Sóttvarnaráðstafanir og fjármunaréttur
Málstofustjóri: Valgerður Sólnes
Kórónaveirufaraldur hefur geisað á Íslandi og í heimsbyggðinni allri í á annað ár. Yfirvöld hér á landi hafa gripið til ýmissa sóttvarnaaðgerða í því skyni að bregðast við farsóttinni almenningi til heilla, sem leitt hafa til efnahagslegra áhrifa t.d. á atvinnustarfsemi og þjónustu. Í opinberri umræðu hefur borið á því einstaklingar og lögaðilar hafi talið sig hafa borið tjón af völdum sóttvarnaaðgerða stjórnvalda. Í málstofunni munu sérfræðingar í fjármunarétti fjalla um fáein álitaefni tengd sóttvarnaaðgerðum stjórnvalda í fjármunaréttarlegu tilliti.
Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.
Tímabundið brottfall efndaskyldu vegna hindrana er leiða af kórónaveirufaraldrinum: Réttaráhrif og uppgjör
Í erindinu verður fjallað um rannsókn á reglum kröfuréttar sem heimila tímabundna stöðvun efnda vegna hindrana á framkvæmd samnings, sem koma til eftir að samningur er gerður. Reglur kröfuréttar sem taka til efndahindrunar eru fjórar; reglan um force majeure, reglur um efndahindrun sem hluti af reglunni um stjórnunarábyrgð, reglan um brostnar forsendur og ógildingarregla (og hliðrunarregla) 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Fjallað verður um réttaráhrif slíkra efndahindrana. Niðurstaða rannsóknarinnar er sú að meta þurfi hvert tilvik sérstaklega. Í mörgum tilvikum getur samningsaðili, sem orðið hefur fyrir því að honum er ókleift að reka þá starfsemi sem hann hefur fjárfest í vegna afleiðinga sóttvarnaákvarðana stjórnvalda, haldið að sér höndum um réttar efndir meðan hin ófyrirséða hindrun kemur í veg fyrir að hann hafi möguleika til að efna skuldbindingar sínar. Þá verður fjallað um hvernig beita má 36. gr. samningalaga til þess að ákvarða hver sé sanngjörn skipting áhættunnar af því að óvænt og ófyrirséð atvik, eins og kórónaveirufaraldurinn, hafi gert samningsaðila ókleift, eða að minnsta kosti efnahagslega ómögulegt, að efna skyldur sínar.
Lykilorð: sóttvarnaráðstafanir, fjármunaréttur, kröfuréttur
Viðbrögð við inngripum í samninga af völdum kórónaveirufaraldurs
Samningaréttur og viðskiptalífið byggja á meginreglunum um skuldbindingargildi samninga og samningsfrelsið, en síðargreinda reglan felur í sér að menn eigi val um hvort þeir gangi til samninga, við hvern þeir semji og að hverju efni samnings lýtur. Þriðju regluna má einnig nefna í þessu samhengi, meginreglu fjármunaréttar um tillitsskyldu samningsaðila, sem varðar skylduna til að stuðla að því að samningur verði efndur í samræmi við efni hans og að taka skuli tillit til og gæta trúnaðar við gagnaðila í samningssambandi. Allar stuðla reglurnar að nauðsynlegu réttaröryggi og skilvirkni í viðskiptalífinu. Stjórnvöld hafa gripið til sóttvarnaaðgerða til að bregðast við kórónaveirufaraldrinum og þær hafa óneitanlega raskað samningssambandi einstaklinga og lögaðila. Af meginreglunum um skuldbindingargildi samninga og samningsfrelsi leiðir að samningsaðili getur jafnan ekki vikið sér undan því að efna samningsskyldur sínar í samningssambandi milli jafnsettra aðila, þótt þær megi telja ósanngjarnar í hans garð. Ógildingarreglur samningaréttar eru mikilvægasta undantekningin frá meginreglunum. Við þær aðstæður sem ríkja í samfélaginu vaknar sú spurning hvort ógildingarreglur samningaréttar og aðrar reglur fjármunaréttar virki sem skyldi þegar bregðast þarf við kerfislægum vanda sem nú er uppi. Markmið erindisins er að svara því til og jafnframt velta upp hvort annarra viðbragða sé þörf t.d. af hálfu löggjafans.
Lykilorð: sóttvarnaráðstafanir, fjármunir, samningaréttur
Bótareglur sóttvarnalaga
Í sóttvarnalögum nr. 19/1997 er fjallað um sjúkdóma og sjúkdómsvalda sem valdið geta farsóttum og ógnað almannaheill, svo og aðrar alvarlegar næmar sóttir. Með sjúkdómum er átt við sjúkdóma eða smitun, sem smitefni, örverur eða sníkjudýr valda og einnig alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar eiturefna og geislavirkra efna. Á grundvelli þessara laga hafa stjórnvöld gripið til ýmissa aðgerða til að bregðast við kórónaveirufaraldrinum. Í lögunum er bótaregla í 4. mgr. 15. gr. a. Samkvæmt ákvæðinu skal dæma bætur úr ríkissjóði hafi einstaklingur verið sviptur frelsi með stjórnvaldsákvörðun (svo sem þegar viðkomandi er settur í einangrun eða sóttkví), ef lögmælt skilyrði hefur brostið til slíkrar ákvörðunar og hún hefur staðið lengur en efni stóðu til eða staðið hefur verið að frelsissvipitingunni á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt. Bæta skal fjártjón og miska ef því er að skipta. Að öðru leyti gilda almennar reglur skaðabótaréttar. Markmið erindisins er að gera grein fyrir bótareglu sóttvarnalaga, þ. á m. hvaða skilyrði standa til bótaábyrgðar og hvaða tjón skuli bætt eftir reglunni, og þær almennu reglur skaðabótaréttar sem hafa þýðingu við beitingu bótareglu sóttvarnalaga.
Lykilorð: sóttvarnaráðstafanir, fjármunaréttur, bótaréttur
Tjón af völdum sóttvarnaaðgerða stjórnvalda og fjárhæð þess
Þær sóttvarnaaðgerðir sem stjórnvöld hafa gripið til í því skyni að stemma stigu við kórónaveirufaraldrinum hér á landi hafa óumdeildanlega haft efnahagsleg áhrif. Markmið þessa erindis er að varpa ljósi á hvenær slíkar aðgerðir geta valdið bótaskyldu, svo og hvernig fundin er fjárhæð tjóns af völdum slíkra aðgerða þegar bótaréttur er fyrir hendi. Í þessu skyni verður í fyrsta lagi fjallað um takmarkanir á stjórnarskrárvörðum eignarrétti og atvinnufrelsi, þ.á.m. hvernig stjórnarskrárákvæðin horfa við neyðarástandi. Í öðru lagi verður fjallað um hvort einstaklingar og lögaðilar kunni að eiga bótarétt annars vegar vegna þess tímabils þegar lítill hluti þjóðarinnar var bólusettur og hins vegar tímabilsins nú þegar stærstur hluti þjóðarinnar hefur verið bólusettur. Í þriðja lagi verður fjallað um fjárhæð bóta og sjónum þá meðal annars beint að útreikningi bóta í samkeppnis- og verktakamálum, þar sem borin er saman atburðarás þess sem varð og hins sem hefði getað orðið ef allt hefði verið með felldu.
Lykilorð: sóttvarnaráðstafanir, fjármunaréttur, tjón