Reikningsskil og endurskoðun
Málstofustjóri: Einar Guðbjartsson
Efnið sem tilheyrir þessari málstofu tengist reikningshald (einnig kostnaðarbókhaldi) og endurskoðun (t.d. endurskoðunarnefndir). Veit um fjóra fyrirlestra er tengjast þessu sviði. Læt ykkur vita síðar um heiti þeirra og höfunda.
Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.
Gervigreind og endurskoðun smárra og meðalstórra fyrirtækja
Vísbendingar eru um að endurskoðunarfyrirtæki fjárfesti í gervigreind í vaxandi mæli. Þróun gervigreindar í endurskoðunarfyrirtækjum tekur almennt mið af stórum skipulagsheildum, gagnasöfnum og mjög sérhæfðum hugbúnaði. Í þessari rannsókn eru endurskoðendur, sem aðallega endurskoða lítil og meðalstór fyrirtæki, spurðir um væntingar þeirra til áhrifa gervigreindar á vinnu við endurskoðun og hvaða hugbúnaður eða aðferðir í gervigreind myndi veita þeim mest virði miðað við verkefnin sem þeir sinna. Niðurstaðan er að endurskoðendur búast við að gervigreind verði hluti af þeim aðferðum sem þeir verða að beita í framtíðinni og jákvæð áhrif af notkun tækninnar verði veruleg á frammistöðu endurskoðenda. Jafnframt telja þeir að þekking til að nota aðferðir í gervigreind verði þeim ekki áskorun. Endurskoðendur sjá þegar fyrir sér að gervigreind verði beitt í auknum mæli við tiltekin verkefni. Þar má nefna gerð áhættumats einstakra færslna í bókhaldi, framkvæmd viðtala vegna endurskoðunar, gerð frammistöðumats, skrif staðfestingarbréfa, lokastaðfesting ársreikninga og staðfesting á efnislegum eignum skipulagsheilda. Þessar niðurstöður leiða til þess að skoða þarf hvort og hvernig lítil og meðalstór endurskoðunarfyrirtæki geti þróað gervigreindarlausnir, hvaða áhrif gervigreind mun hafa á samkeppni á endurskoðunarmarkaðinum og síðast en ekki síst hvaða áhrif þróun og notkun gervigreindar mun hafa á menntun endurskoðenda.
Lykilorð: endurskoðun, gervigreind, sjálfvirknivæðing
Gagnsæi og traust í reikningsskilum og endurskoðun
Endurskoðunarnefndir eru hluti af góðum stjórnarháttum og tilgangur þeirra er m.a. að auka traust á fjárhagsupplýsingum sem og að auka gagnsæi þeirra. Markmiðið er að greina álit nefndarmanna í endurskoðunarnefndum og ytri endurskoðenda til hugtakanna gagnsæi (e. transparency) og traust (e. trust) með tilliti til fjárhagsupplýsinga. Þessi tvö hugtök hafa orðið þungamiðja í gerð og framsetningu reikningsskila sem og annarra fjárhags- og ófjárhagslegra upplýsinga. Endurskoðunarnefndir hafa haft það megin verkefni að auka gagnsæi og traust almennings á reikningsskilum. Þetta markmið var þungamiðja BRC skýrslunnar sem birt var í BNA um aldamótin 2000. Hið víðtæka fjármálahrun 2008 hefur leitt hugtökin gagnsæi og traust inn á nýjar brautir.
Rannsóknin byggir á tveimur könnunum, annars vegar frá árinu 2016 þar sem nefndarmenn endurskoðunarnefnda voru þátttakendur og hins vegar árinu 2018 þar sem ytri endurskoðendur voru þátttakendur. Gerður er samanburður á áliti nefndarmanna annars vegar og ytri endurskoðenda hins vegar á hugtökunum tveimur, gagnsæi og traust á fjárhagsupplýsingum. Greint verður frá hlutaniðurstöðum ofangreindra tveggja kannana er tengjast hugtökunum gagnsæi og traust með tilliti til fjárhagsupplýsinga. Hafa þessir faghópar sömu ásýnd á hugtökin og skiptir kyn og aldur einhverju máli þar? Þar sem þessir faghópar eru ráðandi hvernig fjárhagsupplýsingar mótast, er mikilvægt að fá vitneskju um afstöðu og sýn þeirra á þessum mikilvægu hugtökum innan reikningsskila og endurskoðunar.
Eyþór Ívar Jónsson, Einar Guðbjartsson og Jón Snorri Snorrason
Lykilorð: reikningsskil, gagnsæi, endurskoðun
Uppgjörsaðferðir fyrirtækja á hlutabréfamarkaði
Uppgjörsaðferðir fyrirtækja við gerð og framsetningu reikningsskila hafa breyst mjög mikið frá byrjun íslenska hlutabréfamarkaðarins. Fyrstu árin var ein aðferð sameiginleg þeim öllum, kostnaðarverðsreikningsskil. Íslensk króna var notuð sem uppgjörgjaldmiðill. Uppgjörsgjaldmiðillinn var einnig starfrækslugjaldmiðill viðkomandi fyrirtækis. Í dag geta íslensk fyrirtæki sem m.a. eru skráð á íslenska hlutabréfamarkaðinn verið með mismunandi gjaldmiðla í reikningsskilum sínum. Kostnaðarverðsreikningsskil hefur verðið við lýði í meira en 100 ár. Eignir og skuldir metnar á kostnaðarverði. Á síðari tímum hefur gangvirði aukist mjög við gerð og framsetningu reikningsskila t.d. fjármálagerningar, viðskiptavild og aðrar óefnislegar eignir. Forsendur reikningsskila eru mun flóknari með tilkomu gangvirðismats. Gangvirðismat er mest notað þegar eignir og skuldir flokkast sem fjármálagerningar hvers konar og eignir sem fjárfestingareignir. Markmið erindisins er að skoða mismunandi forsendur reikningsskilaaðferða, annars vegar m.t.t. kostnaðarverðs og gangvirðis og hins vegar m.t.t. gjaldmiðils. Því til viðbótar er gerður samanburður og greining á völdum kennitölum fyrirtækja sem nota annars vegar kostnaðarverðsreikningsskil og hins vegar gangvirðisreikningsskil. Þegar forsendur kennitalna er ekki sá sami, hvað verður þá um samanburðargildi þeirra?
Einar Guðbjartsson og Jóhannes B. Pétursson
Lykilorð: kostnaðarverðsreikningsskil, gangvirðisreikningsskil, kennitölur