Hagsveiflan og heimilin
Málstofustjóri: Gylfi Zoega
Á málstofunni verða erindi sem fjalla um áhrif hagsveiflu og kerfisbreytinga í hagkerfi á fjárhag heimila og ákvarðanir þeirra um sparnað, sambúð og skilnað.
Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.
Áhrif menntunar á sparnað og neyslu yfir ævina
Í rannsókninni eru notuð gögn úr skattframtölum sem ná til allra íslenskra skattgreiðenda árin 2005-2019 til að lýsa ferli sparnaðar og neyslu yfir ævina. Með þessu móti er prófuð ævitekjukenning Milton Friedman (1957) og Franco Modigliani (1963) og nýlegri kenningar um neysluhegðun. Í ljós kemur að neysla eykst framan af ævinni, nær hámarki um miðbik ævinnar og lækkar síðan. Þetta skýrist að hluta af kostnaði við barnauppeldi og þróun tekna yfir ævina. Niðurtöðurnar stangast á við kenningar þeirra Friedman og Modigliani en samkvæmt þeim er neysla jafnari yfir ævina. Framlag rannsóknarinnar umfram aðrar svipaðar erlendar rannsóknir á neysluhegðun er einkum það að beita tölfræðilegum aðferðum, meginlegri aðferðafræði, til þess að prófa hvort munur sé á neysluhegðun þeirra sem hafa háskólapróf og þeirra sem hafa styttri skólagöngu. Niðurstöður benda til þess að háskólamenntaðir jafni neyslu meira yfir ævina og auki ekki neyslu sína eins mikið þegar tekjur hækka tímabundið frá einu ári til annars, spari hlutfallslega meira af viðbótartekjum. Tölfræðilegum prófum er beitt til þess að greina orsakir þess að háskólamenntaðir hegða sé á annan hátt en þær má rekja til þess að tekjur þeirra þróast með öðrum hætti yfir ævina og þær eru að meðaltali hærri.
Sigurður P. Ólafsson, Svend E. Hougaard Jensen, Þorsteinn S. Sveinsson og Gylfi Zoega
Hvernig hefur þúsaldarkynslóðin það?
Í rannsókninni eru notuð skattagögn frá 1989 til 2019, ásamt gögnum um menntun hvers skattgreiðanda, til þess að bera saman hag þúsaldarkynslóðinnar (e. millennials), sem er skilgreind sem þeir sem fæddir eru á árunum 1981 til 1996, og fyrri kynslóða þegar þær voru á sama aldursbili. Við sýnum þróun hlutfallslegra ráðstöfunartekna aldurshópsins frá 25 til 34 ára yfir tímabilið. Samanburðarhópurinn samanstendur af öllum skattgreiðendum sem eru yfir 20 ára aldri og þiggja ekki örorkubætur. Aðferðafræðin byggir á myndrænni lýsingu meðaltala fyrir tekjur og aðfallsgreiningu sem beitt er til þess að finna orsakir þróunar hlutfallslegra ráðstöfunartekna ungu kynslóðarinnar. Ráðstöfunartekjur unga fólksins hafa hækkað hægar frá árinu 1993 en meðalráðstöfunartekjur, hlutfallið hefur lækkað úr 0.98 í 0.79 frá 1993 til 2019. Í ljós kemur kynjamunur, hlutfallsleg laun ungra karla hafa lækkað úr 1.3 árið 1989 í 0.81 árið 2019 á meðan hlutfallsleg laun ungra kvenna hafa hækkað úr 0.62 í 0.75. Þessa þróun má rekja til annars vegar hlutfallslega meiri fjölgunar kvenna með háskólagráðu og hins vegar lækkunar hlutfallslegra ráðstöfunartekna háskóla-menntaðs ungs fólks. Að lokum er sýnt fram á að erfiðara er fyrir ungt fólk að kaupa fyrstu fasteign en áður þegar tilliti er tekið til vaxta, fasteignaverðs og ráðstöfunartekna.
Axel Hall, Andri Sigmarsson Scheving og Benedikt Axel Ágústsson
Áhrif hagsveiflu á skilnaði og hjónabönd á síðustu tuttugu árum
Við notum gögn úr skattframtölum til að rannsaka tíðni þess að fólk fari í og úr sambúð í uppsveiflu efnahagslífsins og kreppunni sem hófst árið 2008. Niðurstöður eru þær að þegar vel gekk í efnahagslífi, ráðstöfunartekjur hækkuðu og einnig eign heimila frá 2004 til 2008, þá jókst tíðni sambandsslita og færri hófu sambúð en færri sambandsslit urðu eftir fall bankanna og fleiri hófu nýja sambúð. Svipaða sögu er hægt að segja um uppsveifluna sem fylgdi fjölgun ferðamanna. Framkvæmd er probit greining fyrir alla skattgreiðendur 2004-2019 til þess að skýra líkurnar á að einhleypir fari í sambúð og fólk í sambúð fari hvort sína leið með breytum um fjölda barna, aldur, fasteignaverð, ráðstöfunartekjur heimila, hreina eign heimila og tekju- og aldursmun sambúðarfólks. Niðurstöður benda til þess að efnahagslegt góðæri auki líkur á sambandsslitum og minnki líkur á að einhleypir fari í sambúð.
Gylfi Zoega, Þórólfur Matthíasson og Andri S. Scheving