Umhverfið og efnahagsmál
Málstofustjóri: Ágúst Arnórsson
Rætt verður um áskoranir í umhverfismálum, hvernig megi standa að hagrænu mati á umhverfisáhrifum og tæknileg álitamál sem varða loftslagsmál.
Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.
Mat á umhverfiskostnaði af Hólasandslínu 3
Til stendur að reisa nýja raflínu frá Akureyri að Hólasandi í Þingeyjarsýslu, Hólasandslína 3. Hún á að bæta flutningsgetu og afhendingaröryggi flutningskerfis raforku en hefur einnig mikil áhrif á nærumhverfið. Neysla á umhverfisgæðum er oftast án endurgjalds og alla jafna ekki seld á markaði. Því eiga þau sér ekki þekkt verð. Hólasandslína 3 hefur í för með sér rask á náttúru landsins, en á sama tíma færist raforkukerfið í betra horf. Því má velta fyrir sér hvort forsvaranlegt sé að ráðast í slíka framkvæmd þegar umhverfiskostnaður er talinn með og hvort máli skiptir hvaða útfærsla er valin á línunni. Í rannsókninni er fórnarkostnaður umhverfisins metinn með valtilraun, sem byggir á því að þátttakendur í spurningakönnun taka afstöðu til ólíkra útfærslna á Hólasandslínu 3. Niðurstöður rannsóknarinnar eru síðan settar í samhengi við áætlaðan framkvæmdakostnað. Þannig fæst mat á hagkvæmni helstu þátta framkvæmdarinnar.
Ágúst Arnórsson og Kristín Eiríksdóttir
Lykilorð: umhverfisgæði, hagrænt mat
Getur Ísland náð markmiðum sínum í loftslagmálum til 2030?
Í nýbirtri aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum eru settar fram 48 aðgerðir sem grípa á til svo draga megi út losun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi. Markmið áætlunarinnar er að draga úr losun sem nemur rúmlega milljón tonnum af koltvísýringsjafngildi. Aðgerðirnar eru margskonar og snúa að öllum geirum samfélagsins. Fjölmargar rannsóknir styðja þá niðurstöðu að hagkvæmt sé að ráðast í aðgerðir til að draga úr kostnaði vegna loftslagsbreytinga. Flestar þessara rannsókna benda þó til þess að afgerandi máli skipti að aðgerðirnar séu kostnaðarskilvirkar. Vegna þess að kostnaður aðgerða fellur til mun fyrr en ábatinn eru niðurstöður jafnan viðkvæmar fyrir ávöxtunarkröfu og niðurstöðurnar því vandtúlkaðar. Hagfræðingar hafa því talað fyrir aðferðum við að draga úr losun með stuðningi hvata sem stuðla að skilvirkni fremur en aðgerðir sem skilgreina ákveðnar lausnir. Dæmi um slíkar lausnir eru losunarkvóti, skattar á losun og skattar á mengandi aðföng. Margar af aðgerðunum í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar eru fremur á formi lagalegra takmarkana eða ákveðinna aðgerða en á formi hvata. Í erindinu verður lagt mat á kostnaðarskilvirki ólíkra lausna og bent á leiðir sem fara mætti til að tryggja ódýrari og betri árangur í að draga úr losun hér á landi.
Lykilorð: loftslagsmál, losun, skilvirkni
Má nota kolefnisgjöld til þess að draga úr kaupum heimila og fyrirtækja á bensíni og olíu?
Við alla brennslu fer kolefni út í andrúmsloftið. Ef engar hömlur eru lagðar á eldsneytisnotkun breyta þessi úthrif engu um notkun fólks og fyrirtækja á bensíni og olíu. Bregðast má við með beinum inngripum: Með því að banna innflutning á bensínvélum, innleiða hámark á eldsneytisnotkun eða leggja hömlur á innflutning á bensíni og olíu. Önnur leið er að leggja gjald á eldsneyti. Í erindinu verður fjallað um kosti og galla hvorrar leiðar fyrir sig. Þá verður farið yfir niðurstöður tveggja nýrra rannsókna þar sem annars vegar er lagt mat á áhrif kolefnisgjalda á notkun íslenskra heimila á olíu og bensíni og hins vegar á eldsneytisnotkun íslenskra fyrirtækja. Notuð eru ársgögn frá þessari öld og stuðst við svonefnt eftirspurnarkerfi. Þá eru niðurstöður úr rekstrarhagfræði nýttar til þess að auðvelda matið. Niðurstaðan er sú að kolefnisgjald, sem er 1% af bensínverði, dragi úr bensínkaupum fólks og fyrirtækja um 0,3-0,35%. Útkoman er ekki langt frá niðurstöðum nýlegra erlendra rannsókna. Að endingu verða tölulegar niðurstöður rannsóknanna túlkaðar og settar fram hugmyndir um hvað kolefnisgjaldið ætti að vera hátt.
Kári Kristjánsson og Sigurður Jóhannesson
Lykilorð: kolefnisgjöld, losun, skilvirkni
Pælingar um reiknivexti
Ungt fólk með Grétu Tunberg í broddi fylkingar hefur gagnrýnt ráðamenn og þá sem eldri eru fyrir að taka ónógt tillit til hagsmuna hinna yngri. Núlifandi kynslóð ráðamanna getur aukið eigin hagsæld og hagsæld núlifandi umbjóðenda sinna á kostnað komandi kynslóða með ósjálfbærri og/eða óhóflegri notkun auðlinda og uppsöfnun úrgangsefna á borð við CO2. Sé brugðist við gagnrýni hinna ungu og dregið hratt og harkalega úr auðlindanotkun myndu lífskjör núlifandi kynslóða skerðast verulega. Þjóðhagslegir reiknivextir (Social Discount rate) er eitt lykilhugtakanna í leit að jafnvægi milli hagsmuna nútíma og framtíðar. Í fjármálakerfinu er yfirleitt stuðst við veldisvísisreglur þegar tekjur og gjöld sem falla til á mismunandi tímum eru gerðar sambærilegar. Þessi regla hefur verið yfirfærð yfir á ákvarðanatöku hálf-opinberra og opinberra aðila, gagnrýnilítið. Reiknivextirnir sjálfir, r, hafa gjarnan verið ákvarðaðir sem (vegið) meðaltal (áhættulausra) vaxta sem fyrirtæki standa frammi fyrir á fjármagnsmarkaði áður en skattur er greiddur annars vegar og vaxta sem heimili hafa staðið frammfyrir eftir skatt hins vegar.Sýn manna bæði á aðferðir við að ákvarða reiknivexti og á reikniformúlurnar sem notaðar eru til að afvaxta og ávaxta hefur tekið umtalsverðum breytingum á undangengnum árum. Breiðboga-afvöxtun (hyperbolic discounting) er ein þeirra aðferða sem hefur verið sett fram í stað veldisvísisafvöxtunar. Ætlunin er að grein fyrir hugmyndinni um breiðbogaávöxtun, kostum hennar og göllum. Í framhaldinu að fjalla um hvaða þættir aðrir en markaðsvextir ættu að hafa áhrif á reiknivexti og hvaða afleiðingar það hefur varðandi stefnumótun t.d. í loftslagsmálum að beita lægri ávöxtunarkröfu en gert hefur verið.
Lykilorð: losun, reiknivextir, hagsæld
Tímaraðalíkön og þróun hitastigs á jörðinni
Öll gagnagreining byggist á túlkun í gegnum tölfræðileg líkön. Mælingar í tíma kalla á notkun tímaraðalíkana. Þar sem sagan er óendurtakanleg er nauðsynlegt að gefa sér ákveðnar forsendur um ráðandi eiginleika þess ferlis sem rannsaka á. Í þessu erindi eru eiginleikar tímaraðalíkana raktir. Nálganir þekktra vísindamanna á sviði tímaraðagreiningar og spálíkana eru lauslega kynntar. Þar má nefna Armstrong, stofnanda tímaritanna International Journal of Forecasting og Journal of Forecasting. Einnig eru hugleiðingar kennslubókarhöfundarins Mills kynntar. Nýlega (2020) birti Norðmaðurinn Dagsvik greiningu á um 100 tímaröðum af hitastigi á jörðinni í um það bil 200 ár byggða á long-memory líkönum. Slík líkön hafa stundum þótt henta við greiningu á rennsli í ám. Sýnd er niðurstaða úr síðstæðu ARMA líkani í samfelldum tíma um tengsl koltvísýrings og hitastigs síðustum 800.000 ár. Samantekin niðurstaða þessara greininga er að ályktunum um mikla hlýnun á jörðinni beri að taka með varúð.
Lykilorð: tímaraðir, ARMA, hlýnun