Stefnumót við torfhús: Rými, upplifun, arfleifð
Málstofustjóri: Ólafur Rastrick
Torfbæinn sem efnislegt fyrirbæri og vettvangur skynjunar í sögu og samtíð er viðfangsefni þessarar málstofu. Gerð verður grein fyrir nýjum rannsóknum á sviði þjóðfræða og safnafræða sem beina sjónum hversdagslegu samlífi fólks og húsa í fortíðinni og hvernig er unnið með arfleið torfbæjanna í samtímanum.
Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan og upptöku af málstofunni með því að smella hér.
Lyktarheimur torfbæjarins
Í vestrænni menningu hefur heimurinn yfirleitt verið skilgreindur út frá sjón og heyrn. En á undanförnum árum hefur fræðasamfélagið fengið meiri áhuga á því að skilja líkamlega reynslu fólks á fyrri tímum og öðrum skynfærum eins og lyktarskyninu hefur verið veitt meiri athygli. Í þessu erindi verður fjallað um lykt fortíðar og reynt að veita örlitla innsýn í íslenska lyktarsögu með könnunarferð inn í horfinn heim torfbæjarins. Með því að gera tilraun til að endurskapa lyktarheim fortíðar, þ.e. að rýna í minningar þeirra sem bjuggu í torfbæjum, komumst við nær því að skynja lifnaðarhætti fyrri tíma. Í þessari rannsókn voru skoðaðar endurminningar fólks sem bjó í torfbæjum og tekin viðtöl við nokkra einstaklinga sem ólust upp í torfhúsi. Rannsóknin leiddi meðal annars í ljós að lyktarheimur torfbæjarins var mjög afmarkaður og einkenndist jafnframt af því að torfbærinn var bæði heimili og vinnustaðar. Lyktina af dýrum, fólki, torfi, reyknum úr hlóðaeldhúsinu og matnum mátti finna í flestum lýsingum. Þó að stundum sé talað um að allir torfbæir hafi lyktað eins, kemur í ljós að hver torfbær var sérstæður og heimilislyktin frábrugðin eins og á nútímaheimilum. Jafnframt er ljóst að lykt hvers samfélags og tímabils er einungis tímabundinn spegill þess samfélags sem hann tilheyrir sem verður ekki endurskapaður að fullu nema með því að taka aftur upp sömu búskaparhætti.
Rými torfbæjarins og líkamleg fötlun
Á síðustu áratugum hefur sjónum talsvert verið beint að því hvernig hönnun og skipulag íveruhúsa hefur áhrif á lífsgæði einstaklinga með líkamlegar skerðingar af einhverju tagi. Slíkar rannsóknir hafa einkum beinst að húsakosti samtímans, ekki síst í þéttbýli, og fást meðal annars við spurningar um aðgengi og hreyfanleika innan og utan veggja heimilanna t.d. fyrir fólk sem notar stoðtæki eða hjólastóla. Í erindinu er slíkum sjónarmiðum varpað á fyrri tíð með athugun á félagslegu rými fötlunar í torfbæjarsamfélagi nítjándu aldar. Á grundvelli valinna dæma af einstaklingum sem höfðu líkamlegar skerðingar verður samspil fötlunar og hversdagsrýmis torfbæjarins tekið til skoðunar. Dregið verður fram hvernig miðlæg staða bæjarins í daglegu lífi fólks – sem heimili, vinnustaður, vettvangur menntunar og félagslífs – skapaði önnur tækifæri til samfélagsþátttöku einstaklinga með líkamlega fötlun heldur en iðnvædda borgarsamfélagið átti eftir að gera. Sjónum verður ekki síst beint að því hvernig rýmisskipan hinna lífrænu torfhúsa skapaði annars konar samtal við ólíka líkama heldur en módernísku rými iðnvædda borgarsamfélagsins sem til skamms tíma miðuðust nær alfarið við viðtekna og staðlaða líkama hinna ófötluðu. Þótt ómannúðleg framkoma, frumstæð hjálpartæki og grimmileg örbirgð hafi vissulega orðið hlutskipti margra einstaklinga með skerðingu á fyrri tíð verður sá möguleiki skoðaður hvort rými og skipan torbæjarsamfélagsins hafi á vissan hátt stuðlað að minni fötlun fólks með öðruvísi líkama heldur en þéttbýlissamfélag tuttugustu aldar bauð upp á.
Lykilorð: hús, fötlun, rými
Anarkismi, arfleifð og torfhús
Á undanförnum árum hefur umræða um íslenskan menningararf gengið í endurnýjun lífdaga. Horfið hefur verið frá einstrengingslegum skilgreiningum á menningararfi á grundvelli hugmyndarinnar um íslenska þjóð og gerðar tilraunir til að endurmeta arfleifðina sem hluta af alþjóðlegu samhengi. Íslensk torfhús eru dæmi um viðfangsefni í þessum efnum, þar sem þeim hefur verið lýst sem mótandi afl íslensks samfélags og menningar, og þar af leiðandi talin eitt af helstu ummerkjum efnislegrar menningar í landinu sem beri að varðveita. Á síðari árum hefur losnað um þjóðernislegar skoðanir á torfhúsum og farið að gera því skóna að þau séu „menningararfur mannskyns alls.“ Ástæðurnar fyrir endurmatinu eru að minnsta kosti þrennskonar. Menningarpólitík á Íslandi hefur haldist í hendur við víðtækar samfélagsbreytingar undanfarin 30 ár, þar sem áhersla hefur verið lögð á einstaklingsframtak, frumkvæði og endurmat á hlutverkum menningarstofnana. Aukin hnattræn tengsl hafa opnað nýja möguleika í stjórnkerfi menningarinnar um skipan sannleikans um þá menningararfleifð sem fyrirfinnst á Íslandi. Og gagnrýnin fræðileg umræða um menningararf hefur jafnframt verið að skjóta rótum um skilgreiningar og iðkun í tengslum við menningararf. Það sem þessir þræðir eiga sameiginlegt er að þeir afhjúpa flókið samspil félagslegs fyrirkomulags sem vekur upp spurningar um atbeina, vald og valdleysi í tengslum við skilgreiningar og iðkun á menningararfi. Í þessu erindi verður sjónum beint að torfhúsum í samhengi við áðurtalda þróun.
Lykilorð: anarkismi, torfhús, arfleifð
Á milli torfveggja: líf inní framandi rými
Grenjaðarstaður er torfbær, reistur 1865. Þar hefur verið starfrækt byggðasafn frá 1958 sem er nú undir umsjón Menningarmiðstöðvar Þingeyinga. Á stuttum tíma breyttist bærinn úr lifandi híbýlum yfir í byggðasafn en búið var í bænum fram á fimmta áratug 20. aldar. Þessi snögga umbreyting segir sitthvað um stöðu torfbæjarins á 20. öld en einnig þeirri 21. Í rúmt hálft ár hafa starfsmenn safnsins verið að undirbúa leiðsagnarbækling um bæinn en við þá vinnu hafa ótal spurningar vaknað. Ljóst er að bærinn gegnir í dag því hlutverki að standa fyrst og fremst fyrir eitthvað sem var, sem eftirmynd af einhverju óljósu sem flókið er að ná utan um. Í dag er lífið innan bæjarins skapað af gestum og starfsmönnum sem nýta hann sem leið til að mynda tengsl við og skilja eitthvað sem er þeim í raun framandi. Spurningar um hvaða forgangsröðun skuli höfð á staðreyndum, hverju er mikilvægt að miðla og hvaða reynslu eigi að skapa fyrir safngestinn hafa leitt af sér lifandi umræður á meðal starfsmanna og hugleiðingar um tilgang staða líkt og Grenjaðarstaðar. Í fyrirlestrinum verður nokkrum þáttum af þessu sköpunarferli lýst og rætt hvað vinna sem þessi segir okkur um staði líkt og Grenjaðarstað.
Lykilorð: torfbær, sýning, safn