Málstofa um stjórnsýslukærur

Málstofustjóri: Valgerður Sólnes

Í málstofunni munu sérfræðingar í stjórnsýslurétti fjalla um stjórnsýslukærur; í fyrsta lagi tilgang stjórnsýslukæru, kosti úrræðisins og galla, í öðru lagi yfirlit um kæruheimildir í íslenskri stjórnsýslu, í þriðja lagi endurskoðun á ákvörðun um aðgang að gögnum og í fjórða lagi hvað fjallað er um í úrskurðum úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Yfirlit yfir kæruheimildir í íslenskri stjórnsýslu

Í erindinu verður fjallað um stjórnsýslukæru sem réttarúrræði og það hlutverk sem það þjónar í stjórnsýslukerfinu. Þá verður greint frá helstu niðurstöðum rannsóknar á kæruheimildum í íslenskum lögum. Lýst verður þessari heildstæðu rannsókn á öllum íslenskum lagaákvæðum um stjórnsýslukærur, fjölda kæruheimildanna, flokkun þeirra og samanburði. Nýnæmi rannsóknarinnar felst einkum í þýðingu þess að fyrir liggi glöggar upplýsingar um kæruheimildir í íslenskum lögum. Upplýsingar um umfang kæruheimilda og fjölbreytileika þeirra hafa þýðingu meðal annars fyrir opinbera stefnumótun og lagasetningu. Slíkar upplýsingar hafa einnig ríka þýðingu fyrir þá aðila máls sem telja sig hafa hagsmuni af því að kæra stjórnvaldsákvarðanir. Hið sama gildir við úrlausn mála í réttarframkvæmd þegar til þess kemur að túlka þarf og beita lagareglum um kæruheimildir því þá þarf að vera unnt að bera þær saman. Loks liðka niðurstöður rannsóknarinnar, um kortlagningu kæruheimilda með skipulegum hætti, fyrir frekari rannsóknum á kæruheimildum í íslenskum stjórnsýslurétti.

Trausti Fannar Valsson

Lykilorð: stjórnsýsluréttur, stjórnsýslukæra, kæruheimild

Kerfi um endurskoðun á ákvörðunum um aðgang að gögnum

Í erindinu verður fjallað um þau kerfi sem byggst hafa upp um endurskoðun ákvarðana um aðgang að gögnum á grundvelli upplýsingalaga á Norðurlöndunum, með áherslu á að bera íslenska kerfið saman við kerfi hinna Norðurlandanna. Við setningu upplýsingalaga nr. 50/1996, sem eru forveri gildandi upplýsingalaga, var ákveðið að sá sem fengið hefur synjun á beiðni um aðgang að gögnum á grundvelli laganna gæti kært slíka ákvörðun til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Því skipulagi var haldið við setningu nýrra upplýsingalaga nr. 140/2012. Í þessu felst að til miðlægrar úrskurðarnefndar er hægt að kæra beint ákvarðanir allra þeirra sem falla undir upplýsingalög, enda feli þær í sér synjun á aðgangi að gögnum. Þetta kerfi er sérstakt því úrskurðarnefndin endurskoðar t.d. ákvarðanir ráðuneyta, en almennt verða stjórnvaldsákvarðanir þeirra aðeins bornar undir dómstóla til endurskoðunar. Í erindinu verða þannig dregin fram þau sjónarmið sem búa að baki því að styðjast við annars vegar miðlæga úrskurðarnefnd og hins vegar aðra valkosti við endurskoðun á ákvörðunum um aðgang að gögnum.

Hafsteinn Þór Hauksson

Lykilorð: stjórnsýsluréttur, upplýsingalög, úrskurðarnefnd um upplýsingamál

Hvað er fjallað um í úrskurðum úrskurðarnefndar um upplýsingamál?

Í erindinu verður greint frá niðurstöðum rannsóknar á úrskurðum úrskurðarnefndar um upplýsingamál en nefndin hefur kveðið upp liðlega 1000 úrskurði frá því hún tók til starfa. Lýst verður hvernig úrskurðaframkvæmdin var flokkuð eftir málaflokkum, eftir stjórnvöldum sem í hlut áttu, eftir eðli þeirra upplýsinga sem um var að ræða (þar á meðal eftir því hvort upplýsingarnar vörðuðu einkamálefni einstaklinga), svo og eftir niðurstöðum úrskurðanna þar sem nefndin ýmist staðfesti kærðar ákvarðanir um aðgang að gögnum eða breytti þeim að hluta eða í heild. Varpar rannsóknin ljósi á inntak framkvæmdar upplýsingalaganna og í rannsóknarniðurstöðunum er fólgin þekking sem skapar tækifæri til að rannsaka frekar þá þætti sem einkum hefur reynt á í úrskurðaframkvæmd nefndarinnar, þar sem leitað er atbeina hennar í þágu aðgangs borgaranna að upplýsingum.

Kári Allansson

Event Details
  • Start Date
    29/10, 2021 15:00
  • End Date
    29/10, 2021 16:45
Höfundar erinda
Prófessor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Dósent
Háskóli Íslands / University of Iceland
MA/MS nemi
Háskóli Íslands / University of Iceland
Event Details
  • Start Date
    29/10, 2021 15:00
  • End Date
    29/10, 2021 16:45