Námsrými fyrir fjölbreytta nemendur og nemendahópa í kennaramenntun
Málstofustjóri: Hafdís Guðjónsdóttir
Um allan heim vinna kennarar í auknum mæli með fjölbreyttum nemendahópum og í síbreytilegu samfélagi. Það kallar á að þeir fái tækifæri í menntun sinni, grunnmenntun, framhaldsmenntun og endurmenntun til að efla sig og nemendur sína til að takast á við krefjandi nútíð og óvissa framtíð. Kennarar á öllum skólastigum þurfa tækifæri til að vinna með kenningar um menntun fyrir alla til að átta sig á hvernig þeir geta brugðist við fjölbreyttum þörfum nemenda, ígrundað stefnumörkun stjórnvalda, kynnt sér margs konar starfshætti og fundið lausnir á aðkallandi áskorunum.
Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.
Kennaramenntun í fjölmenningarsamfélagi
Aukning innflytjenda á Íslandi undanfarin ár hefur leitt til fjölgunar nemenda með ólíkan bakgrunn. Tilgangur rannsóknarinnar er að kanna hvernig kennaranemar á Menntavísindasviði eru búnir undir kennslu nemenda af erlendum uppruna og með annað móðurmál en íslensku. Rannsóknarspurning: Hvernig undirbúa kennaramenntendur við Menntavísindasvið kennaranema undir kennslu í fjölmenningarlegum námshópum?
Markmið rannsóknarinnar er að bera kennsl á leiðir til að þróa og innleiða fjölbreytt, skapandi vinnubrögð í kennaramenntun þar sem áhersla er lögð á fjöltyngi og nemendamiðaða nálgun sem byggir á auðlindum nemenda.
Rannsóknin byggir á rýnihópaviðtölum við kennslu- og menntunarfræðikennara. Rætt var um áherslur, kennsluaðferðir og fræðilegan bakgrunn kennslufræðinámskeiða við sviðið. Niðurstöður voru greindar með þemagreiningu og var horft til þess hvernig fjölmenningarleg menntun birtist í námskeiðunum.
Niðurstöður gefa til kynna að hugmyndir kennara um kennslu nemenda með ólíkan menningarlegan bakgrunn voru ólíkar og einnig þekking þeirra á kennsluháttum sem styðja við nám allra nemenda. Sumir höfðu lítinn gaum gefið að því hvernig kennaranemar geta lært að kenna fjölbreyttum nemendahópi en margir hafa leitað leiða til þess. Víða er beitt skapandi vinnubrögðum og upplýsingatækni notuð til að kennaranemar geti notað ólíka nálgun í eigin námi og öðlist einnig hæfni til að nýta fjölbreytt vinnubrögð í vettvangsnámi og eigin kennslu.
Jónína Vala Kristinsdóttir, Gunnhildur Óskarsdóttir, Hafdís Guðjónsdóttir og Samúel Lefever
Lykilorð: kennaramenntun, fjölmenning, fjölbreyttir kennsluhættir
Undirbúningur kennaranema fyrir að kenna nemendum með fjölbreyttan tungumálabakgrunn
Vaxandi fjöldi barna með fjölbreyttan tungumálabakgrunn í íslenskum skólum hefur kallað á meðvitund um einstaka stöðu þeirra í námi og hvað það þýðir fyrir menntun kennara. Í erindinu er fjallað um rannsókn á skipulagi kennaranáms í Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri. Tilgangur rannsóknarinnar var að öðlast skilning á því hvernig kennaramenntunin við háskólana undirbýr og styður kennaranema til að vinna með nemendum með fjölbreyttan tungumálabakgrunn. Markmiðið var að velta upp þeim áherslum sem lagðar eru í kennsluskrá. Rannsóknarspurningin er: Hvernig eru kennaranemar undirbúnir í sínu námi til að kenna fjöltyngdum nemendum og í hverju liggja tækifæri og áskoranir?
Hér er um að ræða eigindlega rannsókn sem byggir á skjalagreiningu og rýnihópaviðtölum. Gagnaöflun fór fram með því að rýna í a) fyrirliggjandi stefnuskjöl (lög, aðalnámskrá, skýrslur, leiðbeiningar fyrir kennara og b) með rýnihópum með nýútskrifuðum nemendum þar sem þeir voru spurðir hvort og hvernig þeim finnst þeir vera undirbúnir til að kenna fjöltyngdum nemendum. Niðurstöður gefa til kynna að það er munur á milli háskólanna á áherslum er varðar undirbúning kennaranema og kennaranemarnir sjálfir segja að þeir séu hugmyndafræðilega vel undirbúnir en að þá skorti hugmyndir um útfærslu hugmyndanna í framkvæmd.
Edda Óskarsdóttir og Hermína Gunnþórsdóttir
Lykilorð: fjöltyngdir nemendur, kennaramenntun, stefnumörkun
Að skapa námsrými fyrir kennara til að þróa faglega sjálfsmynd sína í skóla fyrir alla
Um allan heim vinna kennarar í auknum mæli með fjölbreyttum nemendahópum sem kallar á að þeir hafi tækifæri til að takast á við kenningar um menntun fyrir alla og ígrunda stefnumörkun og starfshætti. Í erindinu er fjallað um rannsókn á námskeiði á framhaldsstigi sem kennt er á Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Námskeiðið snýst um tvö meginþemu: Kennslufræði fyrir margbreytilega nemendahópa og fagmennsku kennara sem unnið er með í gegnum hugmyndafræði nýsköpunar. Tilgangur rannsóknarinnar er að gefa innsýn í hvernig kennaramenntun getur brugðist við og undirbúið kennara til að líta á sjálfa sig sem umboðsmenn breytinga, með þau gildi, þekkingu og viðhorf sem stuðla að árangri hvers nemanda. Markmiðið var að draga fram mikilvæg málefni við undirbúning og áframhaldandi starfsþróun kennara sem starfa í skóla fyrir alla. Rannsóknarspurningin var: Hvers konar námsumhverfi í kennaramenntun hvetur kennaranema til að taka afstöðu og ábyrgð gagnvart menntun fyrir alla? Rannsóknin byggir á starfstengdri sjálfsrýni og niðurstöður gefa til kynna að skipulag námskeiðsins og áherslan á fagmennsku og kennslufræði nýsköpunar hefur haft áhrif á viðhorf kennaranema og lausnamiðaða nálgun þeirra við að skapa námsrými fyrir fjölbreyttan nemendahóp.
Anna Katarzyna Wozniczka, Edda Óskarsdóttir og Hafdís Guðjónsdóttir
Lykilorð: námsrými, fagleg sjálfsmynd, menntun fyrir alla
Vinna við meistaraprófsverkefni – prófsteinn á fagmennsku kennara
Eftir meistarapróf til kennsluréttinda eiga kennarar að hafa öðlast góða fræðilega sérþekkingu, geta nýtt helstu rannsóknaraðferðir í uppeldis- og menntunarfræðum, tekið þátt í faglegri umræðu og rökstutt skoðanir á málefnum með fræðilegri þekkingu og rannsóknarniðurstöðum. Til ársins 2020 var skylt að ljúka meistaranáminu með umfangsmiklu lokaverkefni. Frá hausti 2020 hefur Menntavísindasvið boðið upp á meistaranám til kennsluréttinda án þess að gera lokaverkefni, svokallað MT nám í samræmi við ný lög um kennaramenntun. Markmið rannsóknarinnar er að skoða áhrif meistaranáms sem lýkur með rannsóknarverkefni á fagmennsku og starfshætti kennara. Rannsóknarspurningin er: Hvaða áhrif hefur vinna við meistaraprófsverkefni á starfshætti og faglega sjálfsmynd útskrifaðra meistaranema?
Við erum fimm leiðbeinendur sem höfum skapað námssamfélag meistaranema. Á árunum 2012–2021 tóku samtals 107 meistaranemar þátt í hópleiðsögn okkar og luku meistaraprófi. Við sendum spurningarkönnun til þessara nemenda og tókum rýnihópaviðtöl. Fyrstu niðurstöður benda til að flestir þátttakenda upplifa valdeflingu við vinnu meistaraprófsverkefnis og telja sig eiga auðveldara með að taka afstöðu, útskýra vinnubrögð sín og fylgja þeim eftir. Nokkrir sögðust frekar hafa valið MT leiðina ef hún hefði verið í boði en telja þó að þeir hafi haft meira gagn af því að vinna rannsóknartengt lokaverkefni en að taka fleiri námskeið.
Karen Rut Gísladóttir og Anna Katarzyna Wozniczka
Lykilorð: kennaramenntun, meistaraprófsverkefni, fagmennska
Starfstengd sjálfsrýni tveggja háskólakennara við mótun námssamfélags doktorsnema og leiðbeinenda
Doktorsnám spilar stórt hlutverk við undirbúning að akademísku starfi. Í því ferli eru ákveðin atriði sem skipta sköpum fyrir framgang námsins, eins og þátttaka í námssamfélagi, tengsl við leiðbeinendur og aðstæður doktorsnema til að stunda námið. Tilgangur rannsóknarinnar er að kortleggja áhrifaþætti í námssamfélagi doktorsnema og leiðbeinenda og greina þá sem styðja við námsframvindu þeirra. Við höfum góða reynslu af sameiginlegri hópleiðsögn meistaranema og við vildum skapa slíkt námssamfélag fyrir doktorsnema okkar. Markmið rannsóknarinnar er að skoða hvernig námssamfélagi doktorsnemar kalla eftir og hvernig okkur tekst að koma til móts við þær óskir. Rannsóknin byggir á aðferðafræði starfstengdrar sjálfsrýni þar sem gögnin tengjast starfi okkar í námssamfélaginu eins og undirbúningsfundum, fundadagskrám, MÚSarmiðum, og upptökum funda. Námssamfélagið byrjaði í upphafi árs 2021 og höfum við leiðbeinendurnir og fimm doktorsnemar hist einu sinni í mánuði á ZOOM. Við höfum greint ákveðnar áskoranir í sameiginlegu hópleiðsögninni og mótun námssamfélagsins. Við sjáum merki um að doktorsnemarnir eru hikandi við að hagnýta sér námsrýmið sem fundirnir bjóða uppá. Einn neminn nýtti það til að æfa fyrir áfangamat og fannst það dýrmæt reynsla. Fram hafa komið óskir um að fá tækifæri til að vinna í skrifum á fundunum og deila með hinum doktorsnemunum.
Hafdís Guðjónsdóttir og Svanborg Rannveig Jónsdóttir
Lykilorð: námssamfélag, námsrými, starfstengd sjálfsrýni