Gosið í Geldingadölum: Brugðist við nýju landslagi

Málstofustjóri: Gunnar Þór Jóhannesson

Í þessari málstofu verður fjallað um gosið í Geldingadölum út frá sjónarhóli landfræði og mannfræði. Rýnt er í viðbrögð fólks við gosinu, þar með talið ferðamanna, sérfræðinga og viðbragðsaðila. Erindin fjalla m.a. um aðdráttarafl eldsumbrotanna og þau hrif sem þau skapa og leiðir til að stýra og takast á við þá vá sem gosið felur í sér. Erindin eiga það sammerkt að tengjast fræðilegri umræðu um mannöld og leggja til við lýsingu og skilning á fjölbreyttum samböndum fólks við náttúru.

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Á móti hraunstraumnum

Skömmu eftir að gosið í Geldingadölum hófst fór af stað vinna sem miðaði að því að hefta framrás hraunsins og/eða breyta rennsli þess. Hugmyndir voru settar fram um varnargarða sem ætlað var að verja mannvirki á borð við vegi, fjarskiptastrengi og háspennulínur. Í erindinu verður fjallað um þessi viðbrögð við gosinu, hvernig slík áform verða til,  hvernig þeim er komið í framkvæmd og skoðað hvernig þau varpa ljósi á samband manns og náttúru. Hugleitt verður hvort og hvernig skyndilegir atburðir af þessu tagi kalla á annars konar vinnubrögð en almennt tíðkast í umgengni við náttúru og landslag. Felur það að hanna slíka varnargarða og koma þeim upp í flýti í sér óhóflega trú á getu mannsins til að grípa inn í náttúruleg ferli, eða er það einfaldlega eðlilegt og jafnvel óhjákvæmilegt viðbragð við atburði sem vissulega getur haft afdrifarík áhrif á innviði landsins og jafnvel lífsafkomu fólks? Mikilvægt er að skilja forsendur þess sem þarna var gert. Gosið sjálft er enn í fullum gangi og er af mörgum talið marka upphaf nýrrar goshrinu á Reykjanesskaga. Skaginn sjálfur og landslag hans hefur breytt um merkingu með vissum hætti. Íbúar byggðarlaganna á Reykjanesi, sem og landsmenn allir, þurfa að íhuga hvers konar viðbrögð eru réttmæt og ábyrg gagnvart náttúruvá sem enginn fær umflúið að fullu.

Edda R. H. Waage og Karl Benediktsson

Lykilorð: landslag, náttúruvá, eldgos

Jarðvist ferðamennsku: Um eldsumbrot og framtíð ferðamennsku

Í þessu erindi þjónar eldgosið í Geldingadölum sem útgangspunktur fyrir hugleiðingar um framtíð ferðamennsku á tímum óvissu- og neyðarástands. Aðdráttarafl eldgossins er ótvírætt. Á þeim rösku fimm mánuðum síðan eldgosið hófst hafa meira en 245 þúsund manns lagt leið sína að gosstöðvunum sem þýðir að þessi áður lítt þekkti staður, Geldingadalir, er á skömmum tíma orðinn einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins og undirstrikar hvernig ferðamennska byggir á og er háð kröftum og hræringum jarðar. Á sama tíma gengur ferðaþjónusta í gegnum alheimskrísu af völdum kórónuveirufaraldursins sem um stundarsakir hefur dregið athyglina frá annarri og alvarlegri vá fyrir framtíð ferðaþjónustu í formi hnattrænna loftslagsbreytinga. Ferðaþjónusta stendur að margra mati á krossgötum. Áframhaldandi vöxtur er ósjálfbær við núverandi aðstæður og fræðifólk jafnt sem hagaðilar greinarinnar velta fyrir sér leiðum til að byggja upp ábyrga ferðaþjónustu í takt við náttúru og samfélag. Í erindinu byggjum við á gögnum sem safnað var meðal ferðamanna við gosstöðvarnar sumarið 2021 til að lýsa aðdráttarafli eldsumbrotanna í huga ferðafólks sem og dæmum um margvíslegar athafnir ferðafólks á gosstöðvunum. Með hliðsjón af kenningum um ferðamennsku á mannöld og nálægðarferðamennsku drögum við fram fjölbreyttar birtingarmyndir jarðvistar ferðamennsku og hvaða lærdóm má draga um möguleika og áskoranir ábyrgrar ferðamennsku til framtíðar.

Gunnar Þór Jóhannesson og Katrín Anna Lund

Lykilorð: eldgos, jarðsamband, ferðamennska

Hrif, eldgos og drónar

Eldgosið í Geldingadal á Reykjanesi, sem hófst í mars 2021, hefur dregið að sér fólk í tugþúsunda tali til að verða vitni að ægifegurð eldsumbrotanna. Myndavélar hafa verið óspart notaðar og ekki síst drónar, en á fyrstu vikum eldgosins fóru drónamyndir á samfélagsmiðlum eins og eldur í sinu um heimsbyggðina. Í þessum fyrirlestri munum við ræða um það aðdráttarafl sem myndatökur af eldgosinu með drónum hefur og setja í samhengi við ímyndunarafl þeirra sem tóku slíkar myndir. Rannsóknin byggir á orðræðugreiningu á opnum viðtölum við um tuttugu myndasmiði þar sem áherslan er á að grípa hrif þeirra við notkun á drónum í að búa til myndir af jarðeldunum og vellandi hraunbreiðunum í Geldingadal. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að drónamyndir af eldgangi og náttúruhamförum leggja grunn að nýjum frásagnarhætti á mannöld.

Sigurjón Baldur Hafsteinsson og Iðunn Andrésdóttir

Lykilorð: eldgos, drónar, hrif

Event Details
  • Start Date
    29/10, 2021 09:00
  • End Date
    29/10, 2021 10:45
Höfundar erinda
Aðstoðarmaður
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Lektor / Assistant Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Event Details
  • Start Date
    29/10, 2021 09:00
  • End Date
    29/10, 2021 10:45