The conversation is the relationship: Um aðgengi, gæði og réttmæti upplýsinga

Málstofustjóri: Ragna Kemp Haraldsdóttir

Upplýsingar eru alltumlykjandi og varða öll dagleg samskipti fólks. Við viljum geta treyst því að við höfum aðgengi að þeim upplýsingum sem við þörfnumst hverju sinni, að skipulag þeirra gagna sem skapa upplýsingarnar sé gott, að unnið sé að stöðugu gæðastarfi svo upplýsingarnar teljist réttmætar og áreiðanlegar og að öryggi upplýsinganna sé tryggt. Þessar grundvallarþarfir eiga við hvort sem um er að ræða heilbrigðisgeirann, s.s. sjúklinga á sjúkrahúsi sem tala ekki eða skilja tungumál þess lands sem dvalið er í, menntageirann þar sem nemendur í háskólanámi treysta á stöðugt flæði upplýsinga og góð samskipti við kennara í gegnum fjarfundarkerfi á tímum heimsfaraldurs, eða atvinnulífið í heild þar sem utanaðkomandi kröfur gera ráð fyrir skráningu upplýsingar er varða laun og persónubundna þætti starfsfólks vegna innleiðingar á jafnlaunastaðli. Þó dæmin komi úr ólíkum áttum eiga þau það sameiginlegt að samtalið skiptir sköpum til að tryggja aðgengi, gæði og réttmæti upplýsinga.

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Kröfur jafnlaunastaðals um skjalfestingu: Júmbóþota í staðinn fyrir flugdreka?

Ísland er fyrsta þjóðin til að lögfesta jafnlaunastaðal til að koma á og viðhalda launajafnrétti á vinnustað. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvernig skipulagsheildir sem hlotið höfðu jafnlaunavottun hefðu staðið að innleiðingu jafnlaunakerfis. Tilgangurinn var að varpa ljósi á hvaða þættir reyndust styðja við innleiðingarferlið og hverjar væru helstu hindranir. Þá var kannað hvernig skipulagsheildum gekk að mæta auknum kröfum um skjalastjórn samhliða innleiðingu.

Rannsóknin byggist á eigindlegri aðferðafræði. Tekin voru tíu hálfstöðluð viðtöl. Þá var höfð til samanburðar textagreining á kröfum jafnlaunastaðals til skjalfestingar og erindum í 437. þingmáli um lögfestingu jafnlaunakerfis frá 146. löggjafarþingi.

Niðurstöður benda til þess að innleiðing jafnlaunastaðals hafi styrkt annað gæðastarf og öfugt. Þannig virtust skipulagheildir sem þegar höfðu innleitt gæðastaðla og/eða unnu skilvirkt að skjalastjórn hafa forskot á aðrar. Styrkur þeirra fólst í sérþekkingu starfsfólks á sviði mannauðsmála, gæðamála og skjalamála. Með innleiðingu jafnlaunakerfis komust á agaðri vinnubrögð, aukið gagnsæi í launasetningu og skjalastjórn jókst. Niðurstöður leiddu einnig í ljós að helstu hindranir við innleiðingu voru tímaskortur og aukið vinnuálag. Starfaflokkun reyndist að auki tímafrek. Þá komu fram gagnrýnisraddir sem beindust að lögleiðingu jafnlaunastaðals almennt sem og að eftirlitsaðilum sem skorti fjármagn og mannafla til að sinna lögbundnu hlutverki sínu.

Ragna Kemp Haraldsdóttir og Guðbjörg Ingunn Óskarsdóttir

Lykilorð: jafnlaunastaðall, upplýsinga- og skjalastjórn, gæðastjórnun

Skipulögð framsetning og gott aðgengi að upplýsingum styrkir tengsl kennara og nemenda í fjarnámi. Jákvæð áhrif á námsárangur og ánægja með námið

Inngangur: Í fjarnámi þar sem nemendur telja oft tengsl við kennara takmörkuð eru stafræn samskipti, gott skipulag og aðgengi að upplýsingum lykilatriði. Samkvæmt rannsóknum hefur upplifun nemenda af nægilegum tengslum við kennara jákvæð áhrif á áhugahvöt þeirra. Þessi rannsókn skoðar hvaða þættir í stóru fjarkennslunámskeiði (HÍ) hafa áhrif á upplifun nemenda af tengslum og umhyggju kennara. Aðferð: Rafrænn spurningalisti var sendur til nemenda (182) með spurningum um tengsl við kennarann. Gildur kvarði var notaður til að mæla upplifun nemenda m.a. af afstöðu kennarans til námsgengis þeirra (umhyggja). Notaður var sex þrepa Likert kvarði frá mjög ósammála (1) … til mjög sammála (6). Tekin voru þrjú rýnihópaviðtöl (10)til að dýpka niðurstöður. Niðurstöður: Þátttakendur í netkönnuninni voru 82(45%). Tæplega 80% töldu að þeir hefðu náð góðum tengslum og upplifað umhyggju kennarans. Þátttakendur rýnihópa útskýrðu að þeim hefði fundist þeir kynnast kennaranum í gegnum kynningarmyndbandið, PPT kennslumyndböndin (í mynd), og vikuleg myndbönd þar sem spurningum nemenda var svarað, og upplifað umhyggju í gegnum frábært skipulag sem bæri vott um að kennaranum væri ekki sama hvernig þeim gengi. Ályktun: Vingjarnlegur kennari, gott skipulag og skýr framsetning á upplýsingum hefur jákvæð áhrif. Nemendur upplifa tengsl og umhyggju sem eykur líkur á ánægju og góðum námsárangri.

Ásta Bryndís Schram og Sigurbjörg Jóhannesdóttir

Lykilorð: fjarnám, tengsl, skipulag

Tungumálahindranir í samskiptum innan heilbrigðiskerfisins: Niðurstöður upplýsingaleitar um notkun stafrænna samskiptatækja

Meginforsendur góðrar heilbrigðisþjónustu eru árangursrík og örugg samskipti og upplýsingamiðlun. Með auknum fjölda einstaklinga á Íslandi sem ekki skilja íslensku er þörf á fjölþættari úrræðum en hefðbundinni túlkaþjónustu. Markmið verkefnisins var að kanna hvaða stafrænu lausnir eru til sem auðvelda samskipti heilbrigðisstarfsfólks og sjúklinga sem ekki tala sama tungumál með sérstaka áherslu á áreiðanleika þeirra og öryggi. Gerð var kerfisbundin fræðileg leit í heilbrigðisgagnagrunnunum PubMed og Cinahl, upplýsingaleit á vefnum og tekin viðtöl við erlenda og innlenda fagaðila. Gagnagreiningu er ólokið. Sex erlendum rannsóknum (2018-2021) ber saman um að notkun stafrænna samskiptatækja getur auðveldað samskipti og bætt upplifun notenda, aukið öryggi starfsfólks og sparað tíma. Hins vegar hentar ný tækni ekki öllum notendum og samskiptatækin koma ekki alfarið í stað túlka. Í nágrannalöndunum er verið að prófa notkun samskiptatækja á sjúkrahúsum sem byggja á leiðréttum þýðingum (e. fixed translations), þ.e. búið er að taka vélþýddan texta og yfirfara hann til að tryggja áreiðanleika. Notkun slíkra samskiptatækja lofar góðu en þörf er á frekari rannsóknum.

Á Íslandi er til samskiptatæki sem notað er í grunnskólum en engin samskiptatæki fundust í notkun innan heilbrigðiskerfisins.

Áreiðanleiki er enn áskorun þegar kemur að vélþýðingum en er lykilatriði í öryggi samskipta heilbrigðisstarfsmanna og sjúklinga/aðstandenda. Því er gagnlegt að nota tæknilausnir með leiðréttum þýðingum til að greiða aðgengi sjúklinga að upplýsingum.

Tinna Guðjónsdóttir og Brynja Ingadóttir

Lykilorð: upplýsingamiðlun, heilbrigðisþjónusta, tungumálahindranir

Event Details
  • Start Date
    29/10, 2021 15:00
  • End Date
    29/10, 2021 16:45
Höfundar erinda
Sérfræðingur
Annað / Other
Aðjúnkt
Háskóli Íslands / University of Iceland
Dósent
Háskóli Íslands / University of Iceland
Dósent
Háskóli Íslands / University of Iceland
MA/MS nemi
Háskóli Íslands / University of Iceland
Lektor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Event Details
  • Start Date
    29/10, 2021 15:00
  • End Date
    29/10, 2021 16:45