Áhrifaþættir á hreyfingu og mataræði barna
Málstofustjóri: Auður Hermannsdóttir
CMC-líkanið um neyslu barna á máltíðum
Markmið rannsóknarinnar var að þróa líkan um ákvarðandi þætti á neyslu barna á tilteknum máltíðum. Líkaninu er ætlað að draga fram hvaða þættir skýra hvort og hversu oft börn neyta tiltekinna máltíða og er ætlað að vera nýtt sem greiningarlíkan þegar þróaðar eru aðgerðir til að hafa áhrif á fæðuneyslu barna. Líkanið var þróað eftir yfirgripsmikla, þverfaglega yfirferð yfir fyrri rannsóknir þar sem byggt var á þekkingu innan t.d. neytendahegðunar, atferlishagfræði, næringarfræði og matvælafræði. Líkanið sýnir flókin tengsl ýmissa áhrifaþátta úr innra og ytra umhverfi á neyslu barna. Líkanið tekur til að mynda á þáttum sem snúa að skynjun og viðhorfum barnanna sjálfra, áhrifaþáttum sem snúa að foreldrum, þáttum innan skólaumhverfisins, ásamt þáttum tengdum opinberri stefnumörkun og aðgerðum á vegum hins opinbera. Líkanið er mikilvægt fræðilegt framlag á sviði neysluhegðunar, enda felast verulegar takmarkanir í fyrri kenningum og líkönum þegar kemur að fæðuneyslu barna. Áhrifaþættir á fæðuneyslu barna eru töluvert aðrir en áhrifaþættir á fæðuneyslu fullorðinna, sér í lagi þegar kemur að máltíðum. Auk þess er líkanið gagnlegt greiningartæki fyrir opinbera aðila sem bera ábyrgð á að marka stefnu og framfylgja henni þegar kemur að heilsusamlegri fæðuneyslu barna. Líkanið er með markvissum hætti hægt að nýta í mótun samfélagsmiðaðrar markaðsstefnu sem ætlað er að ýta undir heilbrigðari neyslu meðal barna og þar með mikilvægt tæki í baráttunni gegn offitu.
Viðhorf og upplifun af skólaíþróttum
Rannsóknir hafa sýnt að með því að skapa jákvætt viðhorf til hreyfingar meðal ungmenna aukist líkur á reglubundinni hreyfingu á fullorðinsárum. Því þurfa skólaíþróttir í grunnskólum að miða að því að skapa jákvæða upplifun fyrir nemendur. Markmið rannsóknarinnar var að kanna viðhorf ungmenna í 8., 9. og 10. bekk grunnskóla til skólaíþrótta. Í gegnum svör frá foreldrum var upplýsinga aflað um viðhorf ungmennanna. Með rafrænu hentugleikaúrtaki fengust svör frá 671 foreldri. Niðurstöðurnar sýndu að þó nemendur hafi gaman af því að hreyfa sig utan skólatíma, upplifi þeir skólaíþróttirnar ekki sem sérstaklega skemmtilegar. Því má draga þá ályktun að sú hreyfing sem stunduð er í skólaíþróttum eða það umhverfi sem þær skapa, sé ekki að ná til nemenda. Samkvæmt niðurstöðunum er þó nokkur hluti sem líður ekki vel í íþróttatímum og er það nokkuð áhyggjuefni.
Rannsóknin varpar ljósi á viðhorf ungmenna til skólaíþrótta og bendir til þess að svigrúm sé til að gera betur á þessu sviði. Mikilvægt er að skólinn sé vettvangur þar sem ungmenni fá jákvæða reynslu og upplifun af hreyfingu enda líkur á að það hafi jákvæð áhrif á líkamlega og andlega líðan þeirra auk þess að hafa margvísleg jákvæð áhrif fram á fullorðinsár.
Með hvaða hætti getur hegðun þjálfara dregið úr brottfalli handknattleiksiðkenda?
Undanfarin ár hefur verulega dregið úr fjölda þeirra sem iðka handknattleik hér á landi. Brottfallið er mest í kringum 12 til 14 ára aldur og heldur iðkendum áfram að fækka eftir því sem aldur iðkenda hækkar. Sjálfræðiskenning Deci og Ryan hefur gjarnan verið notuð til að skoða hvað það er sem viðheldur stöðugleika og kemur í veg fyrir brottfall úr íþróttum. Samkvæmt kenningunni hafa einstaklingar ákveðnar grunnþarfir og það hvernig þessum þörfum er fullnægt leggur grunninn að þeirri hvatningarvídd sem einstaklingurinn er á. Rannsóknir hafa bent til þess að leiðtogahegðun þjálfara geti skipt sköpum í þessum efnum. Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvernig ungir iðkendur handknattleiks á Íslandi skynja leiðtogahegðun þjálfara síns og hvort sú skynjun spái fyrir um áform um áframhaldandi iðkun í gegnum hvatningu iðkenda. Í gegnum svör frá foreldrum var upplýsinga aflað um skynjun iðkenda. Með rafrænu hentugleikaúrtaki fengust svör frá 126 foreldrum. Niðurstöðurnar sýna að vissir þættir varðandi hegðun þjálfara geti skýrt á hvaða hvatningarvídd iðkendur eru og að sama skapi að tengsl séu á milli áforma um áframhaldandi iðkun og hvatningarvíddar iðkenda. Rannsóknin er gagnleg Handknattleikssambandi Íslands og aðildarfélögum varðandi æskilegar áherslur þegar kemur að menntun og þjálfun þjálfara. Mikilvægt er að leggja áherslu á ákveðna þætti í hegðun þjálfara til að draga úr líkum á brottfalli iðkenda.