Rannsóknir í kynjafræði
Vinnumenning lögreglu: staða og þróun kynjajafnréttismála
Lögreglan er mjög kynjaskiptur vinnustaður og ásýnd lögreglustarfsins er mjög karllæg. Markmið rannsóknar var að fá innsýn í vinnumenningu og kynjatengsl lögreglunnar, gera samanburð við fyrri rannsóknir.
Meginniðurstöður rannsóknarinnar eru að breytingar í jafnréttisátt eru hægar. Lögreglan er enn mjög kynjaskiptur vinnustaður og engin merki eru um að það muni breytast án þess að ráðist verði í aðgerðir. Konum hefur þó fjölgað meðal lögreglumanna, en það mun ekki eitt og sér leiða af sér jafnrétti og inngildandi vinnumenningu í lögreglunni. Brotthvarf er enn hlutfallslega meira meðal kvenna en karla. Ólíklegt er að brotthvarf kvenna megi rekja til erfiðleika við að samræma vinnu og einkalíf, en karlar virðast eiga erfiðara með að ná jafnvægi þar. Nokkuð mikið er um óviðeigandi hegðun, s.s. einelti, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni, innan lögreglunnar og eru konur líklegri en karlar til að verða fyrir slíkri hegðun, og þá oftast af hendi karlkyns samstarfsmanna eða karlkyns yfirmanna. Þegar kemur að kynferðislegri áreitni, þá er vitneskja um slíka hegðun nokkuð mikil innan lögreglunnar og vísbendingar um að starfsfólk skorti úrræði til að bregðast við þegar það verður vitni að slíkri hegðun á vinnustaðnum. Enn eru kynjaðar hugmyndir um störf innan lögreglunnar. Niðurstöðurnar benda til þess að konur séu velkomnar til starfa sem lögreglumenn svo lengi þær séu taldar líkamlega sterkar og valdsmannslegar. Enn telur stór hluti karlkyns lögreglumanna að konur séu ekki hæfar til að sinna ákveðnum störfum innan lögreglunnar. Þó er ljóst að konur treysta sér og öðrum konum til að sinna öllum störfum lögreglu.
Niðurstöður rannsóknarinnar varpa ljósi á að enn er mikil þörf á menningarlegum og kerfisbundnum breytingum innan lögreglunnar. Til að stuðla að góðu og inngildandi vinnuumhverfi fyrir allt starfsfólk lögreglu munu rannsakendur í samvinnu við Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu og Landssamband lögreglumanna þróa þjálfun um samskipti og viðeigandi hegðun á vinnustöðum lögreglu. Verkefnið hefur hlotið styrk frá Nordforsk árin 2023-2027
Rannsóknarteymið
Finnborg S. Steinþórsdóttir, aðjúnkt í kynjafræði við stjórnmálafræðideild HÍ. Gyða M. Pétursdóttir, prófessor í kynjafræði við stjórnmálafræðideild HÍ.
Fjármögnun og samstarfsaðilar
Rannsóknin var styrkt af embætti ríkislöreglustjóra, en hún er liður í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum.
Fréttir sem tengjast rannsókninni
Rannsókn tengist námi í kynjafræði og stjórnmálafræði
Útgefið efni um rannsóknina
Heimsmarkmið sem tengjast rannsókninni
- 1. Heilsa og vellíðan
- 5. Jafnrétti kynjanna
- 8. Góð atvinna og hagvöxtur