Lesið milli lína: Þjóðfræðisöfn gömul og ný

Málstofustjóri: Kristinn Schram
lesid_milli_lina

Í málstofunni verða kynntar nýlegar þjóðfræðirannsóknir á munnlegri geymd m.a. eins og hún birtist í íslenskum þjóðfræðisöfnum bæði gömlum og nýjum. Þessi söfn eru dýrmætar heimildir í rannsóknum samtímans, þar sem þau gefa fræðimönnum nýja og ferska sýn á mannlíf og samfélag fyrri tíma og samtímans. Þau veita tækifæri til að rannsaka áður óþekkta þætti alþýðuhefða, skoða birtingarmyndir jaðarsettra hópa fólks og dýra og nálgast ný viðfangsefni m.a. út frá kynjafræðilegu og pósthúmanísku sjónarhorni. Viðfangsefni safnanna ná frá elstu rímum og sögnum torfbæjarsamfélagsins til hvítabjarnarslóða og samfélagsmiðla samtímans sem marka óljós skil munnlegrar og stafrænnar geymdar.

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan og upptökur af málstofunum í tveimur hlutum.

Fyrri hluti  málstofu

kl. 11:00 til 12:45

Kynjamunur í sögnum íslenska torfbæjarsamfélagsins

Í fyrirlestrinum verður fjallað um sagnamenningu íslenskra kvenna í torfbæjarsamfélaginu. Markmið rannsóknarinnar er að greina helstu sérkenni á sögnum kvennanna og takmarkast hún við sagnasjóði tvö hundruð heimildarkvenna þjóð­fræðasafnarans Hallfreðar Arnar Eiríkssonar (1934-2005) sem fæddar voru á síðustu áratugum 19. aldar. Auk þess var tekinn til skoðunar lítill hópur karla úr sama heimildasafni og sagnasjóðir þeirra greindir. Inntak og form sagna eins það birtist í sagnasjóðum kvenna er borið saman við form og inntak sagna sem karlar segja en aðferðafræði rannsóknarinnar fólst meðal annars í því að efninu voru gefnar merkingar sem flokkuðu sagnagerðir, sögutíma, sögusvið, sögupersónur og efnistök sagna í sagnasjóðum heimildarfólksins. Niðurstöður rannsóknarinnar, sem er hluti af doktorsrannsókn höfundar, eru þær að þótt mikill meirihluti sagna beggja kynja gerist í samtíma sögumanna en ekki fjarlægri fortíð, þá nýttu konurnar sér í mun ríkari mæli þjóðtrúarhefð í sinni sagnasköpun. Þegar litið er til inntaks sagna heimildafólksins þá kemur í ljós að þótt karlpersónur birtist mun oftar í sögnum beggja kynja en kvenpersónur, þá sögðu konurnar hlutfallslega mun fleiri sagnir af konum en karlarnir. Þá má merkja nokkurn mun hvað varðar sagnaefnið sjálft, þar sem ákveðin þemu á borð við drauma og huldufólk, birtust áberandi oftar í sagnasjóðum kvennanna.

Júlíana Þóra Magnúsdóttir 

Lykilorð: sagnamenning, kynjafræði, þjóðfræðisöfn

Konur sem afneita móðurhlutverkinu í íslenskum sögnum

Þjóðsagnir geta sagt okkur margt um þau samfélög sem þær tilheyra, þær endurspegla á vissan hátt þann hugmyndaheim og jarðveg sem þær spretta úr. Þær gengu milli einstaklinga í munnlegri geymd áður en þeim var safnað og þær gefnar út í þjóðsagnasöfnum. Í þeim má fræðast um viðhorf fólks, greina ádeilu á yfirvöld, og í þeim birtast gjörólíkar hugmyndir eins og samkennd með minnimáttar og fordómar, hræðsla og stolt. Um leið hafa þær mótandi áhrif með því að segja til um hvað sé viðeigandi hegðun eða óæskileg. Í erindinu verður fjallað um íslenskar sagnir í útgefnum þjóðsagnasöfnum frá 19. og 20. öld um konur sem afneita móðurhlutverkinu á einhvern hátt, annað hvort með því að kjósa að eignast ekki börn eða bera út börnin sem þær eignast. Notast er við aðferðir sögulegrar orðræðugreiningar auk þess sem gagnrýnum kenningum kynjafræðinnar er beitt á efnið. Hugmyndin um móðureðlið lýsir rótgrónum viðhorfum um hlutverk kvenna, sagnirnar varpa ljósi á viðhorf til þeirra kvenna sem brjóta gegn þessum gildum. Erindið er hluti af doktorsrannsókn höfundar um birtingarmynd kvenna í íslenskum þjóðsögum og fjallað verður um boðskapinn sem sagnirnar miðla um hlutverk og hegðun kvenna út frá þjóðfræðilegu og kynjafræðilegu sjónarhorni.

Dagrún Ósk Jónsdóttir

Lykilorð: þjóðfræði, kynjafræði, móðurhlutverkið

Representations of Gender and Biological Sex in Bear Legends in Iceland and Beyond

Legends can serve to reinforce attitudes, beliefs, categorisations and boundaries within the societies that tell them. Distinctions between attributes, behaviours and spaces associated with men and women respectively are to be found across all genres of Icelandic folk narrative. In hunting tales, however, such boundaries are especially prominent. The key purpose of this research is to examine bear legends as a medium through which conventional human gender roles are explored, whilst also tackling the issue of the bear as a gendered being within human narrative tradition. Additionally, we aim to open a dialogue about gender-aware approaches to fieldwork when collecting narratives belonging to a tradition in which notions of gender have historically had a strong influence. This research seeks to apply methods from the fields of folk narrative and gender studies to bear legends collected in Iceland from 1850 to the present day, preserved both in writing and on tape. Taking into account ethnological research from areas of the world in which bear narratives form a larger part of the narrative tradition, we identified methods employed by narrators which served to perpetuate conceptions of traditional gender roles. Strategies employed to this effect included the subversion of traditional roles for narrative effect, gender-based humour, and the imposition of cultural ideas about sex and gender onto the figure of the bear itself.

Vitalina Ostimchuk, Alice Bower og Kristinn Schram

Lykilorð: þjóðfræði, þjóðsagnafræði, kyngervi

Seinni hluti  málstofu

kl. 13:00 til 14:45

Munnleg hefð í elstu rímum

Heimildir okkar um munnlega hefð og flutning fyrri alda eru allar því marki brenndar að vera skriflegar og hafa flestar hlotið þau örlög að vera lesnar og túlkaðar sem textar og bókmenntir. Á löngum tíma er eðlilegt að efni sem varðveitist munnlega skolist til og taki breytingum og við skrásetningu munnmennta er algengt að sköpulag efnisins breytist – áherslur og flúr munnlegs flutnings víkur og efnið verður meitlaðra. Rímur eru þess eðlis að örðugt er að breyta þeim nema að yrkja þær upp á nýtt og því má leiða líkum að því að rímur þær sem skráðar voru á skinn á 14.–16. öld séu að töluverðum hluta eins og tíðkaðist að flytja þær. Rannsókn mín miðaði að því að kanna hvort finna mætti í elstu rímum vísbendingar um flutning þeirra. Fjörtíu rímnaflokkar ortir fyrir 1600 voru lesnir ítarlega og orðfæri þeirra um skáldskap og flutning tekið saman. Niðurstöður benda eindregið til þess að rímur hafi alla tíð verið efni ort til flutnings frammi fyrir áheyrendum, en einnig komu í ljós einkenni á rímunum sem benda sterklega til þess að rímur hafi verið munnlegur kveðskapur á elsta stigi þróunar sinnar og að munnleg einkenni hafi orðið að föstum þáttum í vinnubrögðum rímnaskálda um aldir.

Pétur Húni Björnsson

Lykilorð: rímur, munnleg hefð, performance

Miðausturlenskar sögur sagðar á Íslandi

Þegar Jón Árnason hóf að safna þjóðsögum úr munnlegri geymd á 19. öld fór hann þá leið að skrifa mönnum víðs vegar um landið og biðja þá um að safna sögum. Margir brugðust við kallinu og héldu jafnvel áfram að senda honum sögur eftir að frumútgáfa þjóðsagnasafnsins var komin út í tveimur bindum árið 1864. Næstum 100 árum seinna, þegar farið var að huga að endur- og heildarútgáfu á safni Jóns Árnasonar, fyllti það sex bindi. Í safninu er að finna sagnir og ævintýri og þar á meðal eru nokkrar sögur sem auðsjáanlega eru komnar úr mið­austur­lenskum sagnasöfnum, eins og 1001 nótt og 1001 dagur, en hafa hafnað í munnlegri geymd á Íslandi. Hér verður sagt frá þessum sögum, skoðað hvaðan þær koma upphaflega, hverjir söfnuðu þeim hér á landi og hvað þær geta sagt okkur, bæði um fólkið sem sagði þær og sagnamenningu Íslendinga á 19. öld.  Í ljós kom að þær sögur sem gengu í munnmælum virðast hafa verið mun fjölbreyttari en útgefin þjóðsagnasöfn gefa til kynna. Einnig sést að eins og tilfellið er með aðrar munnmæla­sögur og ævintýri velur sagnafólk sér sögur eftir sínum eigin smekk og lagar þær bæði að eigin viðhorfum og því sem passar fyrir áheyrendur sagnanna.

Rósa Þorsteinsdóttir

Lykilorð: sagnamenning, þjóðsagnasöfn, miðausturlenskar sögur

Grínað á viðsjárverðum tíma: erindi og samtal við safnara

Á dögum kórónuveirunnar er gríni dreift um samfélagsmiðla sem aldrei fyrr. Húmor á viðsjárverðum tímum hefur lengi verið viðfangsefni þjóðfræðinga. Sem dæmi hafa stórslys, hryðjuverk og efnahagshrun öll verið umfjöllunarefni í vægðarlausum „gálgahúmor“. Á stundum eru fyrstu viðbrögðin að grípa til grófrar framandgervingar eða að tjá ólíkar upplifanir okkar með gríni. Þjóðfræðingar greina það stundum sem leið til að verjast eða losa um erfiðar eða bældar tilfinningar. Í erindinu verður fjallað um rannsókn á því hvernig alþýðlegt, og stundum óheflað, grín er notað til að orða og deila erfiðri reynslu og koma böndum á furðulegar aðstæður. Með hliðsjón af húmors­rannsóknum þjóðfræðinnar og skyldra fræða, greinir höfundur söfn þjóðfræðiefnis á samfélagsmiðlum. Niðurstöður sýna meðal annars hvernig slíkur húmor getur endurspeglað ákveðnar sviptingar í samfélaginu um hvað telst ráðlegt eða óráðlegt. Þær sýna ekki síður hvernig svokallað Facelore getur sameinað fólk í sérstakri hversdagslegri reynslu. Þá vakna spurningar um hvort, og þá hvernig, söfnun á vettvangi samfélagsmiðla geti varpað ljósi á heimsmynd samfélaganna að baki þeirra. Í málstofunni verður einnig rætt við fulltrúa þjóðfræðisöfnunar á tímum kórónuveirunar um grín, alvöru og áskoranir við söfnun á samfélagsmiðlum.

Kristinn Schram 

Lykilorð: húmor, þjóðfræðisöfn, viðsjárverðir tímar

Event Details
  • Start Date
    30/10, 2020 11:00
  • End Date
    30/10, 2020 14:45
  • Zoom meeting id: 663 4278 6312
Höfundar erinda
MA/MS nemi / MA/MSc student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Doktorsnemi / PhD student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Sérfræðingur / Specialist
Háskóli Íslands / University of Iceland
Aðjúnkt / Adjunct Lecturer
Dósent / Associate Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Doktorsnemi / PhD student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Doktorsnemi / PhD student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Event Details
  • Start Date
    30/10, 2020 11:00
  • End Date
    30/10, 2020 14:45
  • Zoom meeting id: 663 4278 6312