Háskólar og lýðræði
Málstofustjóri: Anna Ólafsdóttir
Málstofan er þáttur í samnefndu rannsóknarverkefni sem styrkt er af Rannsóknasjóði Rannís. Erindi málstofunnar endurspegla margbreytileg viðfangsefni verkefnisins sem eiga það þó öll sameiginlegt að skoða háskóla og háskólastarf frá sjónarhorni hugmynda um lýðræði. Fjallað verður um þau einkenni háskóla sem virðast mikilvægust frá sjónarhóli lýðræðis og spurt hversu veigamikil þessi atriði eru í ríkjandi orðræðu. Einnig verður varpað fram spurningum um í hverju sérfræði felist, hver séu sérkenni hennar og takmarkanir og hvaða hlutverki hún gegni í lýðræðisskipulagi. Fjallað verður um röksemdir sem komið hafa fram um að háskólar skilji hlutverk sitt einkum á efnahagslegum forsendum og það grafi undan lýðræðishlutverki þeirra. Þessar röksemdir verða reifaðar og metnar með hliðsjón af háskólastarfi samtímans. Rætt verður um nýfrjálshyggjuhugtakið og hvernig það hefur verið tengt við hugmyndir um lýðræði. Sjónum verður einnig beint að hugmyndum akademískra starfsmanna um háskóla og lýðræði og í því samhengi spurningum varpað fram um hvort vinnumatskerfi háskólanna sé stýrandi afl.
Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.
Lýðræðið og hin mörgu hlutverk háskólanna
Háskólar eiga sér fjölbreytta sögu og í umræðum um eðli þeirra og hlutverk hafa tekist á ólík sjónarmið sem nauðsynlegt er að huga að þegar spurt er hvert sé lýðræðishlutverk háskóla. Greina þarf á milli frumspekilegra hugmynda um hvað háskóli sé, siðrænna hugmynda um hvernig háskólar þjóni verðugum gildum og stjórnskipulegra kenninga um innra skipulag háskóla og tengsl þeirra við ytra samfélag. Í erindinu verða dregin fram þau einkenni háskóla sem virðast mikilvægust frá sjónarhóli lýðræðis. Spurt verður hve veigamikil þessi atriði séu í ríkjandi hugmyndum um háskóla og samfélagslegt gildi þeirra og færð rök fyrir því að þau eigi verulega undir högg að sækja.
Háskólahugtakið rúmar ólíkar stofnanir með mismunandi hlutverk. Háskólar geta þjónað mörgum verðugum gildum með ólíku innra skipulagi og tengslum við samfélagið. Lýðræði er eitt þessara gilda. Háskólastarf getur verið birtingarmynd lýðræðis, táknrænt fyrir lýðræðisleg gildi, hluti lýðræðislegs þjóðskipulags og haft verðmætar afleiðingar fyrir lýðræði. Til að geta vísvitandi þjónað lýðræði verða háskólar að hafa svigrúm til að leggja rækt við þætti á borð við borgaralegar dygðir í lýðræðisþjóðfélagi, lýðræðislega þjóðfélagsumræðu og mótun lýðræðismenningar. Einsleitir, hnattvæddir mælikvarðar á gæði háskóla, ásamt viðskiptavæðingu þeirra, vega að þessu svigrúmi og þar með að lýðræðishlutverki háskóla.
Lykilorð: háskólar, lýðræði, lýðræðishlutverk háskóla
Hvað er sérfræði? Hvaða hlutverki gegnir hún í lýðræðisskipulagi?
Markmiðið er að varpa ljósi á stöðu sérfræðiþekkingar lýðræðiskerfi. Nútíma lýðræðisríki eru flókin og ekki er hægt að stjórna þeim svo vel sé nema með aðstoð sérfræðinga. Ítarleg þekking og reynsla eru uppistaðan í sérfræði. Borgararnir eru flestir ekki sérfræðingar. Almenningur tekur sumar lýðræðislegar ákvarðanir í kosningum og þar ræður afl atkvæða úrslitum. Að öllu jöfnu er engin þekkingarkrafa gerð til borgara í lýðræðisríkjum þegar þeir greiða atkvæði í almennum kosningum. Spurningin er: Getur það verið skynsamlegt að borgararnir taki mikilvægar ákvarðanir sem krefjast þekkingar? Athuguð verða rök og hugmyndir tveggja heimspekinga um þekkingarfræði lýðræðisins. Stuðst verður við heimspekilega hugtakagreiningu og athyglinni beint að hugtökunum þekking, sérfræði, lýðræðisleg ákvörðun og skynsamleg afstaða borgara til sérfræði. Almennt gildir að allar manneskjur eru háðar öðrum um stærstan hluta þekkingar sinnar. Borgarar í lýðræðisskipulagi verða að geta leitað til sérfræðinga og treyst orðum þeirra, fjallað um þekkinguna sem þeir veita, skilið hana og efast um hana. Niðurstaðan er að borgararnir geta ekki stjórnað ríkinu nema styðjast við þekkingu sérfræðinganna en lýðræðið gerir þá kröfu að sérfræðingarnir geti sett fram þekkingu sína svo að borgararnir skilji.
Lykilorð: sérfræði, lýðræði, borgarar
Háskólar og samtal við samfélagið – Vinnumatskerfið sem stýrandi afl
Í erindinu verður sjónum beint að hugmyndum akademískra starfsmanna um samspil lýðræðislegs hlutverks háskóla og vinnumatskerfa, einkum þegar kemur að því hlutverki háskóla að styðja við gagnrýna og lýðræðislega umræðu í samfélaginu. Umfjöllunin byggir á niðurstöðum hálf opinna einstaklingsviðtala við 26 háskólakennara innan tveggja fræðasviða við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Háskólann í Reykjavík. Viðtölin fóru fram í desember 2019 og janúar 2020. Viðtölin voru þemagreind með það að markmiði að öðlast skilning á hvaða sess matskerfi skipa í hugmyndum háskólakennara um eigin störf. Niðurstöðurnar varpa ljósi á hugmyndir háskólakennara um vald matskerfa og tengsl þeirra kerfa við hugmyndir um akademískt frelsi og mikilvægi kennslu. Viðmælendur bentu á að það færi eftir eðli fræðigreina hversu vel vinnumatskerfin þjónuðu þeim og þau féllu einnig misvel að stefnu og sérstöðu ólíkra háskóla. Eitt af leiðarstefum í orðum viðmælenda var að finna þyrfti leiðir til að láta vinnumatskerfin vinna fyrir sig á sama tíma og þau mættu ekki verða of stýrandi. Það væri mikilvægt til þess að háskólar og akademískir starfsmenn þeirra gætu tengst samfélaginu og ræktað lýðræðislegt hlutverk sitt.
Guðrún Geirsdóttir, Valgerður S. Bjarnadóttir og Anna Ólafsdóttir
Lykilorð: lýðræði, háskólar, vinnumatskerfi
Nýfrjálshyggja og lýðræði: markaðsvæðing sem ólýðræðislegt afl
Markaðsvæðing hefur verið áberandi fyrirbæri síðustu áratugi eins og fjöldi fræðimanna úr mörgum ólíkum fræðigreinum hafa fjallað um útfrá allskonar sjónarhornum. Ein nálgun hefur verið sú að skilja markaðsvæðingu sem einungis einn anga af stærra og víðfeðmara fyrirbæri sem oftast er kallað nýfrjálshyggja. Eitt grundvallareinkenni nýfrjálshyggjunnar samkvæmt því sjónarmiði er þá einmitt það að hún leitast sífellt við að stækka og „leggja undir sig“ svið samfélagsins þar sem markaðsrökvísi og lögmál áttu ekki við áður. Hefur slík markaðsvæðing haft mikil og víðtæk áhrif á ólík svið samfélagsins. Er menntakerfið þar ekki undanskilið. Í erindinu verður markaðsvæðing háskólana tekin til skoðunar, sérstaklega með tilliti til lýðræðishlutverks þeirra. Færð verða rök fyrir að nýfrjálshyggjan sé í eðli sínu ólýðræðislegt afl og hafi þar með mikil og þó að mörgu leyti vanmetin áhrif á lýðræðisleg gildi og hugsjónir. Fáir myndu neita því að háskólarnir hafi a.m.k. einhverju mikilvægu lýðræðishlutverki að gegna (þó ekki sé endilega sammælst um nákvæmlega í hverju það sé fólgið). En rætt verður hvernig nýfrjálshyggjan grefur beinlínis undan öllum slíkum hugmyndum og gerir háskólunum erfitt, ef ekki ókleift, að sinna slíku hlutverki í nútímasamfélagi.