Heilbrigði og velferð

 


Lífsánægja og líkamsþyngdarstuðull: virði þess að vera í óskaþyngd og samspil þess við þyngd maka

Höfundar: Kristjana Baldursdóttir, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, Paul McNamee, Edward C. Norton and Þórhildur Ólafsdóttir

 

Ágrip:

Ein af áskorunum heilbrigðiskerfisins, samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, er aukin tíðni offitu. Samband lífsánægju og líkamsþyngdar er flókið en mörgum er annt um eigin líkamsþyngd og gera ýmislegt til að ná þeirri þyngd sem þeim finnst ákjósanlegust.
Markmið þessarar rannsóknar er að meta virði þess að vera með óskaþyngdarstuðul (e. optimal Body Mass Index) sem er sá þyngdarstuðull sem hámarkar lífsánægju einstaklinga. Notuð er svokölluð tekjuuppbótaraðferð (e. compensating income variation method) til að meta til fjár það velferðartap sem einstaklingar verða fyrir í kjölfar þess að vera ekki með sinn óskaþyngdarstuðul. Greiningin byggir á gögnum frá Household, Income and Labour Dynamics in Australia (HILDA) sem safnað var á árunum 2001 til 2020 og innihalda upplýsingar um lífskjör og þjóðfélagslegar aðstæður í Ástralíu. Notuð er aðfallsgreining með slembiáhrifum (e. random effects) til að meta bæði virði þess að vera með óskaþyngdarstuðul og hvernig virðið breytist með þyngdarstuðli maka.
Niðurstöðurnar sýna að metin tekjuuppbót hækkar eftir því sem einstaklingar eru lengra frá metnum óskaþyngdarstuðli og á þetta bæði við um karla og konur. Jafnframt er varpað ljósi á sterkt samspil milli óska um eigin líkamsþyngd og líkamsþyngd maka og gefa niðurstöður til kynna að óskaþyngdarstuðull einstaklings hækkar með hækkandi þyngdarstuðli maka og öfugt. Mikilvægt er að varpa skýrara ljósi á samband lífsánægju og líkamsþyngdar ásamt áhrifaþáttum þess að vera með offitu. Slíkar upplýsingar geta reynst verðmætar við forgangsröðun fjárúthluta innan heilbrigðiskerfisins.

 

Efnisorð: Lífsánægja, Líkamsþyngdarstuðull, Tekjuuppbótaraðferð


Labour market consequences of an early-onset disability: the case of cerebral palsy

Höfundar: Derek Asuman, Ulf-G Gerdtham, Ann Alriksson-Schmidt, Martin Nordin and Johan Jarl

 

Ágrip:

The labour market consequences of early-onset or congenital disabilities have received little attention in the literature. In this paper, we study the consequences and main pathways of cerebral palsy (CP), a lifelong early onset disability, on employment and earnings. We use data from multiple linked Swedish National Population Registers between 1990 and 2015 and apply both regression and causation mediation analysis. Our results show, as expected, a strong negative effect of CP on employment and earnings but also that the social insurance system compensate for some of the earnings losses. In addition, the results indicate that CP affects labour outcomes through several mediators where indicators related to health and work absenteeism account for the largest mediated effects. The results also suggest that the direct effects of CP per se, has prominent impact on labour market outcomes. This may be considered when designing interventions that aim to mitigate the labour market consequences of CP.

 

Efnisorð: Cerebral palsy, Early-onset disabilities, Labour outcomes, Mediation analysis


Lífsánægja og verkaskipting innan heimilisins

Höfundar: Anna Guðrún Ragnarsdóttir, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, Edward C. Norton, Paul McNamee and Þórhildur Ólafsdóttir

 

Ágrip:

Miklar breytingar hafa átt sér stað í verkaskiptingu kynjanna innan heimilisins á undanförnum áratugum. Í stað þess að hlutverk kvenna sé að sinna heimilisstörfum og hlutverk karla sé að afla tekna á vinnumarkaði er að verða síalgengara að bæði konur og karlar sinni báðum hlutverkum. Þessi þróun vekur upp ýmsar vangaveltur og er markmið þessarar rannsóknar að varpa skýrara ljósi á sambandið milli lífsánægju og verkaskiptingar á skyldum heimilisins (e. household responsibilities).

Í þessari rannsókn er tekið mið af öllum helstu skyldum heimilisins og er þeim skipt í fjóra flokka; heimilisverk (e. housework), umsjá og viðhald eigna, umsjá barna og öflun tekna. Leitast er við að kanna sambandið milli lífsánægju annars vegar og eigin framlags og framlags maka við hverja skyldu hins vegar. Greiningin notast við líkön með föstum áhrifum (e. fixed effects models) og nýtir til þess áströlsk þversniðsgögn frá Household, Income and Labour Dynamics in Australia (HILDA) sem safnað var árlega frá 2001 til 2020.

Fyrstu niðurstöður gefa meðal annars til kynna að samband lífsánægju og skyldna heimilisins er mjög ólíkt eftir kyni en einnig eftir því hvaða skylda er til skoðunar. Til að varpa ljósi á heildar verkaskiptingu kynjanna innan heimilisins er því mikilvægt að skoða fleiri en eina skyldu heimilisins.

 

Efnisorð: Lífsánægja, Skyldur heimilisins, Verkaskipting, HILDA


Greiðsluvilji einstaklinga til að sleppa undan samfélagslegum aðgerðum í Covid-19 faraldrinum

Höfundar: Hjördís Harðardóttir and Tinna Laufey Ásgeirsdóttir

 

Ágrip:

Covid-19 faraldurinn setti mark sitt á líf Íslendinga sem og annarra á síðustu árum. Á Íslandi og annarsstaðar voru samfélagslegar aðgerðir á borð við samkomubann og nálægðartakmörk settar á til að stemma stigu við útbreiðslu faraldursins og lágmarka þannig heilsutjón. Á sama tíma er ljóst að aðgerðirnar sjálfar höfðu töluverð áhrif á líf og velferð almennings. Markmið þessarar rannsóknar er að mæla í krónum talið það velferðartap sem af aðgerðunum hlaust. Í þessum tilgangi er notast við skilyrt verðmætamat til að mæla greiðsluvilja íslensks almennings til að losna undan aðgerðunum. Þær aðgerðir sem spurt er um í rannsókninni eru nálægðartakmarkanir, grímuskylda, samkomubann og takmarkanir á heimsóknum á sjúkrahús og elliheimili. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru að meðalgreiðsluvilji þátttakenda til að í einn mánuð losna undan samfélagslegum aðgerðum sem samanstanda af 2 m. nálægðarreglu, grímuskyldu ef ekki er hægt að framfylgja 2 m. reglu, samkomubanni fyrir fleiri en 20 einstaklinga og aðgangshindrunum að sjúkrahúsum og elliheimilum, er um 18,500 kr. sem samsvarar rúmlega 5 milljörðum ef upphæðin er færð yfir á alla fullorðna á Íslandi (um 3.5% af vergri landsframleiðslu ársins 2020). Af niðurstöðunum má einnig álykta að sá hluti aðgerðanna sem þátttakendur eru að meðaltali tilbúnir að borga mest fyrir að losna undan er samkomubann sem að nær til barna.

 

Efnisorð: Covid-19, skilyrt verðmætamat, greiðsluvilji, velferð


Hvaða áhrif hafa ytri aðstæður á sambandið milli tekna og velferðar?

Höfundar: Guðrún Svavarsdóttir and Tinna Laufey Ásgeirsdóttir

Ágrip:

Við eigum enn margt ólært um flókið samband tekna og velferðar. Má þá sérstaklega nefna hvaða áhrif ytri aðstæður hafa. Við metum einstaklingsbundin velferðarföll tekna (e. individual welfare functions of income) með því að nota spurningu þar sem fólk er beðið að meta tekjur við mismunandi velferðarstig (e. income evaluation question). Þetta gerir okkur kleift að skoða tvö hugtök í ljósi ytri aðstæðna: tekjuþarfir (e. income needs), hversu miklar tekjur einstaklingur þarf til að vera við ákveðið velferðarstig, og velferðarnæmni fyrir tekjum (e. welfare sensitivity to income), hversu miklar breytingar verða á velferð fólks þegar tekjur þeirra breytast. Mikill landfræðilegur og félagslegur breytileiki í rússnesku gögnunum sem notuð eru í rannsókninni gera okkur kleift að skoða ytri aðstæður með góðu móti. Þrjár helstu niðurstöður eru eftirfarandi: (1) Rússar þurfa, að meðaltali, meiri tekjur en þeir hafa nú þegar til að ná meðalvelferð og þessi upphæð hækkar með hærri rauntekjum. (2) Rússar eru ekki jafn næmir fyrir breytingum á tekjum samanborið við fólk frá öðrum löndum. (3) Velferðarnæmnin tengist ekki skýrum félagslegum einkennum en tekjuþarfirnar gera það. Hins vegar sýnum við að velferðarnæmnin tengist svæðisbundnum aðstæðum og þá sérstaklega tekjuójöfnuði. Þetta sést einnig þegar litið er á niðurstöður fyrri rannsókna og þær skoðaðar í sama ljósi. Niðurstöðurnar undirstrika mikilvægi tekjujöfnunar fyrir samfélagslega velferð þar sem þær sýna að þar sem tekjujöfnuður er meiri fær einstaklingurinn meiri velferð fyrir hverja krónu.

 

Efnisorð: Tekjur, Velferð, Tekjujöfnuður

 

Event Details
Event Details