Birtingarmyndir kynbundins ofbeldis og viðbrögð við því

Málstofustjóri: Gyða Margrét Pétursdóttir

Í málstofunni er fjallað um um kynbundið ofbeldi frá ýmsum hliðum. Spurt er: Hvað eiga konur sem leitað hafa á bráðamóttöku vegna heimilisofbeldis sameiginlegt? Hvernig bregðast konur við kynferðislegri valdbeitingu á vinnustað? Hver eru viðbrögð þeirra sem sökuð eru um kynferðisofbeldi? Falla meiðyrðamál stefnendum eða stefndu í vil? Og hvaða áhrif hefur skrímslaorðræðan á gerendur? Við þessum og fleiri spurningum er leitað svara í málstofunni. Öll velkomin!

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Samanburður á komum kvenna á bráðamóttöku Landspítala vegna áverka í kjölfar heimilisofbeldis eða annars konar ofbeldis

Bakgrunnur: Heimilisofbeldi er eitt af heimsins stærstu lýðheilsuvandamálum. Birtingarmynd er marskonar og kemur meðal annars fram í aukinni notkun þolenda ofbeldisins á heilbrigðiskerfinu. Tilgangur: Að henda reiður á og bera saman áverkakomur kvenna sem koma vegna heimilisofbeldis og vegna annars konar ofbeldis. Slíkar niðurstöður gætu verið klínískt mikilvægar þegar þolendur ofbeldis leita á heilbrigðisstofnun. Aðferð: Gögnum var safnað afturvirkt úr sjúkraskrárkerfum Landspítala (LSH) um allar komur kvenna á bráðamóttöku (BMT) LSH á rannsóknartímabilinu 2004-2019 með líkamlega áverka eftir ofbeldi. Hópnum var skipt í tvennt; a) koma vegna heimilisofbeldis (HO), b) koma vegna annars konar ofbeldis (AO). Niðurstöður: Meirihluti HO mála átti sér stað í heimahúsi (86%) og þar var oftast núverandi maki að verki (55%). Algengast var að einn gerandi væri á bak við HO líkamsárásir gegn konum (95%). Konur sem komu með líkamlega áverka eftir AO voru líklegri til að mæta á BMT um helgar (p=0.003) og HO konur líklegri til að koma milli kl 08:00-16:00 (p<0.001). Algengasta tegund áverka kvenna í HO hópi voru yfirborðsáverkar staðsettir á andliti, höfði og á hálsi og á efri útlimum (61%). Ályktun: Tegund og staðsetning áverka gefur ekki skýra vísbendingu um hvort um sé að ræða HO eða AO. Árangursríkara væri að styðjast við atriði eins og staðsetningu atviks, komutíma á BMT og fjölda gerenda.

Drífa Jónasdóttir, Tinna L. Ásgeirsdóttir, Eiríkur Ö. Arnarsson, Eleni Ashikali, Þórdís K. Þorsteinsdóttir og Brynjólfur Mogensen

Lykilorð: heimilisofbeldi, áverkar, bráðamóttaka

„Þegar hann snýr baki í mig fokka ég á hann“: Kynferðisleg valdbeiting á vinnustað og viðbrögð kvenna

Í fyrstu bylgju metoo hreyfingarinnar birtust rúmlega 600 frásagnir sem lýstu kynferðislegri valdbeitingu á vinnustað. Í erindinu er fjallað um upplifun, og þá sérstaklega líkamleg og andleg viðbrögð, kvenna við kynferðislegri valdbeitingu á vinnustað og hvaða aðferðum þær beita til þess að takast á við valdbeitinguna. Metoo frásagnirnar voru þemagreindar og helstu niðurstöður eru í fyrsta lagi þær að konur upplifa að þrengt sé að tilveru þeirra og tilverurétti. Þær efast um eigin dómgreind og upplifun af veruleikanum. Valdbeitingin tekur sér bólfestu innra með þeim og gerir það að verkum að þær upplifa sig fastar í tíma og rúmi. Í öðru lagi þá leitast konur við að standa vörð um tilverurétt sinn með ýmsum ráðum. Þær nota tækifærin sem bjóðast til að sýna fram á og beita gerendamætti sínum jafnvel þó þeim takist ekki að hreyfa við kynbundnum valdatengslum. Samantekið þá sýna metoo frásagnirnar hversu viðtekin kynferðisleg valdbeiting á vinnustað er og um leið hversu brýnt er að breyta kynbundnum valdatengslum og að afnema yfirráðaréttur karla yfir líkömum kvenna.

Annadís Greta Rúdólfsdóttir og Gyða Margrét Pétursdóttir

Lykilorð: metoo, kynferðisleg valdbeiting, vinnumenning

Meðhöndlun ásakana um kynferðisofbeldi í meiðyrðamálum: Ærumeiðingar eða sönn ummæli?

Á síðustu árum hefur færst í aukana að meintir gerendur stefni þolendum, blaðamönnum og 3ju aðilum fyrir ásakanir þeirra eða umfjöllun um kynferðisofbeldi. Í erindinu verður gerð grein fyrir þeim fimm áfrýjunardómum þar sem meintir gerendur stefndu þolendum fyrir ærumeiðingar. Rannsóknarspurningar eru eftirfarandi: Hvernig hafa íslenskir dómstólar dæmt í meiðyrðamálum sem byggja á ásökunum stefndu um meint kynferðisofbeldi stefnenda? Hvaða þemu einkenna dómana? Aðferðin er þemagreining. Niðurstöður sýna að í engu málanna hafa þolendur verið dæmdir fyrir meiðyrði eða gert að greiða stefnendum bætur og ýmist hafa stefnendum eða ríkinu verið gert að greiða þolendum málskostnað. Í einu máli var stefnandi kona en í fjórum voru stefnendur karlar. Stefndu voru allar konur. Vörn stefndu var í flestum tilvikum byggð á tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu, og að ummæli þeirra hafi verið sannleikanum samkvæm. Í flestum málanna, og á grundvelli lægri sönnunarkröfu, tekur áfrýjunardómurinn undir með stefndu og telur að þær hafi leitt nægar líkur að réttmæti ummæla sinna. Í þremur málanna töldu stefndu að með ummælum sínum hafi þær verið að taka þátt í mikilvægri samfélagsumræðu um kynferðisofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum, og í tveimur þeirra tekur dómurinn beinlínis undir með stefndu. Út frá niðurstöðunum má álykta að lögsóknir meintra gerenda gegn þolendum kynferðisofbeldis vegna ærumeiðandi ummæla sé liður í þeirri samfellu óréttlætis sem þolendur eru beittir.

Hildur Fjóla Antonsdóttir

Lykilorð: ærumeiðingar, kynferðisofbeldi, dómar

Ég er ekki skrímsli: Um áhrif skrímslaorðræðunnar á sjálfsmynd gerenda ofbeldis í nánum kynnum og sýn þeirra til eigin verka

Ofbeldi karla í garð kvenna í nánum kynnum er samfélagslegt mein sem mikilvægt er að uppræta. Erindi þetta er framlag til rannsókna sem spyrja feminískra spurninga um hlut karla í ofbeldi gegn konum og leita skýringa á því hvernig ofbeldi þrífst og er viðhaldið í nútíma samfélagi. Rannsóknarspurningin er eftirfarandi: Hvernig sjá gerendur ofbeldisverk sín og hvernig finnst þeim þau endurspegla hverjir þeir eru og hvað þeir standa fyrir? Erindið byggir á sex djúpviðtölum við gerendur ofbeldis í nánum kynnum. Aðferðir hrif-orðræðu voru notaðar við greininguna. Aðferðin gerir það kleift að skoða hvernig fyrirframgefnar ályktanir um t.d. karlmennsku og ofbeldi vekja með okkur ólík hrif sem ýmist hreyfa við eða hamla getu okkar til þess að bregðast við. Niðurstöður sýna að heterónormatíf orðræða um karlmennskur var viðmælendum mikilvæg til þess að skilja ofbeldisverk sín. Þá var skrímslaorðræðan viðmælendum hugleikin, en hún birtist í frásögnum allra viðmælenda en á ólíkan máta eftir félagslegri stöðu þeirra. Annars vegar sáu þátttakendur af millistétt skrímslið sem form af útskúfun, þeir samsvöruðu sig ekki skrímslinu og kölluðu eftir nýjum leiðum til þess að túlka/ræða ofbeldið. Þátttakendur af lægri stéttum hins vegar upplifðu skrímslið sem tímabundið stjórnleysi, þeir bentu á að til væru stærri skrímsli en þeir og leituðu gjarnan ytri þátta (t.d. æska, lífsstíll) til þess að útskýra hegðun sína og stjórnleysi.

Katrín Ólafsdóttir

Event Details
  • Start Date
    29/10, 2021 13:00
  • End Date
    29/10, 2021 14:45
Höfundar erinda
Prófessor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Sérfræðingur
Annað / Other
Prófessor emeritus
Háskóli Íslands / University of Iceland
Dósent
Háskóli Íslands / University of Iceland
Sérfræðingur
Annað / Other
Nýdoktor / Post doc
Háskóli Íslands / University of Iceland
Dósent / Senior Lecturer
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Doktorsnemi / PhD student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Event Details
  • Start Date
    29/10, 2021 13:00
  • End Date
    29/10, 2021 14:45