Afbrot og löggæsla
Málstofustjóri: Snorri Örn Árnason
Þróun netglæpa á Íslandi og me-too hreyfingin
Vesturlandabúar nýta sér netið í auknum mæli og tækifæri hafa opnast fyrir margvíslega fráviks – og afbrotahegðun. Hvert er umfang slíkra brota á Íslandi? Hvaða þjóðfélagshópar eru líklegastir til þess að verða fyrir brotum á netinu og hvaða brot eru algengust? Er brotum af þessu tagi að fjölga hér á landi?
Gögnin sem niðurstöðurnar byggja á koma úr þremur þjóðmálakönnunum sem Félagsvísindastofnun safnaði saman 2016, 2018 og 2020. Þátttakendur voru spurðir hvort þeir hefðu orðið þolendur einhverra eftirtalinna netbrota: Meiðyrði eða rógburði, hótun um ofbeldi, persónuupplýsingar verið misnotaðar, t.d. kreditkortaupplýsingar eða kennitala, kynferðislegri áreitni, fjárkúgun, svik í viðskiptum, hvort einhver hafi hótað að dreifa eða birta myndir/efni um sig án leyfis og að lokum hvort einhver hafi birt eða dreift myndum án samþykkis.
Helstu niðurstöður eru að heildarfjöldi þeirra sem segist hafa orðið þolandi netbrots óx ekki frá 2018 eftir töluverða fjölgun frá 2016. Aftur á móti greindu þeir sem sögðust hafa orðið fyrir netbrotum 2020 frá fleiri brotum en þolendur gerðu árin 2016 og 2018. Flestir greindu frá meiðyrðum og fjársvikum. Athygli vekur að talsvert fleiri segjast þolendur kynferðislegrar áreitni árin 2018 og 2020 en 2016. Hafði me-too hreyfingin áhrif?
Helgi Gunnlaugsson og Jónas Orri Jónasson
Lykilorð: netglæpir, mee-too, áhættuhegðan
Ofbeldi í störfum lögreglu: ,,Það er í rauninni enginn séns að fá að vera mannlegur”
Valdbeiting lögreglunnar er umdeild í samfélaginu og er einn streituvaldur í starfi þeirra. Upplifun viðmælenda er að fjölmiðlaumræða eigi til að vera einhliða og ósanngjörn. Helsta ástæðan er að lögregluþjónar eru bundnir þagnarskyldu og geta því ekki tjáð sig um einstök mál. Verkefnið er byggt á bæði innlendum og erlendum rannsóknum og önnur gögn voru höfð til hliðsjónar. Markmið rannsóknarinnar var að kanna upplifun lögreglumanna á streitu og ofbeldi í starfi. Ennfremur voru viðmælendur spurðir um upplifun sína af umfjöllun fjölmiðla um málefni lögreglunnar. Rannsóknin er eigindleg og notast var við grundaða kenningu og fyrirbærafræðileganálgun. Viðtöl voru tekin við tíu lögreglumenn með ólíkan bakgrunn sem búsettir eru víðsvegar um landið. Niðurstöðurnar gefa til kynna að stór hluti viðmælenda hefur orðið fyrir ofbeldi í starfi og streita tengd starfinu er áberandi. Upplifun viðmælenda er sú að fjölmiðlaumræða sé töluvert hlutlausari þegar lögreglumenn eru beittir ofbeldi heldur en fréttir af lögregluþjónum sem beita ofbeldi. Niðurstöðurnar gefa einnig til kynna að afleiðingar starfstengdrar streitu lögreglumenna virðast birtast í einkalífi þeirra en upplifun lögreglumannanna á streitu er þó misjöfn. Niðurstöður sýna að verklag virðist óljóst hjá lögreglunni ásamt því að margir nefna að fjölga þurfi lögreglumönnum.
Lykilorð: lögreglan, ofbeldi, fjölmiðlar
Ferli betrunar: Að fá nóg, losna undan afneitun fíknivandans og öðlast vilja til að breytast
Margir halda áfram í afbrotum eftir afplánun dóms og því er mikilvægt að leita lausna á því vandamáli. Markmið rannsóknarinnar er að fá innsýn í ferli betrunar út frá upplifun einstaklinga sem eiga að baki brotaferil en hafa „snúið við blaðinu“. Rannsóknin byggir á gögnum úr níu djúpviðtölum þar sem leitast var við að varpa ljósi á hvað fær fólk til að vilja breytast, hvernig það ferli fer fram og hvaða hindranir og bjargir verða á veginum. Niðurstöðurnar sýna að það að verða „edrú“ var megin forsenda þess að einstaklingar hættu í afbrotum. Nær allir viðmælendur tengdu afbrot sín við neyslu. Til þess þurfti viljann til að breytast en hann gat fengist í gegnum hvata í kerfinu. Mikil sjálfsskoðun og sjálfsvinna lá því að baki að verða edrú, og það leiddi af sér breytta sjálfsmynd sem ekki samræmdist lengur lífi neyslu og afbrota. Til þess að móta, þróa og festa í sessi breytta sjálfsmynd þurfti jákvæð félagstengsl til að tileinka sér ný hlutverk. Kom þar inn mikilvægi stöðugrar atvinnu eða náms og jákvæðra fjölskyldu- og vinatengsla fyrir stöðvunarferli afbrota.
Lykilorð: stöðvunarferli afbrota, vímuefnavandi, félagstengsl
Samfélagsmiðlar og íslenski fíkniefnamarkaðurinn: „Maður þarf ekkert lengur að þekkja gaur sem þekkir gaur til að verða sér úti um gott dóp“
Samfélagsmiðlar hafa þróast mjög hratt á stuttum tíma og hafa breytt því hvernig einstaklingar eiga í samskiptum við hvern annan. Með komu tæknivæðingar hafa seljendur og neytendur vímuefna nýtt sér þær nýju leiðir sem í boði eru og fært sölu og kaup vímuefna að mestu yfir á samfélagsmiðla. Markmið rannsóknarinnar var að skoða íslenska fíkniefnamarkaðinn, sjá hvernig markaðurinn er í dag árið 2020 og hvernig hann hefur þróast á síðastliðnum árum. Einnig að skoða hvaða áhrif samfélagsmiðlar hafa á markaðinn og fá upplýsingar um hvers konar afleiðingar þátttakendur höfðu upplifað vegna hans. Aðferðafræðin sem notast var við var eigindleg aðferðafræði og voru níu viðtöl tekin við seljendur og kaupendur vímuefna. Niðurstöður sýndu fram á að þátttakendur gerðu fæstir einhvers konar ráðstafanir til þess að forðast afskipti lögreglu. Jafnframt höfðu nær allir þátttakendur upplifað neikvæð áhrif fíkniefnamarkaðarins og var munur hversu oft þátttakendur höfðu upplifað slík áhrif. Sá munur fólst helst í því hvort þátttakendur höfðu einungis neytt kannabis eða einnig harðari vímuefna. Breytingar á vímuefna viðskiptum hafa verið mjög örar á síðastliðnum árum, þá sérstaklega eftir komu snjallforrita. Það má merkja öra breytingu þegar borin eru saman viðtöl frá árinu 2017 við niðurstöður rannsóknarinnar.
Sara Mjöll Vatnar Skjaldardóttir
Lykilorð: fíkniefni, netmiðlar, löggæsla