Einelti, forvarnir og inngrip
Málstofustjóri: Vanda Sigurgeirsdóttir
Málstofan fjallar um einelti. Kynntar verða nýjar og nýlegar íslenskar rannsóknir á ýmsum þáttum eineltis. Markmiðið er að varpa ljósi á þetta flókna samfélagslega vandamál sem einelti er. Einnig að nýta niðurstöður til að koma með hugmyndir að útbótum á þeim aðferðum sem notaðar eru hér á landi við lausn eineltismála sem og forvarnir.
Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.
Neteinelti meðal unglinga á Norðurlöndunum og áhrif þess á lífsánægju
Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða algengi neteineltis meðal unglinga sex Norðurlandaþjóða og hvernig það skaraðist við hefðbundið einelti. Enn fremur að kanna hugsanleg tengsl neteineltis og hefðbundins eineltis við lífsánægju. Notast var við gögn úr fyrirlögn rannsóknarinnar Health Behaviour in School-Aged Children (HBSC) veturinn 2013-2014. Alls svöruðu 32.210 unglingar frá Norðurlöndunum sem öll voru á aldrinum 11-15 ára. Niðurstöður benda til að algengi neteineltis bæði með mynd- og textaskilaboðunum var um 2% meðal unglinga á öllum Norðurlöndunum. Undantekningin var Grænland þar sem hlutfallið var talsvert hærra. Algengi hefðbundins eineltis var mun breytilegra milli landa. Meðal stráka var þessi gerð eineltis algengari meðal yngri þátttakenda en minnkaði með hækkandi aldri. Neteinelti var að meðaltali algengara meðal stelpna og frekar hjá 13 og 15 ára nemendum en hjá 11 ára. Fjárhagur fjölskyldu hafði fylgni við hefðbundið einelti en ekki neteinelti. Neteinelti var hins vegar algengara meðal unglinga sem bjuggu hjá einstæðum foreldrum eða í stjúpfjölskyldum heldur en þeim sem bjuggu með báðum foreldrum. Báðar gerðir eineltis höfðu neikvæða fylgni við lífsánægju. Takmörkuð skörun reyndist milli neteineltis og hefðbundins eineltis, sem bendir til þess að um tvö aðskilin fyrirbæri sé að ræða, að minnsta kosti meðal unglinga á Norðurlöndunum.
Lykilorð: einelti, unglingar, lífsánægja
Útivera, vinátta og einelti
Almennt er talið að börn verji minni tíma úti en áður og mikilvægir áhrifaþættir eru taldir vera aukin skjánotkun, önnur áhugamál, samgöngur og hættur í umhverfinu. Margar ástæður eru fyrir því að hafa áhyggjur af minni útiveru barna m.a. áhrif á andlega og líkamlega heilsu þeirra. Í erindinu eru kynntar niðurstöður sem greina hversu miklum tíma börn á Íslandi verja úti og er sérstök áhersla lögð á að skoða útiveru í ljósi vináttu og eineltis. Niðurstöður byggja á spurningum úr rannsókninni Heilsa og lífskjör skólanema (HBSC) 2017/2018, sem rúmlega sjö þúsund nemendur í 6., 8. og 10. bekk svöruðu. Niðurstöðurnar varpa ljósi á að félagslegir þættir eins og vinátta virðast tengjast því hve miklum tími börn, sérstaklega strákar, verja úti. Börn sem eiga fáa eða enga vini eru mun minna úti. Þetta er áhyggjuefni því að rannsóknir benda til þess að í leikur úti sé kjörinn vettvangur til að þjálfa samskiptafærni og skapa tengsl á milli barna. Þá er vinátta verndandi gegn einelti. Í erindinu verður rætt um niðurstöðurnar og þau jákvæðu áhrif sem aukin útivera barna getur haft á vináttu og jafnframt nýst sem forvörn gegn einelti.
Lykilorð: útivera, vinátta, einelti
„Nú stoppið þið“ Hvernig börn og fullorðnir geta stutt við gerendur eineltis
Þrátt fyrir neikvæðar afleiðingar eineltis geta þolendur oft á tíðum nefnt atriði sem aðstoðuðu þá við að takast á við afleiðingar eineltis, bæði sem börn og einnig á fullorðinsárum. Eru þetta kallað verndandi þættir (e. protective factors). Í baráttunni gegn einelti er mikilvægt að vita hvaða atriði þetta eru, því nýta má verndandi þætti í forvarnarskyni. Í rannsókninn sem hér um ræðir voru tekin eigindleg viðtöl við 150 einstaklinga 18 ára og eldri sem voru lagðir í einelti sem börn. Viðtölin voru tekin á árunum 2014 – 2019 í samstarfi við nemendur í námskeiðinu Einelti, leiðir og lausnir við menntavísindasvið HÍ. Viðtölin voru á bilinu 30 til 60 mínútur og voru þau afrituð orðrétt, marglesin, þemagreind og kóðuð. Í ljós kom að viðmælendur áttu það margir sameiginlegt að geta nefnt einn eða fleiri verndandi þætti, þá helst fjölskyldu, vini og tómstundir en einnig persónulega þætti sem flokka mætti undir þrautseigju. Með því að kortleggja verndandi þætti eineltis er hægt að veita kennurum, tómstunda- og félagsmálafræðingum og öðru fagfólki sem vinnur með börnum mikilvæga vitneskju sem þau geta nýtt í forvarnarskyni. Í erindinu verður fjallað nánar um niðurstöðurnar, ásamt því að komið verður með hagnýtar hugmyndir um hvernig hægt er að nýta verndandi þætti í baráttunni gegn einelti.
Steingerður Kristjánsdóttir og Vanda Sigurgeirsdóttir
Lykilorð: einelti, verndandi þættir, þolendur
“Hann barði mig með spýtu” Rannsókn meðal fyrrum þolenda eineltis
Samkvæmt grunnskólalögum og aðalnámskrá á einelti ekki að viðgangast í grunnskólum. Þrátt fyrir það sýna niðurstöður rannsóknarinnar heilsa og lífskjör skólabarna (HBSC) að þeim börnum sem segjast hafa orðið fyrir einelti tvisvar til þrisvar í mánuði eða oftar hefur fjölgað jafnt og þétt frá árinu 2006. Rannsóknir geta átt þátt í að snúa þessari þróun við. Í erindinu verður fjallað um eiginlega rannsókn meðal tæplega 100 fyrrum þolenda og gerenda eineltis. Viðtölin voru tekin á árunum 2014 til 2019 í samstarfi við nemendur í námskeiðinu Einelti, leiðir og lausnir við menntavísindasvið HÍ. Viðmælendur voru 18 ára og eldri þegar viðtölin voru tekin. Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á reynslu viðmælenda af einelti, með áherslu á afleiðingar, verndandi þætti, viðbrögð fullorðinna og drauma¬viðbrögð viðmælenda. Niðurstöður voru sláandi og hafa afleiðingar fylgt flestum viðmælendum fram á fullorðinsár. Í erindinu verður fjallað nánar um niðurstöðurnar með áherslu hvernig hægt er að nýta þær til að auka skilning, breyta viðhorfum og betrumbæta forvarnir og inngrip í eineltismál.
Lykilorð: einelti, þolendur, afleiðingar