Málstofan er táknmálstúlkuð
Frumkvæði, tækifæri og jafnrétti í atvinnulífi og á öðrum sviðum
Málstofustjóri: Finnborg Salome Steinþórsdóttir
Í málstofunni verða flutt fimm erindi sem varpa ljósi á frumkvæði, tækifæri og jafnrétti í atvinnulífi og á öðrum sviðum. Sjónum er sérstaklega beint að frumkvöðlastarfsemi, dómstólum og háskólum. Erindin eiga það sameiginlegt að varpa ljósi á karllæg og ableísk viðmið sem stuðla að ójöfnum tækifærum og hindra framgang jafnréttis hér á landi.
Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.
Breytingar á kynjuðu mati á umsækjendum um störf dómara við Landsrétt og Hæstarétt?
Fyrir fimm árum birtu höfundar niðurstöður rannsóknar á dómnefndarálitum við skipun dómara í Hæstarétt Íslands í ljósi kynjafræði og feminískrar lögfræði. Niðurstaðan var að greina mátti kynjaða orðræðu og karllægt mat á umsækjendum og verkum þeirra. Árið 2017 voru 15 dómarar skipaðir við Landsrétt. Niðurstaða dómnefndar var að 15 umsækjendur væru hæfastir, tíu karlar og fimm konur. Dómsmálaráðherra skipti út fjórum karlanna fyrir tvo karla og tvær konur og samþykkti Alþingi tillögu ráðherra. Nýverið voru tvær konur skipaðar hæstaréttardómarar. Var því gerð framhaldsrannsókn þar sem rannsökuð voru dómnefndarálit vegna skipunar í Landsrétt og Hæstarétt frá 2016-2020. Markmiðið var að kanna hvort breyting hefði orðið á dómnefndarálitum eftir mikla gagnrýni á skipanir í Hæstarétt og Landsrétt. Rannsóknin tekur til kynjaðrar orðræðu álitanna og inntaks hæfnimatsins. Um er að ræða kynjafræðilega orðræðugreiningu þar sem byggt var á verklagsaðferðum Dr. Ingólfs Ásgeirs Jóhannessonar og Jean Carabines þar sem svokölluð þrástef voru greind en ekki síður hið ósagða. Hins vegar var beitt hefðbundinni lagalegri aðferð (e. doctrinal) við skýringu lagatexta í bland við feminíska lagalegar aðferðir í anda Tove Stang Dahl og gagnrýnnar lögfræði þar sem túlkun og beiting laga, í þessu tilfelli um mat á hæfni einstaklinga, eru skoðuð í ljósi feminískrar lögfræði.
Þorgerður J. Einarsdóttir og Brynhildur G. Flóvenz
Lykilorð: kynjuð dómnefndarálit, breytingar í orðræðu, skipun dómara
„Að koma ull í tískuföt.“ Athafnakonur og frumkvöðlar í textíl á síðari hluta 20. aldar
Textíll og handverk hafa löngum verið kvennastörf og vinna kvenna og framlag á því sviði verið með margvíslegum hætti. Þar hefur aðgreiningin í einkasvið og opinbert svið verið óljós og jafnvel ekki alltaf átt við. Í gegnum söguna hafa konur séð heimilisfólki sínu fyrir fatnaði með prjóni og saumaskap, þær hafa stundað prjónaskap fyrir verslanir, og unnið við textíl í verksmiðjuvinnu. En konur hafa ekki síður stundað sjálfstæðan atvinnurekstur á þessu sviði. Í erindinu verður gerð grein fyrir tveimur athafnakonum á svið textíls á Íslandi. Önnur er Guðrún Vigfúsdóttir (1921-2015) sem rak vefstofu á Ísafirði og hin er Þórdís Bergsdóttir (f. 1929) sem rak Ullarvinnslu frú Láru á Seyðisfirði. Til að varpa ljósi á framlag þessara kvenna til textíliðnaðarins beitum við fræðilegum sjónarmiðum sem gagnrýna karllæg viðmið um frumkvöðlastarsemi sem jaðarsetja athafnasemi kvenna og framlag þeirra til atvinnusköpunar. Niðurstöður rannsóknarinnar byggja bæði á fyrirliggjandi gögnum eins og fjölmiðlaumfjöllunum, skýrslum og bókum og viðtali við Þórdísi. Rannsóknin sýnir meðal annars að athafnasemi þeirra skapaði aukin atvinnutækifæri handa konum og færði störf kvenna sem unnin voru innan heimilisins út í hið opinbera rými.
Laufey Axelsdóttir og Þorgerður J. Einarsdóttir
Lykilorð: athafnakonur, frumkvöðlar, textíliðnaður
Jafnréttishindranir og kynjaskekkjur: Brotthvarf og framgangur akademískra starfsmanna
Íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að stuðla að jafnrétti á háskólastigi, en í framkvæmdaáætlun stjórnvalda í jafnréttismálum fyrir árin 2020-2023 er sjónum beint sérstaklega að háskólastöðum. Markmið rannsóknarinnar, sem unnin var í samstarfi við Mennta- og menningarmálaráðuneytið, var að kanna brotthvarf kvenna úr vísinda- og fræðastarfi og ástæður þess að framgangur karla í háskólum er vanalega meiri en kvenna. Byggt á fyrirliggjandi gögnum og upplýsingaviðtölum við stjórnendur var fyrirkomulag framgangsmála íslenskra háskóla kortlagt. Jafnframt er stuðst við tölfræðileg gögn sem varpa ljósi á þætti starfsemi háskólanna, s.s. rannsóknarvirkni, framgangsmál og brotthvarf starfsmanna. Helstu niðurstöður eru að þrátt fyrir að háskólasamfélagið hafi breyst umtalsvert á síðastliðnum áratugum, þá er staða kvenna og karla enn ójöfn í akademískum störfum. Byggt á kenningum Ackers um „stjórnarfyrirkomulag misréttis“ (e. inequality regimes) færi ég rök fyrir því að margvíslegar jafnréttishindranir eru innbyggðar í framgangskerfin, sem á stóran þátt í að stuðla að og viðhalda kynjamisrétti í íslensku háskólasamfélagi. Í erindinu mun ég einnig fjalla um aðferðir og aðgerðir sem hafa burði til að stuðla að breytingum í jafnréttisátt.
Finnborg Salome Steinþórsdóttir
Lykilorð: kynjajafnrétti, háskólar, framgangur
„Saman vinnum við sigra“: Jafnréttisúttekt á tilkynningum sendum í nafni rektors Háskóla Íslands á tímum Covid 19
Niðurstöður ýmissa rannsókna benda á mikilvægi þess að standa vörð um jafnrétti kynjanna á fordæmalausum tímum eins og við upplifum nú þar sem hætta er á bakslagi. Í erindinu verða tilkynningar sendar í nafni rektors Háskóla Íslands til nemenda og starfsfólks í kórónuveirufaraldrinum greindar út frá jafnréttissjónarmiðum. Gögn rannsóknar samanstanda af 96 tilkynningum sem sendar voru á tímabilinu febrúar 2020 til maí 2021. Gögnin, um 34.000 orð, voru þema- og orðræðugreind. Helstu niðurstöður eru þær að karlar eru oftar en konur nafngreindir í tilkynningunum og oftar er vísað í þá. Það sendir ákveðin skilaboð varðandi mikilvægi og stöðu innan háskólasamfélagsins. Í tilkynningunum er að auki fjallað um æskilega eiginleika, líðan og hegðun starfsfólks. Þar sem staða karla og kvenna í samfélaginu er ólík þá hefur inntak tilkynninganna ólíka merkingu fyrir karla annars vegar og konur hins vegar. Tilgangur okkar með rannsókninni er því að vekja athygli á þessu og um leið að sýna fram á mikilvægi þess að samþætta kynja- og jafnréttissjónarmiðum við alla stefnumótun, sama í hvaða formi hún birtist.
Gyða Margrét Pétursdóttir og Thamar Melanie Heijstra
Lykilorð: kynjajafnrétti, kórónuveirufaraldurinn, samþætting
Algild hönnun: Mýta eða möguleiki
Algild hönnun (e. universal design) er pólitískt hugtak sem byggir á gildum um jafnræði og jafna möguleika til þátttöku í samfélaginu. Lögð er áhersla á að koma til móts við mannlegan margbreytileika, þ.e. fólk með mismunandi eiginleika, hæfni og takmarkanir. Fötlun er hluti af þessum breytileika líkt og aðrir eiginleikar eða tímabil í lífi fólks. Áherslur algildrar hönnunar beindust lengi vel að manngerðu umhverfi, svo sem skipulagi, arkitektúr og hönnun. Í auknum mæli er nú einnig litið til félagslegs umhverfis, stefnumótunar, verklags og viðhorfa. Ennfremur hefur áhersla á notagildi umhverfis, vöru og þjónustu aukist. Síðustu ár hafa mannréttindaáherslur einkennt umfjöllun um hugtakið og með innleiðingu Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hafa hérlend stjórnvöld lýst yfir stuðningi við algilda hönnun í íslensku samfélagi. Auk umfjöllunar um skrif fræðafólks á sviðinu er sjónum hér beint að stefnumótandi skjölum um algilda hönnun. Einnig er lagt út af dæmum úr rannsókn höfundar og samstarfsfólks. Þótt hér sé fyrst og fremst fjallað um hugtakið í tengslum við fötlun hefur það mun víðtækari skírskotun.
Snæfríður Þóra Egilson og Sigrún Kristín Jónasdóttir
Lykilorð: efnislegt og félagsleg umhverfi, aðgengileiki, jafnræði