Hvernig skapar forysta tækifæri til árangurs á vinnustað við krefjandi aðstæður? Forysta, fjölbreytileiki, árangur og ánægja í starfi.

Málstofustjóri: Sigrún Gunnarsdóttir

Á málstofunni verða kynntar nýjar rannsóknir sem snúa að fjölbreytileika og árangursríkri forystu. Fjallað verður um þætti á vinnustöðum sem styðja fjölbreytileika og vellíðan starfsmanna og sérstaklega um áherslur leiðtoga sem efla vellíðan og árangur við krefjandi aðstæður. Þá verður fjallað um reynslu menntaðra innflytjendakvenna af því að vera í stjórnunarstöðu á íslenskum vinnumarkaði, hvernig þær túlka mismunandi áskoranir í starfi í nýju landi og hvernig upplifun þeirra er af hindrunum og hvað hefur gagnast þeim sem náð hafa langt í starfi.

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

„…erlend kona mun alltaf upplifa ójafnrétti…“  Upplifun innflytjendakvenna í stjórnunarstöðum á áskorunum í starfi.

Rannsóknir á innflytjendakonum fer smám saman vaxandi en þá oftar með áherslu á þær sem fórnarlömb, en rannsóknir á reynslu kveninnflytjenda sem náð hafa langt í starfi eru takmarkaðar. Það er því tímabært að skoða upplifun háskólamenntaðra innflytjendakvenna sem hafa unnið sig upp í stjórnunarstöður á íslenskum vinnumarkaði og yfirstigið margbreytilegar hindranir þar sem flestir yfirstjórnendur eru karlar og ljósir á hörund. Það er mikilvægt að raddir þeirra heyrist sem hafa notið velgengni í starfi. Konur í hópi menntaðra innflytjenda mæta margvíslegum áskorunum og  eru berskjaldaðar fyrir neikvæðum staðalímyndum, fordómum og ýmis konar mismunun. Markmið þessarar rannsóknar var að afhjúpa, útskýra og öðlast skilning á hvernig menntaðar innflytjendakonur af ýmsum kynþáttum upplifa að vera í stjórnunarstöðu á íslenskum vinnumarkaði og hvernig þær túlka mismunandi áskoranir í starfi í nýju landi. Tekin voru djúpviðtöl við háskólamenntaðar innflytjendakonur sem hafa unnið sig upp í stjórnunarstöður á Íslandi og yfirstigið margbreytilegar hindranir á vinnumarkaði. Notast var við fyrirbærafræði við öflun og greiningu gagna um reynslu og upplifun þeirra frá sjónarhorni innflytjendakvennanna sjálfra. Niðurstöður gefa til kynna að þrátt fyrir að konurnar séu áhrifamiklar, sterkar, áhugasamar og þrautseigar þá upplifa þær mismunum og skörun (intersectionality) fjölda hindrana vegna kyns, uppruna, þjóðernis, stöðu minnihlutahóps og tungumálaörðugleika.

Erla S. Kristjánsdóttir og Þóra H. Christiansen

Lykilorð: hámenntaðar innflytjenda konur, kynþáttur, hindranir

HÁMENNTAÐAR KONUR AF ERLENDUM UPPRUNA: HVERNIG YFIRSTÍGA ÞÆR HINDRANIR Á ÍSLENSKUM VINNUMARKAÐI?

Rannsóknir á dekkri hliðum fjölbreytileikans sýna að konur af erlendum uppruna þurfa oft að takast á við hindranir á vinnumarkaði vegna uppruna síns, kyns, tungumálaörðugleika, útlendingafordóma og kynþáttafordóma. Þörf er því á rannsóknum á leið þeirra til æðstu metorða á vinnumarkaði. Sjónum var beint að konum af erlendum uppruna sem hafa lokið háskólamenntun og staða þeirra í atvinnulífinu skoðuð út frá skörun eiginleika eins og þjóðernis, kynþáttar og kyns. Markmiðið var að dýpka skilning á upplifun þeirra af hindrunum og hvað hefur gagnast þeim sem náð hafa langt í starfi. Tekin voru djúpviðtöl við tvo hópa innflytjendakvenna sem allar eru háskólamenntaðar í fögum á borð við endurskoðun, lögfræði, menntavísindi og tölvunarfræði. Annar hópurinn var í milli- eða yfirstjórnendastöðum í sínu fagi en hinn hópurinn hafði ekki náð að yfirstíga hindranir og nýta menntun sína að fullu í starfi og voru sumar í störfum fyrir ófaglærða þrátt fyrir háskólamenntun. Niðurstöðurnar sýna að konurnar upplifa að sem konur og útlendingar af öðrum kynþætti en flestir Íslendingar standi þær höllum fæti og upplifðu þær kynþáttafordóma; sérstaklega frá körlum. Reynsla þessara tveggja hópa dregur fram hve yfirmenn spila stórt hlutverk í framgangi þeirra, bæði sem hjálp og sem hindrun. Lykilatriði í að ná árangri reyndist í mörgum tilfellum vera að hafa tækifæri til tengslamyndunar og samstöðu með öðrum konum.

Þóra H. Christiansen og Erla S. Kristjánsdóttir

Lykilorð: fjölbreytileiki, konur, samstaða

Skilningur, stuðningsnet og heilbrigt líferni: Íslenskir kvenstjórnendur og höndlun vinnutengdrar streitu

Rannsóknir hafa sýnt fram á að konur í stjórnunarstöðum þurfa gjarnan að feta grýttari vegslóða en karlkyns kollegar þeirra og leiðin upp metorðastigann er oft hindrunum stráð. Á árinu 2021 eru konur enn í minnihluta stjórnenda og einungis ein kona stýrir fyrirtæki á markaði á Íslandi, þrátt fyrir að Íslandi vermi efsta sæti Global Gender Gap Index tólfta árið í röð. Í þessu erindi verður skyggnst inn í reynsluheim nokkurra íslenskra forystukvenna er lýtur að því hvernig þeim hafi í gegnum tíðina tekist að höndla streitu í tengslum við álag í vinnu og ábyrgð (ekki bara á vinnustað, heldur líka í einkalífi), hvaða þættir í þeirra nærumhverfi hjálpa þeim að takast á við þessar áskoranir og hverjar séu helstu hindranir og ógnanir varðandi velgengni þeirra og framgang. Frumniðurstöður sýna fram á að þættir á borð við tengslanet, stuðning heima fyrir, heilbrigt líferni og að vera ,,vel gift“ hafa skipt sköpum að mati þátttakenda þessarar rannsóknar. Niðurstöður benda jafnframt til þess að karllæg vinnustaðamenning getur haft töluvert hamlandi árhrif á framgang kvenna í stjórnunarstöðum.

Sigrún Lilja Einarsdóttir og Einar Svansson

Lykilorð: konur í stjórnun, streita, kynbundnar hindranir 

Farsæl forysta á hamfaratímum

Langvinnum heimsfaraldri COVID-19 fylgja krefjandi áskoranir fyrir kven- og karlleiðtoga hérlendis sem á heimsvísu. Líf fólks, veruleiki og skipulag samfélaga og stofnana eftir að heimsfaraldrinum lýkur, byggir á ákvörðunum og viðbrögðum leiðtoga meðan á honum stendur. Fyrirliggjandi rannsóknir varðandi farsæl viðbrögð og ákvarðanatöku leiðtoga á hamfaratímum voru teknar saman með kerfisbundinni fræðilegri aðferð samkvæmt sex stiga ferli Jesson o.fl. (2011). Inntöku- og útilokunarskilyrði og PRISMA flæðirit vörðuðu kerfisbundna leit í gagnasöfnunum ProQuest, PubMed, Scopus og Web of Science að rannsóknum um efnið útgefnum á ensku á tímabilinu 2011-2021, sem skilaði 2.241 grein. 153 rannsóknir stóðust nánari greiningu og af þeim stóðst 51 grein inntökuskilyrði, þar af voru 29 eigindlegar, 15 megindlegar og 7 notuðu blandaða aðferð. 22 voru framkvæmdar í heimsfaraldri COVID-19 og 29 við ýmsar aðrar hamfarir. Niðurstöðurnar gefa vísbendingar um að farsæl forysta á hamfaratímum grundvallist á þremur stoðum: 1) sjálfsvitund; 2) tengslum; 3) framkvæmd, sem endurspeglast í fimm samverkandi stjórnunarlegum viðbrögðum: Efla stöðugt eigin þekkingu sem annarra og hafa starfshlutverk allra skýr; Koma á og viðhalda skarpri framtíðarsýn og tilgangi; Hafa yfirsýn; Ákvarðanataka í samræmi við aðstæður hverju sinni; Setja fram viðbúnaðar- og viðbragðsáætlanir. Líkanið Farsæl forysta á hamfaratímum er lagt fram, sem gefur leiðtogum tækifæri til hagnýtingar og undirbúnings þegar staðið er frammi fyrir fordæmalausum aðstæðum.

Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir

Lykilorð: farsæl forysta, hamfarir, kerfisbundin fræðileg samantekt

Forysta sem eflir vellíðan og forvarnir kulnunar í starfi

Þreyta og merki um kulnun í starfi er vaxandi vandi og mikilvægt að leiðtogar þekki leiðir til að efla forvarnir til að draga úr slíkri vanlíðan. Rannsóknir sýna að samskipti og áherslur leiðtoga hafa afgerandi áhrif á vellíðan starfsfólks. Yfirlit yfir stöðu þekkingar á sviðinu varpar ljósi á sannreynda þekkingu um heilbrigt starfsumhverfi og heilsueflandi forystu með samspili sálfélagslegra þátta sem tengjast vellíðan í starfi. Sú þekking byggir á rannsóknum frumkvöðla sem sýndu að sálfélagslegir þættir á vinnustað tengjast starfsánægju, vellíðan og geta virkað sem forvarnir kulnunar í starfi. Sjálfræði í starfi og áhrif á eigin störf geta verndað starfsmann gegn neikvæðum áhrifum álags og sama á við um félagslegan stuðning. Aðgangur að bjargráðum sem fylgja ábyrgðarskyldu geta verndað gegn vanlíðan í starfi sem og skýr sýn á tilgang starfa sem tengist innri starfshvötum sem efla starfsánægju og sama gildir um umbun sem er í takt við framlag. Í erindinu verður kynnt tillaga að líkani sem byggir á sannreyndri þekkingu um heilsueflandi forystu með heildrænni nálgun sem eflir heilbrigt starfsumhverfi og vellíðan þar sem áhersla er á 1) sjálfræði og gagnkvæman stuðning; 2) persónulegan styrk og innri starfshvöt og 3) sameiginlegan tilgang og skýra ábyrgðarskyldu.

Sigrún Gunnarsdóttir

Lykilorð: heilsueflandi forysta, vellíðan í starfi, kulnun í starfi

Event Details
 • Start Date
  29/10, 2021 09:00
 • End Date
  29/10, 2021 10:45
Höfundar erinda
Dósent / Senior Lecturer
Háskólinn á Bifröst / Bifröst University
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Dósent
Háskólinn á Bifröst / Bifröst University
Doktorsnemi / PhD student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Aðjúnkt / Adjunct Lecturer
Háskóli Íslands / University of Iceland
Event Details
 • Start Date
  29/10, 2021 09:00
 • End Date
  29/10, 2021 10:45