Málstofa um ferðamál

Málstofustjóri: Guðrún Þóra Gunnarsdóttir og Þorvarður Árnason

Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) stendur fyrir tveimur málstofum um ferðamál í samvinnu við rannsakendur við Háskóla Íslands.  Viðhorf erlendra ferðamanna, staða erlends starfsfólks, áhrif orkugeirans á íslensk ferðaþjónustufyrirtæki og áhrif Covid-19 eru á meðal þeirra viðfangsefna sem kynnt verða í málstofunum tveimur.

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Fyrri hluti málstofu

kl. 09:00 til 10:45

Langtímarannsókn á viðhorfum ferðamanna í Landmannalaugum

Langtímarannsóknir í ferðamálafræðum fela í sér söfnum sam­bæri­legra gagna á a.m.k. tveimur tímapunktum, ásamt greiningu og samanburði á gögnunum á milli tímabilanna sem um ræðir. Í þeim er leitast við að skilja hvernig og hvers vegna mismunandi þættir ferðaþjónustunnar, ferðamanna og ferða­manna­staða breytast. Langtímarannsóknir sem greina þróun á ánægju og viðhorfum ferðamanna til víðerna og lítt raskaðrar náttúru eru mjög takmarkaðar, ekki aðeins hér á landi heldur einnig á heimsvísu. Slíkar upplýsingar eru hins vegar mjög mikilvægar til að viðhalda samkeppnishæfni ferðamannastaða og eru grundvöllur sjálfbærrar nýtingar þeirra. Í þessu erindi er greint frá niðurstöðum langtímarannsóknar á viðhorfum ferða­manna í Landmannalaugum. Rannsóknin byggir á spurninga­lista­könnunum sem var lögð fyrir ferðamenn í Landmanna­laugum sumrin 2000, 2009 og 2019. Alls fengust svör frá um 2.900 einstaklingum. Meginmarkmiðið var að greina hvernig ánægja ferðamanna og skynjun þeirra á fólksfjölda, umhverfinu og innviðum hefur breyst á árunum 2000, 2009 og 2019. Niðurstöður leiddu í ljós að ferðamenn eru almennt mjög ánægðir með dvöl sína á svæðinu en þó benda niðurstöðurnar til þess að ánægja ferðamanna sé að dvína. Ástæður þess eru margvíslegar en tengjast annars vegar innviðum, skipulagi og þjónustu og hins vegar vaxandi fjölda ferðamanna.

þjónustu og hins vegar vaxandi fjölda ferðamanna..

Anna Dóra Sæþórsdóttir

Lykilorð: langtímarannsóknir, upplifun ferðamanna, Landmannalaugar

Erlendir ferðamenn í Landmannalaugum: Fyrirframþekking og upplifun af landslagi

Í erindinu er horft til hlutverks fyrirframþekkingar í upplifun af landslagi, út frjá sjónarhóli tilvistarlegrar fyrirbærafræði. Nánar tiltekið er horft til þess hvernig upplifun af landslagi grundvallast á tengslum manns og umhverfis: Annars vegar þeim líkamlegu tengslum sem verða til í skynjun manns á umhverfi sínu og hins vegar þeim hugmyndum sem maðurinn kemur með inn í það tengslanet. Fjallað verður um upplifun erlendra ferðamanna í Landmannalaugum í þessu ljósi. Byggt er á eigindlegri viðtalsrannsókn sem hefur það markmið að leita skilnings á þeim þáttum sem móta upplifun af þessum tiltekna stað. Tekin voru viðtöl, 21 að tölu, við fjölbreyttan hóp 33 erlendra ferðamanna. Í viðtölunum var spurt út í upplifun ferðamannanna af svæðinu og um þekkingu þeirra af svæðinu áður en þeir komu þangað. Greining viðtalsgagnanna leiðir í ljós að meginþættir í upplifun viðmælenda af Landamannalaugum lúta annars vegar að sjónarmiðum tengdum umhverfismálum og hins vegar að skynjun þeirra á umhverfi Landmannalauga. Fyrirframþekking viðmælenda virðist að einhverju leyti liggja upplifun þeirra og viðhorfum til grundvallar, þá sérstaklega hugmyndir um fólksfjölda. Nánar tiltekið sú forsenda að Landmannalaugar séu fjölmennur ferðamannastaður sem allir hafi rétt á að heimsækja. Í erindinu verður rætt um hvaða þýðingu þetta getur haft fyrir þróun innviða og náttúrufars, sem og þróun Landamannalauga sem áfangastað fyrir ferðamenn.

Edda R. H. Waage

Lykilorð: Landmannalaugar, upplifun, fyrirframþekking

Vindorka og viðhorf ferðaþjónustunnar

Þróun í framleiðslu vindorku hefur verið hröð á undanförnum árum og er hún orðin hagkvæmari en framleiðsla á orku með vatni og jarðvarma. Áhugi á vindorkuframleiðslu hefur því aukist mikið bæði á heimsvísu en einnig hér á landi. Rannsóknir erlendis hafa leitt í ljós að ein helsta ástæða fyrir andstöðu við vindorkuframleiðslu er neikvæð sjónræn áhrif. Vindmyllur eru áberandi mannvirki í landslaginu og breyta þar með ásýnd lands og upplifun fólks á landslaginu. Þar sem vindorka er nýr orku­kostur á Íslandi er þekking á samspili hennar og ferða­þjónust­unnar mjög takmörkuð. Í ljósi þess að náttúran, þar með talið náttúrulegt landslag, er ein helsta auðlind íslenskrar ferða­þjón­ustu er mikilvægt að átta sig á mögulegum áhrifum vind­orku­vera á ferðaþjónustuna. Í erindi þessu er greint frá rannsókn þar sem leitast er við að varpa ljósi á viðhorf ferðaþjónustuaðila til fjögurra vindorkuvera sem eru til skoðunar í fjórða áfanga Rammaáætlunar (Vernd- og orkunýtingaráætlunar): Garpsdal og Sólheimum á Vesturlandi, Hörgárdal við Eyjafjörð og svokölluðum Búrfellslundi við Þjórsá. Tekin voru hálfstöðluð viðtöl við rúmlega fjörutíu ferðaþjónustuaðila. Niðurstöður benda til þess að viðmælendur töldu vindorkuver oft á tíðum hafa neikvæðari áhrif á ferðaþjónustu í samanburði við vatns­afls- og jarðgufustöðvar, og er það einkum vegna sjónrænu áhrifa vindmyllanna.

Margrét Wendt

Lykilorð: ferðaþjónusta, vindorka, viðhorf

Sjálfbærnivísar sem stýritæki í þróun ferðamennsku

Í stefnuramma ríkisstjórnarinnar um framtíðarsýn og áherslur í ferðaþjónustu til 2030 er stefnan sett á að vera leiðandi í sjálfbærri þróun. Sjálfbær þróun er flókið hugtak sem grund­vallast á heildarsýn allra þátta sem hafa áhrif á velferð okkar sem íbúa á ákveðnu svæði. Stefnuyfirlýsing stjórnvalda vekur því meðal annars upp þá spurningu hversu stór fyrirmynd íslensk ferðaþjónusta sé úti í hinum stóra heimi hvað varðar sjálfbæra þróun. Breyttar aðstæður í samfélaginu gefa ákveðið tækifæri til að endurskoða farinn veg. Þessi rannsókn beinir sjónum að þróun sjálfbærnivísa fyrir ferðamennsku með sérstakri áherslu á þátttöku íbúa. Lykilvísar voru valdir, greindir, ræddir og forgangsraðað eftir mikilvægi. Hannaður var matsrammi til að meta raunhæfni vöktunar hvers vísis, og DPSIR-rammalíkanið notað til að greina orsakatengsl á milli mismunandi áhrifaþátta. Niðurstöður sýna að sjálfbærnivísa þarf stöðugt að endurmeta og uppfæra þar sem ferðamennska er hluti af flóknu kerfi sem er sífellt í breytingu. Alþjóðleg viðmið eru í stöðugri þróun, staðbundin verkefni leggja sömuleiðis stöðugt til nýja þekkingu og reynslu heimafólks. Á stöðum þar sem álag ferðamanna er mikið breytist enn fremur viðhorf íbúa til þess hvað mikilvægt sé að taka til greina í vísunum hratt. Þar af leiðandi þarf að endurmeta sjálfbærnivísa reglulega og fara í gegnum ferlið aftur. Sjálfbærnivísa á því í raun aldrei að líta á sem endanlega.

Rannveig Ólafsdóttir     

Lykilorð: sjálfbær ferðamennska, sjálfbærnivísar

Perceived size of the impact area of renewable energy infrastructure on tourism: Views of the tourism industry

Renewable energy infrastructure (REI) transforms landscapes and thereby might impact nature-based tourism. The character and scale of these impacts, among other factors, depends on the perceived suitability of REI in specific landscapes. Thus, while analyzing the impacts of REI on tourism it is important to investigate how compatible are the meanings added by REI with the existing place identity. Moreover, there is a need for further research regarding the spatial dimensions of the tourism-REI interrelationships.The present study aims to estimate the size of the impact area of REI on tourism as perceived by the tourism industry and to investigate the factors affecting it. Qualitative research methods were chosen for this study and over forty semi-structured interviews were conducted with the tourism industry stakeholders operating near six existing or proposed hydro-, geothermal and wind power projects in Iceland. During the interviews participatory mapping software was used for the estimation of the impact areas. The results show that the size of the impact areas of REI on tourism is perceived very differently by various tourism industry stakeholders and, among other factors, depends on visual impacts, impacts on visitor experience, movement of tourists, perceptions of landscape and level of development of the area.

Edita Tverijonaite og Anna Dóra Sæþórsdóttir

Lykilorð: renewable energy, tourism, impact area

Seinni hluti málstofu

kl. 11:00 til 12:45

Vald og hreyfanleiki á íslenskum vinnumarkaði

Í erindinu er fjallað um vald og hreyfanleika erlends starfsfólks í ferðaþjónustu, í kjölfar mikillar fjölgunar þeirra á vinnumarkaði,  2012-2019. Spáð er í stöðu starfsfólksins og áhrif þróunarinnar á stéttarfélög og fagmennsku í ferðaþjónustu. Hver eru áhrif mikils hreyfanleika erlends starfsfólks á stöðu og starfsframa þeirra innan greinarinnar og möguleika stéttarfélaga til að gæta hagsmuna þeirra? Hver eru möguleg áhrif hárrar starfsmanna­veltu á ferðaþjónustuna? Í ljósi almennrar aðildar að stéttar­félögum og kjarasamningum á Íslandi er áhugavert að skoða stöðuna hér á landi í evrópskum samanburði, þar sem aðild að stéttarfélögum hefur víða dregist mikið saman á 21. öldinni. Fræðileg nálgun er sótt í undirgrein mannvistarlandfræði sem beinir sjónum að samtvinnun hreyfanleika í rými og á vinnu­markaði. Áhersla er á mismunandi stöðu starfsfólks eftir uppruna og fleiri breytum, sem sett er í samhengi við stað­bundna þróun á leikreglum á vinnumarkaði. Erindið byggir á niðurstöðum viðtalsrannsóknar við starfsfólk stéttarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins og erlenda starfsmenn í greininni, árin 2018 og 2019. Niðurstöður eru m.a. að á uppgagnstíma í ferða­þjónustu var landfræðilegur hreyfanleiki  starfsfólks á milli starfa víða um land auðveldur, en valdleysi kemur meira fram í mögu­leikum á starfsframa/hreyfanleika innan greinarinnar. Stéttar­félög rekast á  veggi í lagaumhverfi og þjónustu í hagsmuna­gæslu fyrir þennan hóp. Þau eiga miserfitt með að ná til starfs­manna, m.a. vegna mikils hreyfanleika og  tungumálaörðugleika, sem að einnig ógnar fagmennsku í greininni.

Magnfríður Júlíusdóttir

Staða erlendra starfsmanna í ferðaþjónustu í sveitarfélaginu Hornafirði á tímum COVID – 19

Meðfram örum vexti  í ferðaþjónustu á Íslandi á undanförnum árum hefur erlendu starfsfólki fjölgað mjög í atvinnugreininni. Í sveitarfélaginu Hornafirði er ferðaþjónusta mjög mikilvæg og vinnuframlag erlends starfsfólks umfangsmikið. Áhrif COVID – 19 hafa hins vegar markað djúp spor í starfsemina á yfirstandandi ári. Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á reynslu og stöðu þessa erlenda starfsfólks á tímum COVID-19. Sjónum var beint að félagslegu umhverfi, vinnuskilyrðum og lagalegri stöðu erlendra starfsmanna í þremur starfsgreinum: veitingaþjónustu, afþreyingar­ferðaþjónustu og á hótelum og gistiheimilum. Þá var einnig spurt um persónulega líðan starfsfólksins. Notast var við eigindlega rannsóknaraðferð þar sem tekin voru einstaklingsviðtöl, í júlí og ágústmánuði, við 20 manns sem störfuðu í sveitarfélaginu í upphafi fyrstu bylgju faraldursins. Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós skert atvinnuöryggi erlends starfsfólks, sem og veik félagsleg tengsl þeirra í heimabyggð. Greina mátti mismun á milli starfsfólks í ólíkum starfsgreinum af COVID – 19, bæði hvað varðar lýsingu á starfsumhverfi, reynslu af brotastarfsemi, persónulegri upplifun af samfélaginu og einnig þegar litið var til framtíðaráforma einstaklinganna. Áberandi munur kom fram á milli einstaklinga innan og utan svæða EES, en viðmælendur í síðarnefnda hópnum lýstu gjarnan neikvæðari upplifun þar sem þeir höfðu ekki notið atvinnuleysisbóta og höfðu ríkari áhyggjur af framtíðardvöl sinni í landinu.

Arndís Ósk Magnúsdóttir, Þorvarður Árnason, Soffía Auður Birgisdóttir og Arndís Lára Kolbrúnardóttir

Lykilorð: COVID – 19, ferðaþjónusta, erlendir starfsmenn

Viðhorf og staða atvinnurekenda í ferðaþjónustu í sveitarfélaginu Hornafirði á tímum COVID-19

Undanfarin ár hefur fjöldi ferðamanna sem heimsækir Ísland aukist verulega. Margir Íslendingar hafa gripið tækifærið og stofnað fyrirtæki í ferðaþjónustu. Íbúar í sveitarfélaginu Hornafirði eru ekki undanskildir enda er ferðaþjónusta ein stærsta atvinnugrein svæðisins. Þegar heimsfaraldur á borð við COVID-19 skellur á stöðvast allt og atvinnurekendur þurfa að vera fljótir að bregðast við breyttum aðstæðum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna viðhorf og stöðu atvinnurekenda í ferðaþjónustu í Hornafirði á tímum fyrstu bylgju COVID-19. Lögð var áhersla á að skoða áhrif faraldursins á rekstur fyrirtækja og viðhorf atvinnurekenda til framtíðarinnar. Tekin voru 11 eigindleg viðtöl við atvinnurekendur, bæði við aðila sem stofnað höfðu afþreyingarfyrirtæki, sem og þá sem reka gisti- eða veitingahús. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu fram á mikla óvissu á meðal atvinnurekenda þar sem flestir reyndust mjög svartsýnir þegar litið var til næstu mánaða. COVID-19 hefur komið einna harðast niður á litlum, fjölskyldureknum fyrir­tækjum en eigendur stærri og burðugri fyrirtækja, með lengri starfstíma, töldu reksturinn sinn nokkuð öruggan. Sú sýn kynni þó að hafa breyst með annarri og þriðju bylgju faraldursins. Seinni hluti nýliðins sumars fór hins vegar fram úr björtustu vonum atvinnurekenda og vonuðust þeir að ferðamenn héldu áfram að koma til landsins í haust. Viðmælendur í veitingarekstri nefndu þó þann jákvæða þátt að COVID-19 gaf þeim svigrúm til þess að verja meiri tíma með sínum nánustu.

Hafdís Lára Sigurðardóttir, Þorvarður Árnason, Soffía Auður Birgisdóttir og Arndís Lára Kolbrúnardóttir

Lykilorð: COVID-19, ferðaþjónusta, atvinnurekendur

Rafræn fræðsla í ferðaþjónustu: Áskoranir, tækifæri og góð fordæmi

Menntun og fræðsla eru grunnþættir fagmennsku og sam­keppnis­hæfni í ferðaþjónustu. Mikil gróska er í skipulagi og þróun námsefnis og námstilboða á sviði ferðamála hér á landi og mörg fyrirtæki vilja efla sí- og endurmenntun starfsfólks og óska eftir sveigjanlegri námstilboðum sem krefjast ekki viðveru námsmanna í staðnámi til lengri tíma. Rafrænni fræðslu er ætlað að mæta þessum þörfum. Í þessu erindi er gerð grein fyrir helstu niðurstöðum rannsóknar á áskorunum, tækifærum og góðum for­dæmum fyrir árangursríkri rafrænni fræðslu. Markmið rann­sókn­arinnar var að kanna hvernig fyrirtæki og fræðsluaðilar vinna að skipulagi og framkvæmd rafrænnar fræðslu og hvaða þættir hafa áhrif á árangur slíkrar fræðslu. Rannsóknin byggir á eigindlegum rannsóknaraðferðum og fór fram sumarið 2020. Tekin voru viðtöl við 21 einstakling og voru viðmælendur valdir með markvissu úrtaki á grundvelli þekkingar og reynslu af upp­bygg­ingu og þróun rafrænnar fræðslu. Niðurstöður leiða í ljós að helstu áskoranir fyrir rafræna fræðslu eru annars vegar kerfislegar og hins vegar einstaklingsbundnar en tæknilegar hliðar fræðslu eru síður vandamál. Jafnframt kemur fram að áskoranir og tækifæri fyrirtækja til að byggja upp og innleiða markvissa fræðslu innan sinna raða eru mismunandi eftir því hvort um er að ræða minni eða stærri fyrirtæki. Viðmælendur eru almennt sammála um að mörg tækifæri séu til staðar til eflingar á rafrænni fræðslu sem mætir þörfum og óskum fyrirtækja.

Gunnar Þór Jóhannesson, Lilja Karen Kjartansdóttir og María Guðmundsdóttir

Lykilorð: fræðsla, ferðaþjónusta, hæfni

Að taka á móti kínverskum ferðamönnum: Upplifun og reynsla íslenskra ferðaþjónustuaðila

Mikil aukning hefur orðið á komu kínverskra ferðamanna til Íslands síðastliðinn áratug. Samkvæmt brottfaratalningu Ferðamálastofu í Leifsstöð voru kínverskir ferðamenn um 7% allra ferðamanna til landsins árið 2019 og þar með komnir í fjórða sæti yfir fjölmennustu þjóðirnar sem sækja Ísland heim á eftir Bandaríkjamönnum, Bretum og Þjóðverjum. En hvernig hefur tekist til hjá íslenskri ferðaþjónustu að taka á móti þessum nýja markhópi til landsins? Í þessu erindi verður gerð grein fyrir niðurstöðum viðtalsrannsóknar meðal íslenskra ferða­þjónustu­aðila með langa reynslu af að taka á móti kínverskum ferða­mönnum til Íslands. Alls voru tólf viðtöl tekin við þrettán viðmælendur, þar á meðal leiðsögumenn, ferðaskipuleggjendur og starfsfólk hótela og bílaleigna. Viðtölin voru tekin í gegnum síma eða fjarfundarkerfi (t.d. Teams og Skype) vorið og sumarið 2020. Viðmælendur voru spurðir um þeirra reynslu af því að taka á móti kínverskum ferðamönnum, hverjar helstu áskoranirnar hefðu verið og hvaða tækifæri þeir sæju í að taka á móti þessum markhópi. Helstu niðurstöður sýna að til þess að samskiptin gangi sem best fyrir sig þá sé mikilvægt að ferðaþjónustuaðilar hafi grunn­þekkingu á þeim menningarlega mun sem er á milli þjóðanna, til að mynda hvað varðar matarmenningu. Einnig er mikilvægt að kínversku ferðamennirnir fái greinagóðar upp­lýsingar um Ísland, t.a.m. um þá þjónustu sem í boði er, almennt verðlag á Íslandi, veðurskilyrði og vegakerfið.

Vera Vilhjálmsdóttir

Lykilorð: íslensk ferðaþjónusta, kínverskir ferðamenn

Event Details
  • Start Date
    30/10, 2020 09:00
  • End Date
    30/10, 2020 12:45
  • Zoom meeting id: 615 2606 6028
Höfundar erinda
Researcher
Háskóli Íslands / University of Iceland
Researcher
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Annað / Other
Annað / Other
Annað / Other
Háskóli Íslands / University of Iceland
Annað / Other
Háskóli Íslands / University of Iceland
Doktorsnemi / PhD student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Annað / Other
Háskóli Íslands / University of Iceland
Project manager
Háskóli Íslands / University of Iceland
Lektor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Sérfræðingur / Specialist
Rannsóknamiðstöð ferðamála
MA/MS nemi / MA, Msc. student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Lektor / Assistant Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Event Details
  • Start Date
    30/10, 2020 09:00
  • End Date
    30/10, 2020 12:45
  • Zoom meeting id: 615 2606 6028