Höfð að háði og spotti
Sögur af málhalta fólkinu Jóni og Solveigu
Sögur af sérkennilegu fólki er ríkur þáttur íslenskra bókmennta í því sem nefnt hefur verið „þjóðlegur fróðleikur“. Um er að ræða ýmis konar sagnaþætti sem birtust í bókum, blöðum og tímaritum á Íslandi í lok 19. aldar og fram eftir 20. öld. Ýmsar þessara sagna af sérkennilegu fólki eru gamansögur af einstaklingum sem áttu erfitt með mál og framburð eða voru með einhvers konar mál-„galla.“ Að þessu sinni verður rýnt í sagnaþætti af þeim Jóni Gissurarsyni og Solveigu Eiríksdóttur sem bæði voru uppi á 19. öld. Fjallað verður um hlutskipti þeirra sem þolendur ofbeldis og skelfilegar aðstæður í daglegu lífi þeirra. Gerð verður einnig grein fyrir helstu áhrifavöldum í lífi þeirra Jóns og Solveigar, ásamt stílbrögðum höfunda sagnaþáttanna. Erindið tengist rannsókn við verkefnið „Þættir af sérkennilegu fólki“ og munu ítarlegar niðurstöður liggja fyrir síðar. Í verkefninu hefur verið farið yfir prentaðar heimildir frá 19. öld og fyrri hluta 20. aldar og safnað saman frásögnum af óvenjulegu fólki sem er nafngreint, m. a. í verkum sem teljast til þjóðlegs fróðleiks, ásamt blöðum og tímaritum sem eru aðgengileg á timarit.is.
Hædd og spottuð?
Sagan á bak við sögurnar
Erindi þetta kemur í beinu framhaldi af erindi Marínar Árnadóttur, „Höfð að háði og spotti – Sögur af málhalta fólkinu Jóni og Solveigu.“ Í erindinu verða lífþræðir Jóns og Solveigar spunnir upp úr öllum tiltækum opinberum heimildum. Sem dæmi um heimildir er liggja hér til grundvallar eru kirkjubækur, sóknarmannatöl, gerðabækur hreppsnefnda, skýrslur fátækranefndar Reykjavíkur og dánarbúsuppskriftir svo fátt eitt sé talið. Ummæli og úrskurðir yfirvalda eru orðræðugreind og sett í samhengi við samfélag það sem þau spretta úr hverju sinni. Hér er lögð áhersla á rannsóknaraðferð sem kennd er við smáatriði, útsjónarsemi og þolinmæði; á ensku nefnd „Slow Researce Methology.“ Þar er lögð áhersla „eðlilegar undantekningar“ (e. Normal Exeptions) í hversdagslífi einstaklinga í fortíðinni og þá staðreynd að sérhvert lífhlaup einstaklinga er engu öðru líkt. Frá þessum rannsóknarsjónarhóli er rýnt í það sem nefnt hefur verið á ensku „Slow Violence“; þ.e. ofbeldi sem liggur undir yfirborðinu og stendur yfir í langan tíma, jafnvel alla ævi viðkomandi einstaklinga.
Andlegt ofbeldi í samanburði við annað ofbeldi
Ofbeldi getur verið af margvíslegum toga. Einelti er tegund andlegs ofbeldis, þó ekki sé allt andlegt ofbeldi einelti. Í erindinu verður sá miski sem einstaklingar verða fyrir vegna andlegs ofbeldis borinn saman við miska vegna kynferðisofbeldis og líkamlegs ofbeldis. Miskinn er metinn með svokallaðri tekjuuppbótaraðferð sem dregur fram hve mikið þyrfti að greiða einstaklingum til að bæta upp það velferðartap sem fylgir afleiðingum ofbeldis af tilteknu tagi. Notast er við gögn úr „Heilsu og líðan Íslendinga“, sem inniheldur m.a. spurningar um ofbeldi, tekjur, kyn, aldur og menntun. Líkanið sem notast er við gerir ráð fyrir að velferð einstaklinga ákvarðist meðal annars af heimilistekjum og upplifun af ofbeldi. Hamingja einstaklinga er notuð sem staðgengill fyrir nytjar og jafngildishlutfall á milli tekna og ofbeldis reiknað.
Niðurstöður sýna að andlegt ofbeldi sker sig verulega úr að því leiti að mældur miski vegna andlegs ofbeldis mælist mun hærri en miski af völdum líkamlegs eða kynferðislegs ofbeldis. Ástæður þessa eru óljósar, en hugsast getur að andlegt ofbeldi sé oftar viðvarandi en aðrar tegundir ofbeldis og feli því í sér fleiri einstök ofbeldisatvik. Einelti væri dæmi um slíkt.
Miski vegna afleiðinga eineltis
Markmið rannsóknarinnar er að meta til fjár miska vegna eineltis og afleiðinga þess með svokallaðri tekjuuppbótaraðferð. Gögn úr viðamiklu rannsókninni Áfallasaga kvenna skapa einstakt tækifæri til að meta áhrif eineltis á velferð einstaklinga sem fyrir því verða. Tekjuuppbótaraðferðin miðar að því að finna þá upphæð sem greiða þarf einstaklingi sem hefur orðið fyrir einelti til að velferð hans verði jafnmikil og hún væri ef einstaklingurinn hefði ekki orðið fyrir slíkri reynslu. Líkanið sem er metið gerir ráð fyrir að velferð einstaklings ákvarðist af jöfnuðum heildartekjum heimilis, reynslu af einelti og öðrum bakgrunnsbreytum.
Þessar mælingar hafa bæði hagnýtt og vísindalegt gildi. Vísindalega gildið felst í því að beita tekjuuppbótaraðferðinni, sem er þekkt aðferð við að mæla virði óáþreifanlegra gæða, á einelti. Slíkt hefur ekki verið gert áður. Ennfremur geta niðurstöður rannsóknarinnar komið hinu opinbera að notum við mat á hagkvæmni íhlutana sem ætlað er að draga úr einelti eða afleiðingum þess. Þekking á áhrifum eineltis á velferð einstaklinga mun þannig nýtast við stefnumótun í félags- og heilbrigðiskerfinu, bæði hvað varðar forvarnir og meðferðir.