Stefna og samkeppnishæfni
Málstofustjóri: Runólfur Smári Steinþórsson
Málstofan um Stefnu og samkeppnishæfni myndar ramma um erindi sem lýsa rannsóknum á sviði stefnumiðaðrar stjórnunar og samkeppnishæfni á Íslandi. Í þessari málstofu er áhersla lögð á að greina frá rannsóknum á stefnumiðuðu starfi innan fyrirtækja, meðal opinberra aðila og í þriðja geiranum. Einnig er fjallað um virkni klasa og hvernig stefnumiðað starf tengist samkeppnishæfni á Íslandi.
Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.
Uppbygging og þróun klasasamstarfs er mikil áskorun
Klasi vísar til landfræðilegrar þyrpingar tengdra fyrirtækja og annarra skipulagsheilda sem eiga í margvíslegum gagnvirkum samskiptum á tilteknu sviði. Innan klasa ríkir bæði samkeppni og samstarf milli aðila sem hvetur til nýsköpunar og framfara; um leið og stutt er við verðmætasköpun atvinnugreinarinnar. Klasaframtak er formgert klasasamstarf sem skipulagt er með það að markmiði að þróa og efla klasasamstarf og auka þannig samkeppnishæfni klasa. Líftækni er vísindamiðuð atvinnugrein sem hefur þróað fjölbreytt úrval af nýstárlegum afurðum sem eru bæði umhverfisvænar og sjálfbærar. Þó að líftækniiðnaðurinn sé talinn mikilvægt stoð fyrir hagvöxt og hagsæld komandi ára, þá hafa fræðimenn velt því fyrir sér hvort iðnaðurinn sé nógu fær um að samþætta fjölbreytt starfsvið vísinda, tækni og viðskipta. Þar sem framleiðsla á líftækniafurðum byggir oftast á hátæknilegri yfirfærslu vísindalegrar þekkingar yfir í markaðsafurðir. OECD hefur hvatt ríkisstjórnir og leiðandi fyrirtæki að þróa stefnumörkun sem tekur á þeim áskorunum sem líftæknifyrirtæki standa frammi fyrir. Dæmi um slíka stefnumörkun er klasastefna sem ætlað er að stuðla að eflingu klasasamstarfs og stofnun klasaframtaks. Þannig væri hægt að skapa vettvang sem sameinar alla lykil hagsmunaaðila hlúa að þróun líftækni og samkeppnishæfni greinarinnar á Íslandi. Uppbygging og þróun klasasamstarfs á sviðum tengdum líftækni hefur reynst vera mikil áskorun hérlendis. Í erindinu verður fjallað um þær þrjár tilraunir sem hafa verið gerðar og áskoranir þeim tengdum.
Hulda Guðmunda Óskarsdóttir og Runólfur Smári Steinþórsson
Lykilorð: klasi, klasaframtak, líftækniiðnaður
Hvernig má bæta samkeppnishæfni gagnavera á Íslandi?
Gagnaversiðnaður er nýleg atvinnugrein á Íslandi sem gera má ráð fyrir að vaxi enn frekar á næstu árum samhliða fjórðu iðnbyltingunni og stafrænni umbreytingu. Markmið rannsóknarinnar var að rannsaka samkeppnishæfni gagnavera á Íslandi og kanna hvort gagnaversklasi sé til staðar. Samkeppnishæfni sýnir aðstæður til verðmætasköpunar og hagsældar og því er upplagt að skoða íslenskan gagnaversiðnað í því ljósi.
Í rannsókninni er gagnaversiðnaðurinn skoðaður út frá demantslíkani Porters, sem varpar ljósi á þau lykilatriði sem þurfa að vera til staðar fyrir gagnaversfyrirtæki til að ná alþjóðlegu samkeppnisforskoti, fimm krafta líkani Porters, sem skoðar samkeppni gagnaversfyrirtækja í víðara samhengi, og kenningum um klasa, kortlagningu þeirra og þróunarskeið en tilvist klasa getur eflt samkeppnishæfni fyrirtækja.
Rannsóknin er lýsandi raundæmisrannsókn þar sem eigindlegar rannsóknaraðferðir eru notaðar til að skoða viðfangsefnið. Viðtöl voru tekin við 15 sérfræðinga á þessu sviði og rannsókn gerð á fyrirliggjandi gögnum.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að samkeppnishæfni gagnaversiðnaðar á Íslandi er sterk þegar kemur að endurnýjanlegri og grænni raforku, loftslagi og öryggi. Staðsetning landsins og hæft starfsfólk skipta máli en hafa bæði kosti og galla. Gagnatengingar eru ófullnægjandi og verðlagning há, eftirspurn eftir raforku fer sívaxandi, innviðauppbyggingu er ábótavant og skortur á heildstæðri stefnu stjórnvalda hafa neikvæð áhrif á samkeppnishæfnina. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að vísir sé að gagnaversklasa.
Sigurlaug Björg Stefánsdóttir og Runólfur Smári Steinþórsson
Næm augu, nördasmáatriði og verkefnastjórar sem sýningarstjórar: Upplifun starfsfólks tveggja menningarstofnana af stefnumótandi starfi í ljósi stefnu í reynd
Tilgangur þessarar rannsóknar er að varpa ljósi á upplifun starfsfólks menningarstofnana á eigin aðkomu að stefnumótandi starfi sem og birtingarmynd sambands við haghafa. Í rannsókninni er stuðst við fræðilegan ramma stefnu í reynd (e. strategy as practice), habitus, skilningsmótunar (e. sensemaking) og félagsefniskenndar (e. sociomateriality). Fræðilegi ramminn mótaðist gegnum ferli ítrunar við lestur og úrvinnslu efnis tengdu stefnu í reynd. Gagnaöflun þessarar eigindlegu rannsóknar samanstendur af hálfstöðluðum viðtölum og fyrirliggjandi gögnum. Tekin voru viðtöl við níu starfsmenn tveggja menningarstofnana á höfuðborgarsvæðinu, Borgarbókasafns Reykjavíkur og Borgarsögusafns Reykjavíkur.
Niðurstöður viðtala eru settar fram og bornar saman við fyrirliggjandi gögn. Rannsóknin sýnir fram á ólíka upplifun starfsfólks stofnananna tveggja hvað varðar aðkomu að stefnumótun. Þessa ólíku upplifun má meðal annars rekja til notkunar notendamiðaðrar hönnunar í stefnumótunarferli Borgarbókasafnsins, en einnig er litið til þess að tilgangur starfsemi stofnananna tveggja er ólíkur og krefst þar af leiðandi ólíkra þátta af iðkendum. Þessi ólíki tilgangur stofnananna birtist einnig í niðurstöðum um samband við haghafa, en þar komu helst fram samskipti við notendur stofnananna. Samband viðmælenda við haghafa einkenndist af leiðum til að koma til móts við þá með því að virkja þátttöku, efla aðgengi og hlusta á þarfir þeirra, sem stundum skilaði sér aftur inn í stefnumótandi starf. Einnig birtist samband viðmælenda við haghafa gegnum fjölbreyttar miðlunarleiðir í starfsemi beggja stofnana.
Bára Bjarnadóttir og Runólfur Smári Steinþórsson
Lykilorð: upplifun starfsfólks, stefnumótandi starf, stefna í reynda
Samhent virði sem vegvísir að samkeppnishæfni
Það er alkunna að sérhver starfsemi í samfélagi taki mið af aðstæðum til að ná árangri. Áskorunin er hvernig það er gert og hvaða upplýsingar og aðferðir liggi þar að baki. Nálgunin hér er af sviði stefnu og samkeppnishæfni og er skilgreind sem samhent virði (e. shared value). Leitartilgátan sem hér er kynnt er sú að samhent virði megi sjá sem vegvísi að samkeppnishæfni.
Með hugtakinu virði er settur fókus á þá verðmætasköpun og virðisauka sem leitast er við að ná fram í tilteknu samfélagi á hverjum tíma. Með hugtakinu samhent er byggt á því að margir hafa hag af þeirri verðmætasköpun sem unnið er að og vísað til þess að sköpun verðmæta sé í raun gagnvirkt og samverkandi ferli þvert á fyrirtæki, atvinnugreinar og geira samfélagsins. Samhent virði er þar með sá árangur sem næst af hinni samverkandi og samhentu verðmætasköpun aðilanna sem virkir eru í hverju tilviki í samfélaginu.
Til að ná árangri verða fyrirtæki og aðilar að nýta vel auðlindirnar sem eru til ráðstöfunar til að veita góða þjónustu og skila ávinningi til viðskiptavina og hagsmunaaðila. Rannsóknarspurningin í þessu verkefni er því hvernig samhent virði geti verið mikilvægur vegvísir þeim aðilum sem í hlut eiga og leitast við að ná og halda sem mestri samkeppnishæfni.
Lykilorð: samhent virði, stefna, samkeppnishæfni