Farvegir þjóðsagna og menningararfs I

Málstofustjóri: Kristinn Schram

Í þessari málstofu verða kynntar nýjar og yfirstandandi rannsóknir í þjóðfræði um ólík ferli og umbreytingu þjóðfræðiefnis. Fyrirlestrar taka til gagnrýnnar greiningar hvernig sögur, siðir, fólk og dýr taka á sig ólíkar myndir, verða hluti af þjóðarímynd eða eru varðveitt sem menningararfleifð. Fjallkonur samtímans, sagnir af dýrum og dýr sem menningararfur, álagablettir, heimalestur barna og stafræn gagnasöfn eru meðal tilviksrannsókna þar sem þessir ólíku farvegir þjóðfræðaefnis verða raktir.

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Svo miklu meira en drottningarleikur:  Breytt hlutverk Fjallkonunnar í samtímanum

Þjóðlegur klæðnaður íslenskra kvenna hefur lengi verið eitt augljósasta tákn þjóðernisins og áþreifanlegur menningararfur. Fjallkonan, sem íklæðist honum,  er eitt helsta tákn þjóðhátíðardags Íslendinga en um stöðu hennar í sögu og samtíð er margt á huldu. Hér er sagt frá fyrstu niðurstöðum yfirstandandi rannsóknar á ferli Fjallkonunar gegnum rómantískar upphafsmyndir, skrautlegt sýningarhald, pólitískar ákvarðanir og til stöðu hennar sem þjóðartákns, náttúruverndarvættar og persónulegrar fyrirmyndar. Uppruni hennar er settur í sögulegt samhengi, sem tákn landsins innan tengslaneta Sigurðar Guðmundssonar, og síðar tákn ríkisvalds í höndum íslenskrar valdastéttar.  Viðtals- og vettvangsrannsóknir á meðal Fjallkvenna nútímans, og þeirra fjölmörgu sem að þeim koma, sýna svo fjölþætt hlutverk hennar í dag. Þær lýsa ólíkri reynslu af því að vera „prinsessa“ eða „drottning í einn dag“ en jafnframt þunga og ábyrgð „fullþroska manneskju“ í gervi hennar. Þá verður varpað ljósi á ólíkar birtingarmyndir Fjallkvenna og þau, oft mótsagnakenndu, hreyfiöfl sem búa að baki þeim. Með vísun í hugmyndir Jean Baudrillard um þróun ímynda verður vegferð hennar um hálfa aðra öld tekin til gagnrýninnar umræðu. Þannig ræðum við hugsanlega stöðu hennar sem táknmyndar sem vísar öllu jafna á sjálfa sig og myndar þar með eigin, mun sveigjanlegri, veruleika óháð uppruna sínum.

Anna Karen Unnsteinsdóttir, Karl Aspelund og Kristinn Schram

Lykilorð: fjallkonur, þjóðbúningar, menningararfur

“A woman was home alone“: When accounts of unusual occurrences become folk legends. A case study of polar bear narratives

Folk legends of “real life“ events offer knowledge that goes beyond the event itself. They shine light on attitudes, beliefs and values held by those who tell them. In this case study of Icelandic polar bear narratives, we explore how folk ideas, beliefs and narrative motifs have been imposed on accounts of polar bear visits from 1918 to the present day. Through this analysis, we aim to challenge the boundaries between popular history and folk narrative, as well as provide insights into the role of gender, humour, identity and notions of the “other“ in the legend-making process. The sources analysed are diverse in nature and include interviews and participant observation undertaken during the summer of 2020. Through comparative narrative analysis of the sources we conclude that these narratives assume characteristics of pre-established folk traditions. While certain motifs are identifiable in accounts spanning the whole period studied, other attitudes and beliefs expressed are confined to a particular time or place. The research also shows how the structure of some narratives is altered as narrators demonstrate a preference for humour and absurdity.

Aðalheiður Alice Eyvör Pálsdóttir  og  Kristinn Schram

Lykilorð: þjóðfræði, þjóðsagnafræði, pósthúmanismi

„Hérna er heimalestur, núna eigið þið bara að sinna þessu“. Reynsla foreldra af heimalestri

Íslendingar kalla sig gjarnan bókmenntaþjóð og lögð er áhersla á læsi sem grunnfærni og hæfni við menntun barna. Á sama tíma leggur menntakerfið mikla ábyrgð á foreldra vegna lestrarþjálfunar barna án þess að taka tilliti til ólíkra aðstæðna foreldra til að takast á við þetta hlutverk í daglegu lífi.

Í þessu erindi verður sjónarhorninu beint að foreldrum í þeim tilgangi að greina upplifun þeirra og reynslu af heimalestri barna. Um er að ræða eigindlega rannsókn sem byggir á tíu hálfstöðluðum djúpviðtölum við foreldra barna í 1.-6. bekk grunnskóla. Foreldrarnir eru með ólíkan bakgrunn og lesa mismikið með börnum sínum. Þær niðurstöður sem hér eru kynntar eru hluti af yfirstandandi doktorsrannsókn í þjóðfræði þar sem áherslur á lestur og lestrarmenningu í íslensku samfélagi eru teknar til skoðunar með aðferðum gagnrýninnar orðræðugreiningar.

Helstu niðurstöður sýna að flestir foreldrar voru þeirrar skoðunar að lestur væri mjög mikilvægur, en fundu fyrir stressi yfir kröfum um að sinna heimalestri daglega. Foreldrar upplifðu líka að fyrirkomulag heimalesturs gæti haft neikvæð áhrif á lestraráhuga barna sinna þar sem það væri of þvingað og formfast.

Þar sem rannsóknin leiðir m.a. í ljós að mikill munur er á hvort foreldrum reynist auðvelt eða erfitt að uppfylla kröfur skóla um heimalestur verða niðurstöðurnar ræddar út frá sjónarmiðum um jafnrétti barna til náms.

Anna Söderström

Lykilorð: lestur, lestrarmenning, heimalestur

Frá miðri 19. öld fram til nútímans: Sameining gagnagrunna innan þjóðfræða

Síðustu tvo áratugi hefur hlutverk stafrænna hugvísinda orðið veigameira innan rannsókna í hugvísindum og félagsvísindum. Gagnasöfn hafa byggst upp, innviðir verið þróaðir og nýir möguleikar í rannsóknum hafa opnast með tilkomu tölvutækninnar. Hér á landi hafa byggst upp stór gagnasöfn innan þjóðfræðinnar á síðustu árum. Í erindinu verður fjallað um tvö mikilvæg söfn, Ísmús og Sagnagrunn, og sýnt hvernig samsteypa þeirra breytir nálgun á þjóðfræðiefni frá miðri 19. öld fram til nútímans. Söfnin eiga um margt sameiginlegt þótt ýmislegt skilji þau að. Ísmús er gagnagrunnur yfir íslenskan músík- og menningararf og veitir aðgang að hljóðritasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum en meginuppistaða þess er viðtöl sem tekin voru við fólk upp úr miðri síðustu öld en geymir einnig upptökur frá þessari öld. Sagnagrunnur er uppflettigrunnur með áherslu á landfræðilega dreifingu sagna í prentuðum þjóðsagnasöfnum. Þar má finna efni allt frá Íslenzkum þjóðsögum og ævintýrum Jóns Árnasonar frá 1862 til yngri safna sem komu út eftir miðja 20. öld. Ásamt þjóðfræðiefni geymir Ísmús upplýsingar um tónlistarsögu þjóðarinnar. Undanfarið ár hefur verið unnið að nýrri útgáfu af Ísmús hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í samstarfi við Tónlistarsafn Íslands. Í þeirri útgáfu sem kynnt verður í erindinu hefur sögnum úr Sagnagrunni verið bætt við og mun sú samsteypa bjóða upp á mun öflugri leit en áður í þessum stóru þjóðfræðigagnasöfnum.

Trausti Dagsson

Lykilorð: stafræn hugvísindi, þjóðsögur, gagnasöfn

Event Details
  • Start Date
    29/10, 2021 11:00
  • End Date
    29/10, 2021 12:45
Höfundar erinda
Verkefnisstjóri
Árnastofnun
Aðstoðar prófessor
The University of Rhode Island
MA/MS nemi
Háskóli Íslands / University of Iceland
Doktorsnemi / PhD student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Doktorsnemi / PhD student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Dósent / Associate Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
MA/MS nemi / MA, Msc. student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Event Details
  • Start Date
    29/10, 2021 11:00
  • End Date
    29/10, 2021 12:45