Mannauðsmál og stjórnun

 


Forvarnir kulnunar í starfi. Hvaða áhrifaþættir á vinnustað skipta mestu máli?

Höfundar: Sigrún Gunnarsdóttir

Ágrip:

Vanlíðan í starfi er vaxandi vandi á vinnustöðum. Breytingar og álag sem fylgdu heimsfaraldri Covid-19 hafa aukið á þreytu og vanlíðan starfsfólks og stjórnenda. Hér á landi birtist þessi vandi til dæmis með veikindafjarvistum og skorti á starfsfólki t.d. innan velferðarþjónustu og menntakerfis og kulnun í starfi hefur aukist t.d. meðal heilbrigðisstarfsfólks og kennara. Tilgangur rannsóknarinnar er að varpa ljósi á stöðu þekkingar um áhrifaþætti á vinnustað sem tengjast kulnun í starfi og varpa ljósi á árangursríkar forvarnir. Gert var yfirlit yfir stöðu þekkingar á sviðinu með áherslu á rannsóknir síðastliðin 15 ár. Niðurstöður sýna að helstu áhrifaþættir kulnunar í starfi snúa að langvarandi álagi og vandamálum í starfi, takmörkuðum áhrifum á eigin störf og takmörkuðum félagslegum stuðningi starfsfólks og stjórnenda. Gagnkvæmur félagslegur stuðningur á vinnustað getur dregið úr líkum á kulnun í starfi og þegar starfsmaður leggur sig fram við að móta eigið starf getur það einnig minnkað áhrif álags á kulnun í starfi, jafnvel þegar álag er mjög mikið. Þá getur sveigjanleiki í starfi, t.d. í sambandi við tímasetningu og staðsetningu verkefna, dregið úr áhrifum álags á kulnunareinkenni. Heildræn nálgun sem beinist að viðurkenndum áhrifaþáttum á vinnstað er mikilvæg til að tryggja árangursríkar forvarnir kulnunar í starfi og brýnt að viðbrögð og meðferð við kulnun í starfi snúi markvisst að þessum áhrifaþáttum. Mikilvægt er að stjórnendur og leiðtogar séu meðvitaðir um og beini sjónum að viðurkenndum áhrifaþáttum kulnunar í starfi og efli jafnframt virka þátttöku og samvinnu starfsfólks og annarra hlutaðeigandi til forvarna gegn kulnun í starfi.

Efnisorð: kulnun í starfi, leiðtogar, forvarnir, heildræn nálgun


Líðan mannauðsfólks á Íslandi

Höfundar: Edda Björg Sigmarsdóttir, Svala Guðmundsdóttir, et.al.

Ágrip:

Vinnutengd streita er þekkt áhyggjuefni um heim allan og hafa rannsóknir til að mynda sýnt fram á að streituvaldandi starf getur leitt til einkenna kulnunar og getur slíkt aukið hættu á sjúkdómum og tengdum veikindum. Auk þess hefur streita verið talin ein helsta orsök vinnutengdra vandamála og getur hún birst í formi andlegra sem og líkamlegra afleiðinga. Með þessari rannsókn var leitast við að skoða starf þeirra einstaklinga sem starfa við mannauðsmál hér á landi út frá því álagi og streitu sem ætlað er að starfinu geti fylgt. Rannsóknin var framkvæmd með blandaðri rannsóknaraðferð, eigindlegri og megindlegri. Fyrst voru tekin hálfstöðluð viðtöl við átta einstaklinga sem starfa í mannauðsmálum, fjórar konur og fjóra karla. Í framhaldinu var rafræn könnun lögð fyrir félagsaðila Mannauðs, félags mannauðsfólks á Íslandi. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að viðmælendur telja að starfið sé gríðarlega krefjandi á köflum og því fylgi mikið álag, með tilheyrandi streitueinkennum. Flestir viðmælenda hafa upplifað andleg og/eða líkamleg einkenni sem tengja má við streitu í starfi.

Efnisorð: Mannauðsstjórnun, streita, kulnun


Reynsla starfsmanna Íslandspósts af innanhússmarkþjálfun og líðan þeirra í starfi

Höfundar: Helga Kolbrún Magnúsdóttir, Sigrún Gunnarsdótti

Ágrip:

Vísbendingar eru um að líðan starfsmanna víða á vinnumarkaði sé ekki góð bæði hér á landi og erlendis. Þekking hefur aukist um árangursríkar leiðir til að styðja við vellíðan starfsmanna og rannsóknir benda til þess að markþjálfun geti haft jákvæð áhrif. Íslandspóstur er meðal fyrirtækja sem hefur leitað leiða til að efla góða vinnustaðamenningu og vellíðan starfsmanna meðal annars með aðferðum markþjálfunar. Markmið þessarar rannsóknar er að skoða mat starfsmanna á innleiðingu breyttrar vinnustaðamenningar, hvernig upplifun starfsmanna var af innanhússmarkþjálfun og skoða mat þeirra á starfsumhverfinu og líðan í starfi. Framkvæmd var tilviksrannsókn með blandaðri aðferð, tekin hálf opin viðtöl við tólf starfsmenn og lagðar fram spurningakannanir tvisvar fyrir starfsmenn sem fengu markþjálfun. Helstu niðurstöður frá viðtölunum sýna að innleiðing á breyttri vinnustaðamenningu gekk vel og jákvæð leiðtogamenning að myndast. Upplifun af markþjálfun var góð og fannst viðmælendum þeir fá fleiri verkfæri til að njóta sín í starfi og heima fyrir. Niðurstöður á mati starfsmanna í könnunum voru jákvæðar í sambandi við forystu, sálfélagslega þætti og líðan í starfi en ekki marktækur munur á milli kannana fyrir og eftir markþjálfun. Af niðurstöðunum má álykta að reynsla starfsmanna Íslandspósts af innanhússmarkþjálfun og innleiðingu nýrrar vinnustaðamenningar hafi verið góð sem og að starfsumhverfið sé gott með hliðsjón af forystu, sálfélagslegum þáttum starfsins og líðan í starfi. Niðurstöður benda til að innanhússmarkþjálfun geti verið góð leið til að bæta vellíðan starfsmanna og aukið leiðtogafærni og árangursrík leið til að styðja við breytingar á vinnustaðamenningu.

Efnisorð: Líðan í starfi, Innanhússmarkþjálfun, Vinnustaðamenning


Einkenni árangursríkra staðfunda, fjarfunda og blandaðra funda

Höfundar: Dagbjört Una Helgadóttir, Arney Einarsdóttir

Ágrip:

Markmið rannsóknar var að auka þekkingu og skilning á því hvað einkennir árangursríka fundi eftir fundarformi, þ.e.a.s. staðfundi, fjarfundi eða blandaða fundi. Skoðað var í fyrsta lagi einkenni ólíkra fundarforma, í öðru lagi hvað einkennir árangursríka fundi og í þriðja lagi tengsl milli árangurs funda við starfsánægju, fundarþreytu og áform um starfslok. Netkönnun var lögð fyrir í febrúar 2022. Tekið var hentugleikaúrtak meðal háskólanema á meistarastigi og snjóboltaúrtak á Facebook. Niðurstöður byggja á svörum 289 þátttakenda. Einkenni funda voru flokkuð í fjóra yfirþætti: fundaraðstæður, skipulag, undirbúning og framkvæmd funda. Tengsl voru á milli þess hve vel er staðið að undirbúningi funda, fundaraðstæðna, framkvæmdar og skipulags funda og upplifunar á árangri, en þó mismikil eftir fundarformum. Framkvæmd funda hafði sterkust tengsl við árangur, og á það við um öll fundarform. Blandaðir fundir voru metnir síður árangursríkir en staðfundir og fjarfundir. Niðurstöður benda jafnframt til þess að fjarfundir séu skilvirkara fundarform en staðfundir en að staðfundir henti hins vegar betur þegar þörf er á tengslamyndun. Miðlunarlíkan sýndi fram á fullt miðlunarsamband milli mats þátttakenda á fundum á árangri funda og áforma um starfslok gegnum fundaþreytu og starfsánægju. Niðurstöður gefa auk þess vísbendingu um að velja þurfi fundarform með tilliti til tilgangs viðkomandi fundar. Til dæmis að leggja þurfi áherslu á staðfundi fyrir fundi þegar þörf er á tengslamyndun en fjarfundi ef þörf er á skjótri og skilvirkri úrlausn eða einhvers konar ákvörðunartöku. Huga þarf þó vel að og styrkja framkvæmd blandaðra funda, þegar og ef það fundarform er valið.

Efnisorð: Fjarfundir, staðfundir, blandaðir fundir


Áhrif þjálfunar, þróunar, frammistöðumats og starfsmannasamtala á viðhorf, upplifun og hegðun starfsfólks

Höfundar: Heiður Ósk Pétursdóttir, Arney Einarsdóttir

Ágrip:

Markmið þessarar rannsóknar er að varpa ljósi á hvort fjárfesting í þjálfun og notkun formlegs frammistöðumats og starfsmannasamtala í skipulagsheildum hér á landi hafi áhrif á viðhorf, upplifun og hegðun starfsfólks. Notað er samsett gagnasafn með gögnum úr alþjóðlegu Cranet rannsókninni hér á landi. Þeirra gagna var aflað rafrænt á tveimur stigum, annars vegar á meðal forsvarsmanna mannauðsmála hér á landi á fyrirtækjastigi haustið 2018, og hins vegar á starfsmannastigi meðal starfsfólks í sömu fyrirtækjum um ári síðar haustið 2019. Þátttakendur á fyrirtækjastigi voru 32 talsins og á starfsmannastigi tóku 1902 starfsmenn þátt. Að meðaltali svöruðu 28 starfsmenn í hverju þátttökufyrirtæki. Niðurstöður sýna að fjárfesting í þjálfun, tilvist formlegs frammistöðumats og formlegra starfsmanna-samtala hafa ekki marktæk tengsl við starfsánægju eða mat starfsfólks á eigin þegnhegðun (e. organizational citizenship). Niðurstöður sýna á hinn bóginn að fjárfesting í þjálfun á fyrirtækjastigi hefur áhrif á hvoru tveggja upplifun starfsfólks á sanngirni og á mat starfsfólks á þegnhegðun síns samstarfsfólks, þó áhrifin séu veik. Niðurstöður sýna auk þess að tilvist formlegra starfsmannasamtala hefur líka áhrif á upplifun starfsfólks á sanngirni og á mat á þegnhegðun samstarfsfólks, þó áhrifin séu einnig veik þar. Þessar lykilniðurstöður, varðandi hvoru tveggja áhrif fjárfestingar í þjálfun og tilvist starfsmannasamtala á sanngirni og þegnhegðun samstarfsfólks, eru staðfestar þegar stýrt er fyrir kyni, aldri, menntun og lengd vinnuviku í þrepaskiptri fjölbreytuaðhvarfsgreiningu. Draga má þá ályktun að fjárfesting fyrirtækja og stofnana í hvoru tveggja þjálfun og innleiðingu starfsmannasamtala hafi tilætluð áhrif á upplifun og hegðun lykilhagsmunaaðila á sviði mannauðsmála, þ.e.a.s. starfsfólk.

Efnisorð: Fjárfesting í þjálfun, Frammistöðumat, Starfsmannasamtöl


Áherslur vettvangsstjóra í stjórnun aðgerða á vettvangi og hugmyndafræði þjónandi forystu

Höfundar: Ástvaldur Helgi Gylfason, Sigrún Gunnarsdóttir

Ágrip:

Mikilvægi sérhæfðra viðbragðsaðila hér á landi kemur æ skýrar fram þegar áföll dynja yfir svo sem við náttúruhamfarir, slys eða eldsvoða. Fyrri rannsóknir sýna að áherslur í samskiptum, stjórnun og forystu á vettvangi hafa mikil áhrif á hvernig til tekst með björgunaraðgerðir, samhæfing ólíkra viðbragðsaðila skiptir máli og að leiðtogar björgunaraðgerða þurfi að forðast miðstýringu. Rannsóknir hafa sýnt að þjónandi forysta sé árangursrík leið í stjórnun en fáar rannsóknir liggja fyrir um stjórnun aðgerða í því ljósi og fáar rannsóknir hafa verið gerðar um reynslu breiðs hóps viðbragðsaðila af stjórnun mismunandi aðgerða og mikilvægt að kanna hver reynsla vettvangsstjóra er af slíkri stjórnun. Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á áherslur reynslumikilla vettvangsstjórnenda við stjórnun á vettvangi aðgerða og leita svara við eftirfarandi rannsóknarspurningum. Hver er reynsla vettvangsstjóra og áherslur þeirra í stjórnun á vettvangi í aðgerðum? Endurspegla þær áherslur hugmyndafræði þjónandi forystu? Gerð var eigindleg rannsókn með viðtölum við ellefu vettvangsstjórnendur, notuð var þemagreining og sett fram þrjú yfirþemu og níu undirþemu. Niðurstöður benda til þess að vettvangsstjórnendur leggi áherslu á samvinnu ólíkra viðbragðsaðila sem þeir ná fram einkum með valdeflingu, hlustun og yfirsýn. Niðurstöður benda einnig til þess að áherslur vettvangsstjóranna séu í takt við lykilþætti þjónandi forystu, það er framsýni, hlustun, valdeflingu, jafningjabrag, innri styrk og samvinnu. Niðurstöður rannsóknarinnar geta verið framlag til þekkingar um árangursríkar áherslur í stjórnun björgunaraðgerða og geta nýst meðal viðbragðsaðila sem og fyrir aðra sem takast á við áföll og haft hagnýtt gildi fyrir forystu og stjórnun almennt.

Efnisorð: viðbragðsaðilar, björgunaraðgerðir, þjónandi forysta

Event Details
Event Details