Ráðstefna Þjóðarspegilsins 2024

Ráðstefna Þjóðarspegilsins verður haldin 31. október og 1. nóvember

Ráðstefna Þjóðarspegilsins er vettvangur fyrir virkt samtal við samfélagið utan veggja háskólanna. Hún veitir fræðafólki, sérfræðingum og öðrum tækifæri til að deila þekkingu, læra hvert af öðru, efla fagleg tengsl og samstarf á sviði félagsvísinda.

Ráðstefnan hefst fimmtudaginn 31. október með opnunarerindi og pallborði en föstudaginn 1. nóvember fara fram 45 málstofur og 190 erindi – þar sem rætt verða þau fjölmörgu málefni sem eru efst á baugi innan félagsvísinda. Ráðstefnan er haldin í húsakynnum Háskóla Íslands, hún er opin öllum sem hafa áhuga á félagsvísindum og er þátttakendum og öðrum áhugasömum að kostnaðarlausu.

Þeir sem óska eftir táknmálstúlkun senda tölvupóst á thjodarspegillinn@hi.is og skrá málstofuheiti þeirrar málstofu sem óskað er eftir að verði túlkuð. Með fyrirvara um að túlkur fáist. Beiðnin þarf að berast í síðasta lagi 28. október. 

Breyttingar á stjórnarskrá – hvernig og hvers vegna?

Opnunarerindi Þjóðarspegilsins fer fram 31. október kl. 15:00  í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands opnar með ávarpi

Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild:Hvernig breytast stjórnarskrár  – og hvers vegna?

Kári Hólmar Ragnarsson, dósent við Lagadeild:Er ómögulegt að breyta íslensku stjórnarskránni?

Kristrún Heimisdóttir, lektor og sjálfstætt starfandi lögfræðingur bregst við erindunum

Fundarstjóri er Hulda Þórisdóttir prófessor við Stjórnmálafræðideild

Ávarp forseta Félagsvísindasviðs – Þjóðarspegillinn 2024 

Kæru gestir, fræðafólk og vinir félagsvísinda, 

Hjartanlega velkomin á ráðstefnu Þjóðarspegilsins sem nú er haldin í tuttugasta og fimmta sinn. Allt frá því fyrsta ráðstefnan fór fram árið 1994 hafa íslensk félagsvísindi þróast og dafnað með miklum hraða. Á hverju ári sjáum við aukna grósku í rannsóknastarfi, og það er ekki síst hér á Þjóðarspeglinum þar sem þessi rannsóknarstarfsemi fær að njóta sín, bæði innan háskólasamfélagsins og í samræðu við samfélagið utan veggja háskólanna. 

Eins og árin á undan leggjum við áherslu á að Þjóðarspegillinn sé vettvangur fyrir öflugt samtal milli fræðimanna, samtal við hagsmunaaðila og við almenning. Rannsóknir í félagsvísindum eru lykill að skilningi á samfélagslegum áskorunum og því skiptir miklu máli að þær séu aðgengilegar og tengdar þeim sviðum samfélagsins sem þær snerta. Á þessu ári leggjum við áherslu á að rannsakendur og nemendur bjóði ættingjum og vinum að hlýða á áhugaverð erindi og líta inn til Háskóla Íslands. 

Þegar ég lít yfir dagskrána í ár fyllist ég bjartsýni. Mikil gróska einkennir rannsóknir í  félagsvísindum og þátttaka hér í dag ber þess glögt vitni. Félagsvísindin munu áfram skipta sköpum þegar kemur að því að skilja og móta framtíð samfélagsins. 

Ég vil þakka öllum sem hafa lagt sitt af mörkum við að gera þessa ráðstefnu að veruleika – fyrirlesurum, málstofustjórum, gestum og starfsfólki Félagsvísindasviðs og Félagsvísindastofnunar. Sérstakar þakkir sendi ég þeim sem stóðu að skipulagi ráðstefnunnar fyrir fagmannleg vinnubrögð. Án ykkar framlags væri ekki mögulegt að halda þessa ráðstefnu með þeirri velgengni sem hún nýtur ár eftir ár. 

Við skulum nýta þessa daga saman til að leggja okkar af mörkum til þess að efla rannsóknir, miðlun og samvinnu á þessu sviði, sem er svo mikilvægt fyrir framtíð Íslands. 

Ég hlakka til að fylgjast með öllu því spennandi sem framundan er og vona að þið njótið þess að taka þátt í þessari veislu sem felst í fjölbreyttri dagskrá á magnaðri ráðstefnu. 

Eigið góðar stundir, 

Stefán Hrafn Jónsson   

Forseti Félagsvísindasviðs 

Mynd af Stefáni Hrafni Jónssyni forseta Félagsvísindasviðs
  • Dagar
  • Klukkustundir
  • Mínútur
  • Sekúndur

Svipmyndir liðinna ára

Thjodarspegill_stubbur 2 2021
Skráning á póstlista

Skráning á póstlista

Nafn persónu, stofnunar eða félagasamtaka