Samfélagsleg ábyrgð og stjórnarhættir
Málstofustjóri: Þröstur Olaf Sigurjónsson
Málstofan tekur yfir nýlega strauma og stefnur þar sem samfélagsábyrgð og stjórnarhættir fyrirtækja skarast. Fjallað verður um hvort og þá hvernig fyrirtæki bera samfélagslega ábyrgð, hvernig mæla á aðferðir fyrirtækja á sviði samfélagsábyrgðar og er aðkoma fjárfesta skoðuð sérstaklega. Þá er rýnt í hlutverk endurskoðunarnefnda og hvernig koma megi böndum yfir ófjárhagslegar upplýsingar.
Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.
Hindranir tengdar gögnum, við innleiðingu UFS þátta
Mörg fyrirtæki birta upplýsingar varðandi Umhverfis- og félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS). UFS upplýsingarnar eru notaðar sem mælistika til þess að meta hversu vel fyrirtækjunum gengur að ná sjálfbærni markmiðum sínum. Sjálfbærni markmiðin eru sett samkvæmt Alþjóðlegum Samningi Sameinuðu þjóðanna (UN Global Compact) sem fyrirtækin hafa gerst aðilar að. Ljóst er að ferlið við slíkar upplýsingagjöf og mælingar er gagnadrifið. Á þessari málstofu verður gerð grein fyrir rannsókn þar sem metið var hvernig rekja megi flæði UFS gagna. Flæðið hefst á því að fyrirtæki birtir UFS upplýsingar sínar, og matsfyrirtæki (e. rating agency) nýtir upplýsingarnar til að meta árangur viðkomandi fyrirtækis á UFS þáttunum. Enn fremur er greint frá því hvernig fagfjárfestar nýta sömu upplýsingar. Rannsóknin fylgir flæði gagnanna frá tilurð þeirra til notkunar, með að markmiði að skilja hvað hindrar hraðari innleiðingu UFS þáttanna. Rannsóknin byggir meðal annars á viðtölum við hagaðila frá fyrirtækjum, matsfyrirtækjum og fagfjárfestum. Niðurstöðurnar varpa ljósi á gildi UFS mats í tengslum við gagnaflæðið sem það hvílir á og hvaða hindranir eru á vegi þess að gæði gagnanna sé vel ásættanlegt. Varpað er ljósi á möguleika hagaðila til að leysa þær hindranir sem birtast og auka þannig gæði upplýsinganna. Niðurstöður benda enn fremur til þess að hagaðilar kalla eftir gæðaeftirliti með gagnaflæðinu og upplýsingunum, en eru þó hikandi vegna mikils tilkostnaðar við slíkt eftirlit.
Lykilorð: ESG, stjórnarhættir, sjálfbærni
Skipta UFS þættir máli við ákvarðanatöku íslenskra stofnanafjárfesta?
Sívaxandi áhugi almennings og fjölmiðla á umhverfisþáttum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum (UFS) í starfsemi fyrirtækja og fjárfesta, sem og auknar kröfur um sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð, hafa leitt til aukinnar áherslu á UFS í starfsemi fyrirtækja. Þessi rannsókn tekur til skoðunar hvort/hvernig íslenskir stofnanafjárfestar meta fjárfestingarkosti út frá UFS. Einnig er horft til þess með hvaða hætti haldið er utan um eignasöfn og hvernig hlutverk virks og ábyrgs stofnanafjárfestis er ræktað. Gerður er samaburður á fyrirliggjandi gögnum um stöðu mála hjá sambærilegum fjárfestum á Norðurlöndunum.
Markmið er að varpa ljósi á það hvaða aðferðum og mælikvöðrum íslenskir stofnanafjárfestar beita við mat fjárfestingarkosta út frá UFS, en einnig á stöðu mála varðandi samskipti stofnanafjárfestis við félög/sjóði sem fjárfest hefur verið í, og hvort/hvernig fjárfestir beitir sér til að ná fram áherslum sem lagðar eru samkvæmt eigendastefnu/hluthafastefnu. Tekin voru viðtöl við stjórnarmenn og starfsmenn íslenskra stofnanafjárfesta, auk viðtala við stjórnarmann í dönskum lífeyrissjóði og danskan fræðimann á sviði ábyrgra frjárfestinga. Niðurstöðurnar sýna að íslenskir stofnanafjárfestar eru eftirbátar kollega sinna á hinum Norðurlöndunum, bæði varðandi mat fjárfestingakosta út frá UFS og eftirliti með fjárfestingum. Gegnsæi er lítið og haghafar, á borð við þá sem eiga fé í sjóðunum, hafa takmarkað aðgengi að upplýsingum um hvernig fénu er varið.
María Ásdís Stefánsdóttir Brendsen og Þröstur Olaf Sigurjónsson
Lykilorð: fjárfestar, ESG, stjórnarhættir
Ófjárhagslegar upplýsingar – frá stafrófssúpu til samræmingar
Árið 2016 var ákvæði 66. gr. d. bætt við lög um ársreikninga nr. 3/2006 en með ákvæðinu var fyrirtækjum af ákveðinni gerð og stærð gert skylt að greina frá umfangsmiklum ófjárhagslegum upplýsingum í ársreikningum sínum. Upplýsingaskyldan er um margt óljós og er fyrirtækjum veitt umtalsvert svigrúm til þess að ákveða efnislegt inntak upplýsinganna.
Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á samband lagakrafna um ófjárhagslegar upplýsingar og framkvæmdar upplýsingagjafar þeirra fyrirtækja sem falla undir upplýsingaskylduna.
Rannsóknin gerir grein fyrir lagalegri og ólögbundinni umgjörð ófjárhagslegrar upplýsingagjafar. Hún skýrir efnislegt inntak lagakrafna, valkosti við skýrslugjöf og vænta þróun hvað varðar framsetningu, miðlun og staðfestingaferli upplýsinganna. Jafnframt leitast rannsóknin við því að svara þeirri rannsóknarspurningu hver sé upplifun stjórnenda af ferli upplýsingagjafarinnar og viðhorf þeirra til þeirra áhrifa sem ófjárhagsleg upplýsingagjöf hefur á rekstur fyrirtækja. Ennfremur leitast rannsóknin við að lýsa afstöðu þeirra til þeirra tækifæra og áskorana sem framsetning og miðlun ófjárhagslegra upplýsinga hefur í för með sér. Rannsóknin byggir á eigindlegri aðferðafræði þar sem viðtöl eru tekin við stjórnendur og aðra hagaðila sem tengjast viðfangsefni rannsóknarinnar.
Ingi B. Poulsen og Þröstur Olaf Sigurjónsson
Lykilorð: ófjárhagslegar upplýsingar, stjórnarhættir, sjálfbærni
Siðferðilegt gerhæfi fyrirtækja
Hugtakið „gerhæfi“ (e. agency) er til grundvallar í heimspeki þegar kemur að siðferðislegri ábyrgð einstaklinga. Nú á dögum er svo vinsælt að halda því fram að fyrirtæki séu gædd slíkri ábyrgð. Af því leiðir að fyrirtæki séu þá einnig gædd svokölluðu „siðferðilegu gerhæfi“ (e. moral agency). Mikið hefur verið rætt og ritað um þetta efni frá sjötta áratug síðustu aldar og hafa mörg heimspekileg viðhorf komið fram bæði þessu til stuðnings og til mótstöðu. Rannsóknin snýr að því að varpa ljósi á hvort að þessi heimspekilegu viðhorf um siðferðilegt gerhæfi fyrirtækja (e. corporate moral agency) endurspeglist í viðhorfum stjórnenda íslenskra fyrirtækja. Aðferðinni sem beitt er í rannsókninni er eigindleg, en viðtöl eru tekin við stjórnendur. Ræðir annars vegar um almennar spurningar sem taka til skipulags og stefna fyrirtækja viðmælenda og hins vegar fræðilegra spurninga sem horfa til viðskiptasiðfræði, heimspeki og kenninga um stjórnun fyrirtækja. Í því sambandi er stuðst við dæmisögu sem viðmælendur eru beðnir að kynna sér og taka afstöðu til. Bráðabirgðaniðurstöður rannsóknarinnar, út frá þeim viðtölum sem hafa verið tekin, sýna að stjórnendur hafa ólíkar skoðanir á þessum málum. Þeim ber þó öllum saman um að stjórnendur og hluthafar séu gæddir gerhæfi og hafi ívið meira en fyrirtækin sjálf, og jafnvel að fyrirtæki hafa ekki að geyma siðferðilegt gerhæfi.
Jóhann Viðar Hjaltason og Þröstur Olaf Sigurjónsson
Lykilorð: gerhæfi, sjálfbærni, stjórnarhættir
Skipan og óhæði endurskoðunarnefnda
Endurskoðunarnefndir gegna mikilvægu hlutverki í að tryggja áreiðanleika og óhæði endurskoðunar fyrirtækja. Eitt af meginmarkmiðum með starfsemi nefndanna er að draga úr hættu á fjármálamisferli og efla traust fjárfesta á fjárhagsupplýsingum fyrirtækja og þar með fjármálamörkuðum. Í erindinu eru annars vegar birtar niðurstöður rannsóknar á samsetningu endurskoðunarnefnda við einingar tengdar almannahagsmunum á Íslandi og hins vegar eru tiltekin ákvæði laga um endurskoðunarnefndir skýrð með hliðsjón af ESB-rétti. Óvissa hefur verið um túlkun ákvæða um óhæði nefndarmanna í endurskoðunarnefnd en í erindinu er sýnt að mat á óhæði þeirra er sambærilegt hefðbundnu mati á óhæði stjórnarmanna. Sér í lagi geta stjórnarmenn talist óháðir einingunni og því skipað meirihluta endurskoðunarnefndar. Á Íslandi er algengt að stjórn skipi einn eða fleiri nefndarmenn utan stjórnar í endurskoðunarnefnd og eru nefndarmenn utan stjórnar í 63 af 70 endurskoðunarnefndum. Ekki er gert ráð fyrir þessu fyrirkomulagi í ESB-rétti eða lögum annarra Norðurlanda. Færð eru rök fyrir því að hin íslenska framkvæmd veiki bæði sjálfstæði og umboð nefndarmanna. Æskilegt er að endurskoðunarnefnd sé eingöngu skipuð stjórnarmönnum en rétt er þó að innleiða í lög heimild til að hluthafafundur tilnefni nefndarmenn, eins og ESB-réttur gerir ráð fyrir. Ekki er starfandi endurskoðunarnefnd í 32 einingum tengdum almannahagsmunum. Lögfesta ætti undanþáguheimildir frá starfrækslu endurskoðunarnefndar í dótturfélögum, verðbréfasjóðum og sveitarfélögum.
Hersir Sigurgeirsson og Eyvindur G. Gunnarsson
Lykilorð: endurskoðunarnefnd, stjórnarhættir, óhæði