Málstofa um heilbrigðisþjónustu og faraldsfræði

Málstofustjóri: Sigrún Ýr Eyjólfsdóttir

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Algengi þunglyndis-og kvíðaraskana í faraldsfræðilegu ljósi: Yfirlit yfir stöðu þekkingar

Í erindinu er fjallað um stöðu þekkingar á algengi almennra geðraskana (e. Common Mental Health problems) út frá faralds­fræðilegum (eða lýðgrunduðum) rannsóknum. Með almennum geðröskunum er sérstaklega átt við þunglyndi og kvíða, þ.e. geðlægðarlotur, kvíðaraskanir s.s. félagsfælni, almenna kvíða­röskun, sértæka fælni, felmturs röskun, áráttu og þráhyggju, áfallastreituröskun og aðlögunarröskun. Með lýðgrunduðum rannsóknum (e. population-based studies) er átt við skimunar rannsóknir sem lagðar eru fyrir þýði eða hópa fólks burtséð frá því hvort fólkið hafi áður fengið klíníska þunglyndis-eða kvíða­greiningu frá lækni eða heilbrigðisstarfsmanni. Erlendar skimunarrannsóknir hafa ítrekað sýnt fram á aukið algengi þunglyndis-og kvíðaeinkenna í flestum löndum heims og áætlar Alþjóðaheilbrigðis-málastofnunin (WHO) að einkennin séu ein megin orsök skertrar starfsgetu og/eða örorku í dag. Þá virðist vandinn vera útbreiddari í viðkvæmum hópumsamfélagsins, sér­staklega meðal efnaminna fólks og einstaklinga með tak­markaða menntun að baki. Á Íslandi er þróunin svipuð en opinberar tölur benda til aukinnar útbreiðslu þunglyndis-og kvíðaraskana ef litið er til örorku, aukinnar notkunar þung­lyndislyfja og aukinna samskipta við heilsugæslu vegna geð­rænna vandamála. Í erindinu verður farið yfir stöðu fræðilegrar þekkingar á viðfangsefninu og hún borin saman við opinbera tölfræði um geðheilbrigði. Markmiðið með samanburðinum er að leggja mat á það hvort–og að hvaða leyti –það sé samhljómur ámilli fræðilegra rannsókna á geðheilbrigði og opinberrar heilbrigðistölfræði.

Svandís Nína Jónsdóttir og Linda Bára Lýðsdóttir

Lykilorð: heilbrigðistölfræði, þunglyndi, kvíðaraskanir

Áhætta brjóstastækkana: Upplýsingar á vefsíðum íslenskra lýtalækna fyrir markvissa ákvarðanatöku

Markmið rannsóknarinnar er að greina hvernig upplýsingar um áhættu eru settar fram á vefsíðum lækna sem framkvæma brjóstastækkanir. Stuðst var við orðræðgreiningu. Aðferðin felur í sér að orðaval og samhengi textans er greint. Leitast er við, á gagnrýnin hátt, að finna stef sem endurspegla félagslegan veruleika. Á tveimur vefsíðum af sex er ekki greint frá nokkurri áhættu. Á hinum vefsíðunum fjórum er áhætta við ólíkar aðferðir brjóstastækkunar sögð fela í sér minni eða meiri áhættu en aðrar aðferðir. Á öllum síðunum er talað um herpingu (þar sem bandvefur líkamans herpist í kringum púðann) sem eina helstu aukaverkunina. Ein vefsíða tilgreindi hlutfall helstu áhættuþátta. Almennt var orðalag upplýsinga ófullnægjandi fyrir markvissa ákvörðunartöku skjólstæðinga. Á vefsíðunum er áhættu lýst með  huglægum samanburði; algengt, meira en, einstaka, nokkur eða örfáar. Slík huglæg lýsing skerðir möguleika skjólstæðinga til að meta áhættu af aðgerðum. Til samanburðar eru aukaverkanir lyfja gefnar upp á stöðluðu formi á fylgiseðli; koma örsjaldan fyrir (geta komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum 10.000 einstaklingum).  Niðurstöðurnar benda til mikilvægi þess að greina hvernig læknar koma upplýsingum um áhættu á framfæri til núverandi og mögulegra skjólstæðinga. Sér í lagi þar sem sú aðferð sem verður fyrir valinu við brjóstastækkun er samstarf læknis og skjólstæðings hans.

Sigrún Ýr Eyjólfsdóttir og Stefán Hrafn Jónsson

Lykilorð: brjóstastækkun, lýtalæknar, upplýsingamiðlun

Þróun frestunar læknisþjónustu í samfélagshópum

Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar til að athuga hvort notkun einstaklinga og hópa á heilbrigðisþjónustu sé í samræmi við þörf þeirra fyrir þjónustuna. Jafnt aðgengi að heil­brigðisþjónustu er mikilvægt markmið félagslegra heil­brigðis­kerfa eins og þess íslenska. Rannsóknin athugar þróun hópa­munar á aðgengi að læknisþjónustu á Íslandi frá 1998 til 2015. Byggt er á þremur heilbrigðiskönnunum á landsvísu sem fóru fram árin 1998, 2006 og 2015. Þátttakendur voru Íslendingar, búsettir á Íslandi, á aldrinum 18-75 ára, sem valdir voru með slembiaðferð úr Þjóðskrá. Heimtur voru 69% árið 1998, en seinni tvö árin um 60%. Meðal annars var spurt um frestun læknis­þjónustu sem þörf var fyrir síðastliðna 6 mánuði. Athugað var hvort þróun hópamunar á tímabnilinu var samsíða (parallel), samleitin (converging), sundurleit (diverging), eða misleit (variable). Munur á frestun læknisþjónustu eftir aldri minnkar yfir könnunarárin, en munur á frestun læknisþjónustu milli kynja og tekjuhópa, og milli langveikra og annara, eykst á síðasta könnunarárinu. Af einstökum hópum og árum reyndist vera mestur munur á frestun milli tekjuhópa árið 2015. Niður­stöðurnar leiða almennt í ljós töluverðan mun á frestun læknis­þjónustu milli þeirra samfélagshópa sem teknir voru til skoðunar. Munurinn helst almennt stöðugur fram til ársins 2006, en eykst fram til 2015. Niðurstöður af þessu tagi eru mikilvægur grunnur undir stjórnvaldsaðgerðir til að bæta aðgengi einstaklinga og hópa að heilbrigðisþjónustunni.

Rúnar Vilhjálmsson

Lykilorð: frestun læknisþjónustu, aðgengi, hópamunur

Event Details
  • Start Date
    30/10, 2020 09:00
  • End Date
    30/10, 2020 10:45
  • Zoom meeting id: 638 4090 9967
Höfundar erinda
Verkefnisstjóri / Project manager
Annað / Other
MA/MS nemi / MA/MSc student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Researcher
Háskólinn í Reykjavík / Reykjavík University
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Event Details
  • Start Date
    30/10, 2020 09:00
  • End Date
    30/10, 2020 10:45
  • Zoom meeting id: 638 4090 9967