Hörmung og hamingja: Hversdagslíf og hugmyndaheimur í persónulegum heimildum frá 19. öld
Málstofustjóri: Dagrún Ósk Jónsdóttir
Þegar rannsaka á hversdagslíf og hugmyndaheim fólks fyrr á öldum hafa þær heimildir sem það sjálft bjó til sérstakt gildi. Þetta á ekki síst við um dagbækur og bréf, þar sem ritarinn stendur mjög nærri þeim veruleika, viðburðum og tilfinningum sem skrif hans eru heimildir um. Í slíkum skrifum náum við milliliðalausu sambandi við fortíðina, án þess að samfélagsbreytingar eða dómur sögunnar hafi sett mark sitt á minni heimildarmanna og minningar, túlkun þeirra og frásögn.
„Ekkert að frjetta nema bágindi” -Þjóðsagnasafnarar segja hug sinn í bréfum til Jóns Árnasonar
Í rannsóknarverkefninu „Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri: Tilurð, samhengi og söfnun 1864–2014“ voru skrifuð upp bréf sem send voru Jóni Árnasyni þjóðsagnasafnara á söfnunartímanum, eða á árunum 1858 til 1864. Sérstök áhersla var lögð á uppskriftir bréfa frá þeim sem Jón hafði beðið um að safna þjóðsögum úti um landið í þeim tilgangi að skoða svör þeirra og hugmyndir um þjóðsögur og söfnun þeirra. Rannsakendur töldu að mikilvægt væri að sjá mismunandi viðhorf fólks til sagnanna þannig að neikvæð svör skiptu einnig miklu máli. Í ljós hefur komið að bréfin geyma einnig margskonar annan fróðleik. Fyrst og fremst birtir bréfasafn Jóns Árnasonar góða mynd af tengslaneti hans, en langflestir bréfritararnir eru skólagengnir karlar eða alþýðufræðimenn. Innan um má þó finna bréf frá konum sem oftast tengjast Jóni þá persónulega, annað hvort fjölskyldu- eða vinaböndum. Allt þetta fólk á það sameiginlegt að segja hug sinn í bréfunum. Þau biðja Jón um að annast ýmislegt fyrir sig í höfuðstaðnum, þau lýsa áhyggjum af búskapnum, fjárhagnum og heilsu sinni eða annarra nákominna og sorgum sínum vegna dauðsfalla. Þau segja einnig gleðifréttir af hamingjuríkum samböndum og barnsfæðingum. Í bréfunum opnast gluggi inn í tilfinningalíf fólks og í þeim má lesa ýmislegt um samskipti fólks og samfélagið. Þar birtist brot af lífinu sjálfu.
Tilhugalíf í textum
Þann 29. nóvember 1865 gengu vinnuhjúin Ragnhildur Brynjólfsdóttir og Sighvatur Grímsson í hjónaband í Múlakirkju á Barðaströnd. Brúðguminn skráði atburðinn í dagbók sína með þessum orðum: „Þá giptist eg í Múlakirkju, og Jón eldri á Ingunnarstöðum Elínu konu sinni“. Persónulegar heimildir frá 19. öld, og þá ekki síst dagbækur, hafa oft verið sagðar vera bæði fálátar og stuttorðar um tilfinningar og upplifanir fólks, hvort sem um er að ræða hörmungar eða hamingju. Í þessum fyrirlestri verða færslur og frásagnir um tilhugalíf og hjúskap Ragnhildar og Sighvats, eins og þær birtast í dagbókum þess síðarnefnda, lesnar saman við aðrar heimildir um tilfinningasamband þeirra. Þar verður einkum vikið að bókmenntatextum, frumsömdum og uppskrifuðum, og því hlutverki sem þeir gegndu í samskiptum parsins í upphafi sambands þeirra.
Byggt er á ítarlegum rannsóknum mínum á dagbókaskrifum á Íslandi annars vegar og handritamenningu 19. aldar hins vegar, með áherslu á líf og störf Sighvats Grímssonar Borgfirðings. Í erindinu verður unnið með kenningar um sögu tilfinninga (history of emotions), hversdagslega læsisiðkun (vernacular literacy practices) og efnismenningu (material culture). Erindið er hluti af rannsóknaþætti mínum í Öndvegisverkefninu Heimsins hnoss: Söfn efnismenningar, menningararfur og merking.
Birtingarmyndir fátæktar í dagbók frá 19. öld: „Hafa börnin oft grátið af sulti og kulda“
Líf fátæks fólks hefur aldrei verið dans á rósum. Um það vitna fjölbreyttar heimildir fyrr og nú. Óvenjulegt er þó að fá jafn glögga og persónulega innsýn í lífshlaup í skugga fátæktar og finna má í dagbók Jóns Jónssonar. Dagbókin er skráð á árunum 1846-1879 og hefur verið til rannsóknar hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum með það fyrir augum að varpa skýrara ljósi á hversdagslíf fátæks fólks á 19. öld, viðfangsefni þess og stöðu í samfélaginu, auk tjáningu tilfinninga. Jón var fæddur árið 1795 og var því fimmtugur þegar hann byrjaði á dagbókinni og hélt áfram að skrifa í hana þar til hann lést á 84. aldursári.
Framan af var Jón bóndi, en hefur þó augljóslega meiri áhuga á sjósókn en búskaparbaslinu. Hann hrekst af bæ sínum í kringum 1860 og sest að í kofa við sjávarsíðuna með konu sinni. Eftir að hún deyr flosnar hann upp og fer hálfpartinn á vergang um tíma, sjötugur að aldri. Hann dvelur síðan á heiðarbýli hjá dóttur sinni og fjölskyldu hennar fimm erfið ár, þar sem oft skortir fæði og eldivið. Betliferðir á efnameiri bæi eru þá reglubundinn viðburður. Síðustu ár ævinnar átti hann betri tíma hjá annarri dóttur sinni sem bjó við sjávarsíðuna. Dagbókin gefur einstaka innsýn í lífshlaup fátæklings og gamalmennis á síðari helming 19. aldar.
„Annars vorum við foreldrar þess sársaknaða ástvinar sinnulitlir“: Sorgin í skrifum bændafólks á Ströndum á 19. öld
Í erindinu er fjallað um tilfinningalíf fólks í gamla bændasamfélaginu á 19. öld, einkum út frá dagbókarskrifum Jóns „gamla“ Jónssonar er bjó við þröngan kost á ýmsum stöðum á Ströndum. Fyrri rannsóknir sýna að það sem fólk setti í dagbækur sínar hefur verið valið gaumgæfilega, enda plássið dýrmætt og mikilvægt að koma því að sem skipti ritarann máli. Skrifurum verður þar æði tíðrætt um paktíska hluti á borð við veðurlag, tíðarfar og dagleg störf. Ljóst er að dauðinn var áberandi og mikilvægur hluti af hversdegi landsmanna á 19. öld, svo sem vegna ungbarnadauða, slysa og sjúkdóma, en þó fékk hann litla umfjöllun í dagbókum og virðist oftar en ekki settur fram sem fréttaefni í framhjáhlaupi. Sorgin og viðbrögð við dauðanum fær sömuleiðis ekki mikið pláss. Í dagbókum Jóns „gamla“, sem hann hélt árin 1846-1879, kveður að ýmsu leyti við nýjan tón og þar má sjá einlægar lýsingar á sorginni, viðbrögðum við barnamissi, áhyggjur af sorgarviðbrögðum ástvina eftir missi og áhugaverðar tilraunir til að lækna fólk af sorg.
Rannsóknin er unnin á vegum Rannsóknarseturs HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu, þar sem dagbækur Jóns og fleiri einstaklinga af Ströndum eru nú til skoðunar.