Rannsóknir í lögfræði

Réttur til húsnæðis

Húsnæðismál snúast um grunnþarfir einstaklinga en húsnæðismarkaðurinn er einnig lykilþáttur í efnahagskerfinu. Óstöðugleiki á húsnæðismarkaði hefur verið í brennidepli, eignabólur hafa myndast, erfitt hefur reynst að hafa áhrif á framboð og eftirspurn, byrði húsnæðiskostnaðar er þung hjá stórum hópi fólks, bæði á leigumarkaði og eignamarkaði, og hlutverk fagfjárfesta á markaðinum er umdeilt.

Meðal alþjóðlegra mannréttindaskuldbindinga Íslands er réttur til viðeigandi lífsskilyrða, þar með talið réttur til húsnæðis. Í þeim rétti felst m.a. að húsnæði sé fjárhagslega viðráðanlegt. Ríkið ber margþættar skyldur til þess að koma réttinum til framkvæmdar, bæði athafna- og athafnaleysisskyldur. Nær ekkert hefur verið fjallað um réttinn til húsnæðis hér á landi, þótt ljóst megi vera að húsnæðisöryggi sé lykilþáttur viðunandi lífskjara.

Rannsóknin lýtur að því að greina inntak réttarins til húsnæðis og stöðu hans í íslenskum rétti og bregða mannréttindasjónarhorni á húsnæðismarkaðinn. Þannig verður greint hvaða kröfur má gera til reglusetningar t.d. um vernd leigjenda, framkvæmd fullnustugerða og virkara hlutverk ríkisins við að tryggja rétt til viðeigandi húsnæðis.

Mannréttindasjónarhorn veitir tækifæri til aukinnar áherslu á það samfélagslega hlutverk húsnæðis að vera heimili fólks fremur en fjárfestingarkostur og kann því að nýtast sem leiðarstef við mótun húsnæðisstefnu og löggjafar á því sviði.

Rannsóknarteymið

Kári Hólmar Ragnarsson lektor við lagadeild Háskóla Íslands og Diljá Björt Stefánsdóttir meistaranemi í lögræði

Heimsmarkmið sem tengjast rannsókninni

  • 1. Engin fátækt
  • 6. Hreint vatn og hreinlætisaðstaða
  • 10. Aukinn jöfnuður
Thjodarspegill_stubbur 2 2021