Leið kvenna til æðstu metorða: Ráðningarferli – hindranir – stuðningur – kynjakvótar
Málstofustjóri: Ásta Dís Óladóttir
Samkvæmt niðurstöðu úttektar Alþjóðaefnahagsráðsins árið 2019 hefur Íslendingum tekist að jafna allt að 87% af því kynjabili sem hér hefur ríkt og Ísland hefur náð hvað lengst á sviði jafnréttis. Þrátt fyrir það er engine kona forstjóri í skráðu félagi á Íslandi. Í málstofunni er fjallað um reynslu og upplifun 22 kvenna sem allar eiga það sameiginlegt að sitja í stjórnum skráðra félaga. Farið verður yfir upplifun þeirra, reynslu og sýn, af ráðningarferlum, hindrunum, stuðningi og kynjakvótum.
Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.
Skortir stjórnir hugrekki til að ráða konu í forstjórastólinn?
Engin kona situr á forstjórastóli í skráðu félagi í Kauphöll Íslands. Erindið greinir frá niðurstöðum rannsóknar á upplifun kvenna sem sæti eiga í stjórnum þessara félaga á því að taka þátt í ráðningarferli forstjóra og á því hvað ræður hver verður fyrir valinu. Erlendar rannsóknir benda til að karlaslagsíðu í forstjórastöðum megi skýra með því að karlar sitji fremur við stjórnvölinn og velji fremur að ráða karla en konur. Enn fremur að óformlegt og ógagnsætt ráðningaferli sé hagstæðara körlum og að tengslanet karla hafi of mikil áhrif í ráðningarferli forstjóra. Fram hefur komið að ráðningarþjónustur telja erfiðara að finna konur sem uppfylla þær kröfur sem fyrirtæki setja um hæfni og reynslu og að þær konur sem komast á lista séu fljótt strikaðar út vegna þess að kröfurnar breytast eða efast sé um vilja þeirra og hæfni til að takast á við forstjórastarfið. Í rannsókninni voru tekin viðtöl við stjórnarkonur allra skráðra félaga, 22 talsins. Viðtölin voru greind samkvæmt fyrirbærafræðilegri aðferð. Upplifun kvennanna af ráðningarferlunum var að margt gerði þau útilokandi fyrir konur; m.a. væri mikið byggt á tengslaneti stjórnarmeðlima og nafnalistum frá ráðningarráðgjöfum, þau væru að jafnaði lokuð og mikil pressa á að þau gangi hratt fyrir sig.
Lykilorð: forstjórastöður, konur, ráðningarferli
„Áhætta að ráða konur“: Upplifun stjórnarkvenna á hindrunum í að ná í æðstu stjórnunarstöður.
Margt hefur áunnist í jafnréttismálum á Íslandi og mælist Ísland mjög hátt í jafnrétttiskönnunum Alþjóðaefnahagsráðsins. Ýmislegt hefur verið gert til að jafna stöðu kynjanna eins og að setja kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja og konum markvisst fjölgað í framkvæmdastjórnum fyrirtækja. Helstu áskoranir sem Ísland stendur frammi fyrir er ójafnvægi kynjanna í æðstu stöður þegar kemur að því að vinna að heimsmarkmiði 5 um jafnrétti kynjanna. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða upplifun og sýn stjórnarkvenna í skráðum félögum á Íslandi á því hvað hindri konur í að ná æðstu stjórnunarstöðum. Tekin voru viðtöl við 22 konur sem sitja í stjórnum allra félaganna og notast var fyrir fyrirbærafræðileg aðferðafræði við vinnslu og greiningu gagna. Rannsóknarspurningin sem lagt var upp með var: Hver er upplifun kvenna í stjórnum félaga á því hvers vegna svo fáar konur hljóta brautargengi í æðstu stöður? Þau byrjunarþemu sem birtust upp úr gögnunum eru; „Ráðningar í forstjórastöður þurfa að ganga hratt fyrir sig“ ;mæla ekki með konum nema að hún viti að hún passi akkúrat í starfið“ ; „…ákveðin áhætta að ráða konu…hitt verður áhættulítið“ ; “…karlar í meirihluta þannig að þá bara einhvern veginn gerist það að kona verður á kantinum.“ Niðurstöður sýna fram á að þrátt fyrir aukna áherslu á jafnrétti kynjanna í íslensku atvinnulífi upplifa konur enn margvíslegar hindranir í að ná í æðstu stjórnunarstöður.
Lykilorð: framkvæmdastjórnir, kynjajafnrétti, hindranir
,,Erum pottþétt ekki að gera nóg” Upplifun stjórnarkvenna á stuðningi við konur til að gegna æðstu stjórnunarstöðum
Verulega hefur hallað á konur í stjórnum félaga hér á landi og þrátt fyrir framfarir undanfarin ár er enn til staðar tregða til að ráða konur í æðstu stjórnunarstöður. Sanngirni, jafnrétti og viðurkenning á hæfni eru taldir sjálfsagðir þættir á vinnumarkaði en samt sem áður hefur aukinn fjöldi menntaðra, reynslumikilla og hæfra kvenna hér á landi ekki endurspeglast í fjölda kvenna í æðstu stjórnunarstöðum. Rannsóknir sýna góðan árangur kvenna í stjórnun fyrirtækja en þrátt fyrir það er rík tilhneiging til að styðja fremur hefðbundin einkenni karla við ráðningar í æðstu stjórnunarstöður. Fram hefur komið að tengslanet karla hafi áhrif á hver studdur er til að sækja um þessi störf og að styðja þurfi konur enn frekar til að sækja um æðstu stjórnunarstöður, sérstaklega í karllægu samkeppnisumhverfi. Tilgangur rannsóknarinnar er að skoða reynslu og upplifun stjórnarkvenna í skráðum félögum á stuðningi við konur til að komast í æðstu stjórnunarstöður og að varpa ljósi á reynslu þeirra af stuðningi karla í þessum efnum. Tekin voru viðtöl við 22 konur sem sitja í stjórnum allra félaganna og notuð fyrirbærafræðileg aðferð við vinnslu og greiningu gagna. Niðurstöður sýna að konur njóta ekki síður stuðnings karla en kvenna þegar kemur að tækifærum til starfsframa og vísbendingar eru um að konur vilji styðja hver aðra enn betur og markvissar þegar kemur að ráðningum í æðstu stöður.
Lykilorð: framkvæmdastjórar, jafnrétti, stuðningur
Hvernig má fjölga konum í æðstu stöðum skráðra félaga á Íslandi að mati stjórnarkvenna?
Samkvæmt niðurstöðu úttektar Alþjóðaefnahagsráðsins árið 2019 hefur Íslendingum tekist að jafna allt að 87% af því kynjabili sem hér hefur ríkt og Ísland hefur náð hvað lengst á sviði jafnréttis. Árið 2010 voru samþykkt lög á Íslandi um að hvort kyn skyldi vera að lágmarki 40% í stjórnum fyrirtækja með fleiri en 50 starfsmenn á ársgrundvelli. Það sama ár, þegar umræðan um kynjakvóta komst í hámæli hér á landi voru margir sem sögðust vera andvígir þeim. Þeir sem voru hvað mest andvígir slíkum kvótum töldu þá ganga gegn lögmálum samkeppni á markaði og þeirri meginreglu að sá hæfasti sé fenginn til starfans. Þrátt fyrir að lög um kynjakvóta gildi fyrir stjórnir stærri félaga á Íslandi gegnir engin kona stöðu forstjóra í skráðu félagi árið 2020 og fáar konur eru í framkvæmdastjórnum, því hafa smitáhrif ekki átt sér stað. Tilgangur rannsóknarinnar er að skoða reynslu og upplifun stjórnarkvenna í skráðum félögum á því hvað kemur í veg fyrir að konur hljóti brautargengi í æðstu stöður fyrirtækja. Tekin voru viðtöl við 22 konur sem sitja í stjórnum allra skráðra félaga á Íslandi. Niðurstöður gefa vísbendingu um að stjórnarkonur telji breytinga þörf til að fjölga konum í æðstu stjórnunarstöðum, m.a. að skoða möguleikann á kynjakvótum á stjórnendastöður og að setja ákvæði um fjölgun kvenna í stjórnunarstöðum í eigendastefnu félaga.
Lykilorð: framkvæmdastjórnir, jafnrétti, kynjakvótar