðferðum við greiningu sýna úr sjónum umhverfis Ísland og meira en fimmtíu íslenskum vötnum, til að mynda eDNA sem leiðir í ljós lífríki tugi þúsunda ára aftur í tímann og varpar ljósi á sögulegt samspil.

Rannsóknin Enmeshed climate/biosphere/human relationships in Iceland tekur til skoðunar hvernig íslensk menning og samfélag, og náttúra hafa átt í gagnkvæmu sambandi í tímans rás og hvernig setlög í sjó og landi geyma arf sem tengist íslenskri menningu og samfélagi órjúfanlegum böndum. Hér er skoðað hvernig arfur getur verið annað en ákveðnir hlutir, staðir eða athafnir; til dæmis samspil og samhengi aðstæðna, dýra, sjávar, loftslags, menningar og mannvera. Það undirstrikar flókin tengsl sem mikilvæga hluta fortíðar og getur vakið spurningar um stöðu mannvera í veröldinni og samlíf hennar með náttúru í fortíð, nútíð og framtíð.

Í þessu rannsóknarverkefni er það talið mikilvægt að skoða samspil ólíkra þátta með því að spila saman ólíkum fræðigreinum. Til þess að ýta undir samþættingu þekkingar og samsköpun hugmynda leitar athugunin fanga í sjálfstæðri gagnasöfnun eins og venja er en einnig yfirgripsmiklu og nánu samstarfi við rannsóknir ROCS innan náttúruvísinda, allt frá grunni. Rannsóknin mun, sem fyrr segir, leiða í ljós samhæfðar hreyfingar áður ótengdra þátta. Hún er mikilvægt framlag til heildar rannsóknar ROCS og er ein og sér innlegg í þekkingu á sviði þverfaglegs samstarfs, menningararfsfræða, annarra félagsvísinda og jafnvel alla leið til náttúruvísinda, sem og nýsköpunar á ýmsum sviðum.

Rannsóknarteymið

Rannsóknin er viðfangsefni Arndísar Bergsdóttur og byggir á nánu samstarfi við nýdoktora ROCS og annað fræðafólk þvert á fræðasvið náttúru- og mannvísinda.

Fjármögnun

Rannsókn Arndísar er fjármögnuð með styrk frá RANNÍS en ROCS rannsóknasetrið er fjármagnað með styrk frá Carlsberg sjóðnum, RANNÍS, og íslenska ríkinu.

Thjodarspegill_stubbur 2 2021