COVID-19 og leikskólinn, börn og fjölskyldur
Málstofustjóri: Jórunn Elídóttir
Í málstofunni er gerð grein fyrir gögnum úr tveimur rannsóknum, annars vegar spurningakönnun sem 658 starfsmenn leikskóla svöruðu um leikskólastarf á tímum samkomubanns og hins vegar viðtalsrannsókn við tólf fjölskyldur leikskólabarna í gegnum tímann sem samkomubann stóð yfir. Sótt er í þann hluta gagnanna sem sneri að samskiptum og upplýsingaflæðið milli heimila og skóla, skipulagi leikskólastarfsins og heimilislífi barnanna. Markmið rannsóknanna var að kanna áhrif samkomubanns á líf foreldra og barna og starf leikskóla í samkomubanni. Rannsakendur eru; Anna Elísa Hreiðarsdóttir, Jórunn Elídóttir og Kristín Dýrfjörð.
Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.
COVID-19 og leikskólinn, börn og fjölskyldur - Upplýsingaflæði og samskipti við heimili
Í erindinu er greint frá niðurstöðum byggðum á gögnum sem aflað var á tímum samkomubanns. Í fyrsta lagi gögnum úr spurningakönnun sem lögð var fyrir starfsfólk leikskóla um skólastarf í miðju samkomubanni og í öðru lagi gögnum úr viðtalsrannsókn við tólf fjölskyldur leikskólabarna. Tekin voru endurtekin viðtöl við fjölskyldurnar frá mars og fram í júní um lífið á tímum samkomubanns og markmiðið að varpa ljósi á hvernig samskiptum og upplýsingaflæði milli heimila og skóla var háttað. Niðurstöður sýna að skólar leituðu fjölbreyttra leiða til að hafa góð samskipti við heimilin, margir lögðu áherslu á að gefa vandaðar upplýsingar en eftir á að hyggja telur starfsfólk að betur hefði mátt sinna fjölskyldum þeirra barna sem ekki mættu í leikskólann á þessu tímabili. Foreldrar voru almennt ánægði og eru þakklátir fyrir þá þjónustu og upplýsingar sem þeir fengu en taka í sama streng og starfsfólk að betur mætti huga að þeim sem ekki mættu í skólana á tímum samkomubanns. Af niðurstöðum má ráða að margir skólar hafa staðið sig vel, bæði hvað varðar að sinna upplýsingaflæði til fjölskyldna leikskólabarnanna og einnig í að eiga samskipti við þær á tímum samkomubanns. Sums staðar mætti þó bæta þjónustu við þær fjölskyldur sem ákváðu að hafa börnin heima á meðan að samkomubanni stóð.
Lykilorð: Covid -19, leikskólinn, fjölskyldur
COVID-19 og leikskólinn, börn og fjölskyldur - Samskipti við foreldra við upphafi og lok dags
Fjallað er um niðurstöður rannsóknar um leikskólastarf á tímum samkomubanns, augunum er beint að samskiptum við foreldra. Sérstaklega er skoðað hvernig skipulag tengt því að koma með börn og sækja þau var skipulagt og hvernig dagleg samskipti við foreldra gengu fyrir sig. Gagna var aflað með spurningakönnun á neti fyrir allt starfsfólk leikskóla allstaðar af landinu. Nokkrar spurningar sneru að þeim tíma dagsins sem flestir snertifletir eru við foreldra, hvernig sá tími var skipulagður og hvernig gekk að fylgja skipulaginu. Samskipti við foreldra komu enn fremur fram í opnum spurningum og eru þau gögn jafnframt notuð. Fram kom að flestir leikskólar settu sér reglur tengdar komu og kveðjustund barna. Mikið var lagt upp úr að halda tveggja metra reglu, en ljóst að víða voru vandamál því tengd. Bæði vegna ungs aldurs barna og aðstæðum í leikskólanum sjálfum. Starfsfólk var margt kvíðið yfir samskiptum við foreldra og sérstaklega þá foreldra sem áttu erfitt með að fara eftir reglum. Sumt starfsfólk taldi jafnframt að leikskólastjórar mættu standa betur með starfsfólki gangvart foreldrum sem fóru á svig við reglur. Lærdómur sem draga má af rannsókninni er að það er ekki nóg að setja skýrar reglur um samskipti foreldra og starfsfólks ef ekki er séð til þess að þeim sé framfylgt eins og kostur er. Líka er ljóst að flestir gerðu sitt besta til að starfið gengi upp.
Lykilorð: Covid -19, leikskólinn, starfsfólk
COVID-19 og leikskólinn, börn og fjölskyldur - Fjölskyldan heima
Rannsóknin byggir á viðtalsrannsókn sem fram fór á tímum samkomubanns vegna COVID-19. Regluleg viðtöl voru tekin við 12 fjölskyldur þar sem markmiðið var að skoða áhrif samkomubanns á líf foreldra og barna og áskoranir sem þeir standa frammi fyrir í daglegu lífi. Sótt er í þann hluta gagnanna sem snýr að samskiptum fjölskyldnanna við skóla og nærfjölskyldur sem og áhrif þess að vera heima í samkomubanni, sóttkví og/eða einangrun með börn í langan tíma. Nokkrar fjölskyldur voru bæði með börn á leik- og grunnskólaaldri.
Niðurstöðurnar sýna að fjölskyldur nýttu ýmiss úrræði til að hafa samskipti við skólana, vini barnanna og fjölskyldur, einnig voru ljósvakamiðlar góð viðbót við daglegt líf fjölskyldna. Að mati margra foreldra varð nánd og samveran ánægjuleg en þegar leið á samkomubannið mátti greina óþreyju og ákveðinn kvíða gagnvart framtíðinni. Mörgum fannst þessi tími góður á margan hátt þrátt fyrir að allir þurftu að takast á við mjög breytt heimilishald. Rannsóknin gefur vísbendingar um hvað er gott að hafa í huga í aðstæðum sem þessum og hvernig gekk að aðlaga líf barna og fjölskyldna í heild að breyttu lífsmynstri. Jafnframt hvað mætti betur fara við að styðja við fjölskyldur sem búa við mikið álag og nýjar, og oft óþekktar, áskoranir.
Lykilorð: Covid -19, leikskólinn, áskoranir