Framkvæmd eignarnáms

Málstofustjóri: Aðalheiður Jóhannsdóttir

Í málstofunni verður fjallað um framkvæmd eignarnáms. Valgerður Sólnes lektor mun fjalla um viðfangsefni málstofunnar og mikilvæg þess, ásamt því að gera grein fyrir matsnefnd eignarnámsbóta og hlutverki hennar. Karl Axelsson hæstaréttardómari og dósent mun greina frá lagagrundvellinum að þessu leyti, sem einkum markast af lögum nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, lögmennirnir Þórður Bogason og Guðjón Ármannsson munu fjalla um framkvæmd eignarnáms frá sjónarhóli eignarnema annars vegar og eignarnámsþola hins vegar. Að síðustu mun Ásgerður Ragnarsdóttir héraðsdómari og aðjunkt velta því upp hvort breytinga og eftir atvikum úrbóta sé þörf á lögum um framkvæmd eignarnámsbóta.

Framkvæmd eignarnáms – málstofan og hlutverk matsnefndar eignarnámsbóta

Í erindinu verður annars vegar fjallað um viðfangsefni mál­stofunnar og mikilvægi þess, þar sem fyrirhugað er að fjalla um framkvæmd eignarnáms í víðu samhengi meðal annars á grundvelli rannsókna Karls Axelssonar og Ásgerðar Ragnars­dóttur sem birtust í greininni „Aðdragandi eignarnáms og framkvæmd á grundvelli þess: Frá hugmynd til veruleika“, sem birt var í Tímariti lögfræðinga árið 2018. Karl Axelsson hæsta­réttardómari og dósent mun greina frá laga­grund­vellinum að þessu leyti, sem einkum markast af lögum nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, lögmennirnir Þórður Bogason og Guðjón Ármannsson munu fjalla um framkvæmd eignar­náms frá sjónarhóli eignarnema annars vegar og eignar­námsþola hins vegar. Að síðustu mun Ásgerður Ragnarsdóttir héraðsdómari og aðjunkt velta því upp hvort breytinga og eftir atvikum úrbóta sé þörf á lögum um framkvæmd eignar­námsbóta. Hins vegar verður í erindinu fjallað um matsnefnd eignarnámsbóta, sem komið var á fót með áðurgreindum lögum nr. 11/1973, og því hvernig hlutverk nefndarinnar einskorðast samkvæmt lögunum við að skera úr ágreiningi um eignar­námsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögunum, og hvernig það fellur þar með utan valdsviðs nefndarinnar að leysa úr ágreiningi í tengslum við framkvæmd eignarnáms.

Valgerður Sólnes

Framkvæmd eignarnáms – lagaumhverfi

Í framsögu verður grein fyrir því gerð að ferli eignarnáms sé í raun kaflaskipt þar sem einn þátturinn tekur til ákvarðanatöku um eignarnám, annar til ákvörðunar eignarnámsbóta en sá þriðji, og um margt víðfemasti, til framkvæmdar og lagaumhverfis eignarnáms og fléttast sá þáttur eðlilega mjög saman við hina tvo fyrri. Frá því að hugmynd verður til og þar til að hún hefur orðið að veruleika, með tilkomu þeirrar framkvæmdar sem um ræðir, hefur viðfangsefnið þróast og þroskast á hinum ýmsu stigum og liggur því til grundvallar fjölþætt ákvarðanataka. Þar koma ekki bara við sögu lög nr. 11/1973 um framkvæmd eignar­náms, sem sérstaklega verður gerð grein fyrir, heldur jafnframt skipulag, mat á umhverfisáhrifum, leyfi stjórnvalda af ýmsum toga, þar á meðal framkvæmdaleyfi sveitarfélaga, samninga­viðræður við mögulegan eignarnámsþola, eignarnáms­ákvörðun­­in sjálf, umráðataka á grundvelli hennar fyrir eða eftir bótaákvörðun og afturhvarf frá eignarnámi. Grein verður gerð fyrir þeim lagaákvæðum sem um þetta fjalla og hvernig þau tengjast eignarnáminu bæði fyrir og eftir að eignarnáms­ákvörðunin sem slík hefur verið tekin og til nánari skýringa verða sérstaklega tekin dæmi úr dómum sem fjölluðu um svokallaða Suðurnesjalínu og gengu á í Hæstarétti á árunum 2015 – 2017.

Karl Axelsson

Er eignarnám skilvirkt réttarúrræði fyrir eignarnema?

Fjallað verður um hversu skilvirk eignarnámsákvæði laga eru, kjósi eignarnemi að beita þeim eða óska eignarnámsheimildar frá stjórnvöldum. Í þessu sambandi verður velt upp spurningum um hvort flokka eigi eignarnámsheimildir frekar en gert er í dag og hvort skilyrði eignarnáms eigi að vera mismunandi eftir því um hvaða framkvæmdir er að ræða, s.s. vegna uppbyggingar innviða samfélagsins. Horft verður til lagaheimilda og dóms­úrlausna í þessu sambandi, sem og eignarréttarákvæðis stjórnar­­skrárinnar. Farið verður yfir sjónarmið sem varða samninga framkvæmdaraðila við landeigendur m.a. hagsmuna­mat milli almannaþarfar og eignarréttar og spurt hvort heppilegt sé að lögfesta einhver viðmið í því sambandi, m.a. atriði sem snúa að málaefnalegum sjónarmiðum og lengd samninga­viðræðna við rétthafa. Þá verður fjallað um tengsl eignar­námsákvæða við aðrar heimildir og lagaferla sem fram­kvæmdir kunna að falla undir, s.s. mat á umhverfisáhrifum, rammaáætlun, framkvæmdaleyfi og önnur skipulagslöggjöf. Einnig verður farið yfir úrlausn deilumála er varðar eignarnám. Í lokin verður metið hvort nauðsyn sé að endurskoða nú­gildandi löggjöf um eignarnám í ljósi þeirra atriða sem tekin verða til umfjöllunar.

Þórður Bogason

Eignarnámsframkvæmd frá sjónarhóli eignarnámsþola

Í erindinu verður sjónum beint að framkvæmd eignarnáms með tilliti til hagsmuna eignarnámsþola. Samhliða verður fjallað um réttarstöðu þeirra aðila sem verða fyrir eignarskerðingum í tilefni stórframkvæmda en eiga þó ekki eignaraðild að eignarnáms­andlagi  eins og það er skilgreint af hálfu eignarnema. Í því sam­hengi verður farið yfir sundurliðun eignarnámsbóta í dómum Hæstaréttar og úrskurðum matsnefnar eignarnámsbóta. Fyrir liggja fjölmargir úrskurðir matsnefndar þar sem stærstur hluti úrskurðaðra bóta er vegna verðfalls á þeim hluta eignar sem eftir stendur og var ekki hluti eignarnámsandlags. Verða einstök tilvik skoðuð með tilliti til bótareglu skipulagslaga nr. 123/2010.

Loks verður sjónum beint að samspili laga um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973 og laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Fyrir liggur að umhverfismatið, eignarnámsferlið og hinar verklegu framkvæmdir geta í einstökum tilfellum, samanlagt, staðið yfir í marga áratugi. Skoðað verður hvort hagsmunir eignarnámsþola séu nægjanlega tryggðir við þær aðstæður. Að lokum verður því velt upp hvort ástæða sé til breytinga á lögum sem lúta að hagsmunum þeirra aðila sem verða fyrir eignarskerðingum.

Guðjón Ármannsson

Framkvæmd eignarnáms: Er breytinga þörf?

Í erindinu verður fjallað um hvort breytinga sé þörf á lögum um framkvæmd eignarnáms, einkum í ljósi þess sem fram hefur komið í erindum annarra framsögumanna. Telja verður að núverandi lagaumhverfi taki ekki nægilegt mið af þeim veruleika sem staðið er frammi fyrir þar sem framkvæmdir þurfa að sæta ýmis konar lögbundnum undirbúningi áður en til greina kemur að taka ákvörðun um eignarnám. Til að mynda ríkir óvissa um hvernig tímasetningu eignarnáms skuli hagað og hvernig skilgreina beri réttarstöðu þess aðila sem kann síðar að fá stöðu eignarnámsþola. Jafnframt skapar það óvissu að ákvörðun kann að hafa verið tekin um eignarnám og umráðataka að hafa farið fram, en á sama tíma geta verið rekin dómsmál sem varða lögmæti ákvarðana sem varða undirbúning framkvæmdar og teknar voru áður en eignarnám var heimilað. Fjallað verður um hvort unnt gæti verið að auka réttaröryggi með heildstæðri löggjöf sem tæki til ferils eignarnáms frá undirbúningi til umráðatöku eftir að eignarnámsbætur hefðu verið ákveðnar. Samhliða verður vikið að tilteknum álitaefnum, svo sem því hvort sama stjórnvaldið ætti í öllum tilvikum að taka ákvörðun um eignarnám, hvaða kröfur beri að gera til samningaviðræðna og möguleikum á að láta reyna á eignarnámsákvörðun fyrir dómi.

Ásgerður Ragnarsdóttir

Event Details
  • Start Date
    01/11, 2019 11:00
  • End Date
    01/11, 2019 12:45
Höfundar erinda
Annað / Other
Dósent
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Annað / Other
Annað / Other
Aðjúnkt / Adjunct Lecturer
Háskóli Íslands / University of Iceland
Event Details
  • Start Date
    01/11, 2019 11:00
  • End Date
    01/11, 2019 12:45