Er móða á kynjagleraugunum?

Málstofustjóri: Gylfi Dalmann Aðalsteinsson

Í málstofunni verða kynntar rannsóknir um forystu kvenna hér á landi og fjárfestingar með kynjagleraugum.  Fjárfestar og þátttakendur á markaði gera í vaxandi mæli kröfu um að fjárfest sé með samfélagslega ábyrgum hætti og hafa ábyrgar fjárfestingar vaxið um 40% á alþjóðavísu á hverju ári frá árinu 2016. Það er ekki aðeins mikilvægt að horfa til kynjahlutfalla meðal stjórnenda út frá réttlætis- og mannréttinda sjónarmiðum, heldur jafnframt út frá fjárhags- og efnahagslegu mikilvægi þess að hafa kynjajafnvægi í æðsta lagi fyrirtækja, bæði í stjórn og framkvæmdastjórn. Þá hafa rannsóknir sýnt að fyrirtæki með jafnari kynjahlutföll meðal stjórnenda skila almennt meiri hagnaði heldur en fyrirtæki þar sem ekki er gætt að kynjajafnvægi.

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Á ég að gera það? Hverjir geta beitt áhrifum sínum í því skyni að jafna tækifæri karla og kvenna til þess að gegna æðstu stjórnunarstöðum?

Ísland er að mörgu leyti fyrirmyndarland þegar kemur að jafnréttismálum. Íslendingar hafa leitt lista Alþjóðaefnahagsráðsins 12 ár í röð og hafa náð hvað mestum framförum og lokað kynjabilinu um tæp 90%. Þá varð Ísland annað land heims á eftir Noregi að setja  kynjakvóta á stjórnir félaga. Löggjöfin mætti ákveðinni mótspyrnu og ýmsir óttuðust  að kynjakvótar myndu grafa undan samkeppnishæfni og vali á grundvelli verðleika. Í september 2021 eru 20 fyrirtæki skráð á Nasdaq Iceland og þrátt fyrir að stjórnir fyrirtækja falli undir reglugerðir um kynjakvóta er staða forstjóra skráðra félaga 19-1 körlum í vil. Markmið rannsóknarinnar er að kanna sýn kvenna á hvernig hægt sé jafna leikinn og draga úr kynjamuninum, ýta undir jöfn tækifæri fyrir karla og konur til að gegna æðstu stjórnunarstöðum. Með því að beita blönduðum aðferðum var gögnum safnað frá 189 kvenkyns leiðtogum fyrirtækja með könnun, og tekin viðtöl við 22 konur sem sitja í stjórnum allra félaganna. Niðurstöður sýna að breytinga er þörf, og bent á mögulegar leiðir; að setja kynjakvóta á framkvæmdastjórnarstöður, að lífeyrissjóðir setji ákvæði í eigendastefnu sína um kynjahlutföll og að stjórnir móti sér stefnu um hlutfall karla og kvenna í stöðum innan fyrirtækjanna.

Ásta Dís Óladóttir

Lykilorð: kynjakvótar, jöfn tækifæri, skráð félög

Getur ráðningarferli að fyrirmynd hins opinbera jafnað hlut kvenna í forstjórastöðum skráðra félaga?

Mikill munur er á stöðu kynjanna hvað stjórnunarstöður varðar, eftir því hvort litið er til einkageirans eða hins opinbera. Konur virðast eiga mun erfiðara uppdráttar í æðstu stöður hjá skráðum félögum, þar sem ein kona er forstjóri. Rannsóknin leitar skýringa á því hvers vegna konur eru síður forstjórar í skráðum félögum. Sjónum er beint að því hvort þær reglur sem gilda um ráðningar í opinber störf gæti verið til þess fallnar að auka hlut kvenna í forstjórastöður skráðra félaga. Lagður var spurningalisti fyrir tvo hópa, konur í Félagi kvenna í atvinnulífinu, sem telur 1100 konur og fyrir félagsmenn í Exedra sem er hópur kvenna úr atvinnulífinu, stjórnmálum og opinbera geiranum og telur 225 konur. Einnig er stuðst við gögn um auglýsingar stjórnendastarfa hjá hinu opinbera og í einkageiranum, um 115 störf var að ræða og 3823 umsækjendur. Helstu niðurstöður eru þær að konur eiga auðveldara með að komast í æðstu stöður hjá hinu opinbera en í einkageiranum og að ráðningarferlið er nefnt sem helsta skýringin, ferlið væri mun gegnsærra og faglegra hjá hinu opinbera. Þá var bent á að skylda ætti skráð félög til að auglýsa æðstu stjórnendastöður.

Gylfi Dalmann AðalsteinssonÞóra H. Christiansen og Ásta Dís Óladóttir

Lykilorð: ráðningarferli, hæfnisnefndir, kynjamunur

Stuðla fjárfestingar með kynjagleraugum að jafnari kynjahlutföllum?

Fjárfestingar með svokölluðum kynjagleraugum (e. Gender-lens investing) hafa vaxið mikið á síðastliðnum árum, eða úr um 15 milljónum króna á árinu 2014 í rúmlega 640 milljarða króna 2021. Markmiðið með slíkum fjárfestingum er að ýta undir jafnrétti kynjanna í atvinnulífinu. Fjárfestingar með kynjagleraugum eiga sér oftast stað í gegnum fjármálagerninga eða sjóði og hafa laðað til sín hundruði milljarða, meðal annars frá fjárfestum á borð við stærstu lífeyrissjóði heims. Þá er því spáð að fjárfestingar með kynjagleraugum muni aukast í um 2500 milljarða króna á næstu árum. Í málstofunni verður gerð grein fyrir nýrri rannsókn þar sem sjónum er beint að því hvort fjárfestingar með kynjagleraugum hafi bein áhrif á kynjahlutföll í stjórnum og framkvæmdastjórnum skráðra fyrirtækja.

Nú hafa 138 sjóðir á heimsvísu lýst því yfir að markmið þeirra sé að fjárfesta með kynjagleraugum og greint verður frá nýrri rannsókn á fyrirtækjum á Bandaríkjamarkaði og á Norðurlöndunum sem fjárfest hefur verið í með þessum hætti. Auk þess sem sýnt verður hvernig nota má hugbúnaðarlausn og reitunarkerfi GEMMAQ, sem safnar rauntíma upplýsingum um kynjahlutföll meðal fyrirtækja, til þess að meta áhrif fjárfestinga miðað við kynjahlutföll í áhrifastöðum hverju sinni.

Freyja Vilborg Þórarinsdóttir

Fjármálalæsi kynjanna

Við skoðum kynjamun á fjármálalæsi. Þó að flestar rannsóknir bendi til þess að konur séu síður fjármálalæsar en karlar, þá er það oft rakið til félagslegra þátta. Við spyrjum því hvort kynjamunur á fjármálalæsi sé til staðar á Íslandi, mesta jafnréttislandi í heimi. Ef fjármálalæsi er byggt á félagslegum viðmiðum ætti mismunur kynjanna á fjármálalæsi að vera minni í löndum eins og Íslandi þar sem konur búa við meira jafnrétti en margar aðrar þjóðir en slíkt hefur komið fram í rannsóknum, bæði eigindlegum og megindlegum. Aðferðarfræði þessarar rannsóknar er byggð á eigindlegri aðferðarfræði og notast var við aðhvarfsgreiningu. Framkvæmd fór þannig fram að við tókum úrtak íslenskra íbúa og stjórnuðum fjölda þátta eins og menntun, aldur, sambúðar form þ.e. hvort viðkomandi var giftur og tekjur viðkomandi. Teljast verður að niðurstaða okkar kom talsvert á óvart en þrátt fyrir sterkt jafnrétti kynjanna á Íslandi, þá eru konur með vera fjármálalæsari en karlar. Næsta skref yrði að finna út ástæðuna fyrir því að konur, jafnvel á hinu jafnréttissinnaða Íslandi, eru verr fjármálalæsar en karlar. Mögulega liggur ástæðan í því að þrátt fyrir að Ísland sé jafnréttissinnað, þá er enn langt í land hvað varðar jafnrétti kynjanna á ýmsum sviðum, einkum þeim sem tengjast fjármálalæsi.

Sigurður Guðjónsson

Lykilorð: fjármálalæsi

Event Details
  • Start Date
    29/10, 2021 15:00
  • End Date
    29/10, 2021 16:45
Höfundar erinda
Sérfræðingur
Sjálfstætt starfandi
Aðjúnkt / Adjunct Lecturer
Háskóli Íslands / University of Iceland
Lektor / Assistant Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Dósent / Associate Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Dósent / Associate Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Event Details
  • Start Date
    29/10, 2021 15:00
  • End Date
    29/10, 2021 16:45