Áhrif COVID-19 á tónlistarsenuna á Íslandi

Málstofustjóri: Þorbjörg Daphne Hall
254_covid_tonlistarsena

Málstofan skoðar áhrif COVID-19 heimsfaraldursins (fyrstu bylgju) á íslenskt tónlistarlíf út frá margvíslegum sjónarhornum.

Fyrsti fyrirlesturinn (Íslensk tónlist á tímum COVID-19 út frá félagsfræðilegu sjónarhorni) fjallar um þær aðgerðir sem íslenski menningargeirinn lagði í, með áherslu á tónlistargeirann. Fyrirlesturinn er inngangur að öðrum fyrirlestrum málstofunnar sem byggja á annars konar rannsóknum á faraldrinum, þar sem tölfræðileg gögn, hagfræðilegar úttektir og rannsóknir á beinni upplifun og reynslu hagsmunaaðila koma við sögu.

Annar fyrirlestur málstofunnar (Áhrif COVID-19 á íslenskan tónlistariðnað) fjallar um kortlagningu á áhrifum COVID-19 á íslenskan tónlistariðnað. Markmiðið verkefnisins var að draga fram heildræna mynd af áhrifum COVID-19 á tónlistarfólk og íslenskan tónlistariðnað, greina helstu áskoranir og móta tillögur að frekari aðgerðum. Í ljós kom að sértækar aðgerðir sem beindust að lista- og menningarlífinu náðu nær eingöngu til listafólks og voru til stuðnings nýjum verkefnum en ekki til að bæta tekjufall. Mikilvægt er að finna leiðir til að bregðast betur við áhrifunum og styðja við iðnaðinn í heild.

Síðasti fyrirlestur málstofunnar (Streymistónleikar á tímum COVID-19 á Íslandi) fjallar um hvernig þjóðin hefur nýtt sér streymistónleika, hvernig þeim hefur verið tekið og hvaða tækifæri eru fyrir þessa tegund tónleika fyrir einstaklinga og stofnanir. Niðurstöður sýna að streymistónleikar eru spennandi kostur sem getur gert aðgengi að tónleikum auðveldara, kynningarmöguleika fyrir tónlistarfólk meiri og gert fólki sem ekki hefur ráð eða kost á að sækja tónleika kleift að njóta þeirra í beinni útsendingu. Helsti galli við streymistónleika að mati tónlistarfólks er sá að engar tekjur fást úr miðasölu, og sýna niðurstöður að áheyrendur vilja mun frekar komast á hefðbundna tónleika, þótt gott sé að streymistónleikar standi til boða.

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan og upptöku frá málstofunni í heild sinni.

Íslensk tónlist á tímum COVID-19 út frá félagsfræðilegu sjónarhorni

Erindið byggir á vegferð sem félagsfræðingar við Háskóla Íslands fóru í á vordögum, en þá stóðu þeir fyrir Zoom-fyrirlestrum hvar samfélagsleg áhrif COVID-19 heims-faraldursins voru greind, miðað við þau gögn sem lágu fyrir á fyrsta skeiði hans. Rannsakandi beitti bæði míkró- og makró sjónarhornum úr ranni félagsfræða til að greina þær aðgerðir sem íslenski menningargeirinn hafði þá lagt í, með sérstaka áherslu á tónlistargeirann. Menningarfélagsfræði Bourdieu og Becker hjálpar til við að skilja hvernig stofnunum og stoðum iðnaðarins reiðir af í svona ágjöf á meðan míkrónálganir fræðimanna eins og Tiu DeNora afhjúpar reynslu þeirra einstaklinga sem kerfinu tilheyra. Þá hafði Live Music Exchange rannsóknarstofnunin í Bretlandi þegar brugðist við ástandinu með úttektum og greinaskrifum og nýttist það vel við greiningu á þeim aðgerðum sem höfðu farið af stað hér heima, t.d. streymis-tónleikar Helga Björns. Allt þetta er notað til að skoða bæði jákvæðar og neikvæðar afleiðingar COVID-19 í garð menningarstarfsemi, en tækninýting tók t.d. heljarstökk eins og jafnan gerist þegar samfélagið stendur frammi fyrir víðtækri kreppu. Erindi þetta þjónar sem einslags bakgrunnur eða inngangur að öðrum erindum málstofunnar sem byggja á tölfræðilegum gögnum, hagfræðilegum úttektum og rannsóknum á beinni upplifun og reynslu hagsmunaðila.

Arnar Eggert Thoroddsen

Lykilorð: tónlist, COVID-19, félagsfræði

Áhrif COVID-19 á íslenskan tónlistariðnað

Í fyrirlestrinum verður fjallað um kortlagningu á áhrifum COVID-19 á íslenskan tónlistariðnað sem gerð var í apríl, maí og júní 2020 og gefin út í skýrslu í kjölfarið. Aðilar að skýrslunni eru FHF, FÍH, SFH, STEF, Tónlistarborgin Reykjavík og Útflutningsskrif­stofa íslenskrar tónlistar. Gerð skýrslunnar hófst um það leyti sem stjórnvöld kynntu fyrstu aðgerðir til stuðnings einstak­lingum og atvinnu- og menningarlífi í landinu en þá kom í ljós að sértækar aðgerðir sem beindust að lista- og menningarlífinu náðu nær eingöngu til listafólks og voru til stuðnings nýjum verkefnum en ekki til að bæta tekjufall. Markmiðið með gerð skýrslunnar var að bregða upp heildrænni mynd af áhrifum COVID-19 á tónlistarfólk og íslenskan tónlistariðnað, greina helstu áskoranir og móta tillögur að frekari aðgerðum. Öflun gagna fólst í spurningalistum sem voru sendir út til tónlistarfólks (240 svarendur), viðtölum við tónlistarfólk sem sinnir útflutningi á stórum verkefnum (10 svarendur), spurningalistum sem sendir voru á tónleikastaði í Reykjavík (11 svarendur) og viðtölum við ýmsa aðila í íslenskum tónlistariðnaði, svo sem tónleikahaldara, umboðsmenn, bókara, sjálfstætt starfandi tæknifólk og fulltrúa tónlistarhúsa, hljómplötuverslana, tækjaleiga og hljóðvera. Niðurstöður sýna að áhrif COVID-19 á íslenskan tónlistariðnað eru umfangsmikil og margþætt og að þrátt fyrir skjót viðbrögð og góðan vilja stjórnvalda verði að finna leiðir til að bregðast betur við áhrifunum og styðja við iðnaðinn í heild.

María Rut Reynisdóttir og Bryndís Jónatansdóttir

Streymistónleikar á tímum COVID-19 á Íslandi

Í fyrirlestrinum verður fjallað um rannsókn sem fór fram sumarið 2020 á áhrifum COVID-19 faraldursins á íslenska tónlistarmenn­ingu frá upphafi samkomubanns fram á sumar. Rýnt var í áhrifin sem faraldurinn hefur haft á helstu tónlistarstofnanir, tónlistar­hátíðir og tónlistarhús þjóðarinnar, auk áhrifa á sjálfstætt starf­andi tónlistarfólk. Fjallað er um hvernig þjóðin hefur nýtt sér tónlist á þessum erfiðu tímum, hvernig streymistónleikum hefur verið tekið og hvaða tækifæri eru fyrir þessa tegund tónleika fyrir einstaklinga og stofnanir. Öflun gagna var margþætt. Umræðu og umfjöllun um tónleika á þessu tímabili var safnað saman. Stuðst var við gagnagrunn Tónlistarborgarinnar Reykja­víkur um streymistónleika á tímabilinu við samantekt á tón­leikum. Spurningalistar voru sendir út til tónlistarfólks (alls 177 svör) og áheyrenda (alls 318 svör). Viðtöl voru tekin við tónlist­arfólk, stjórnendur tónlistarstofnanna og almenna áheyrendur (alls 6 viðtöl). Gögnin voru þema­greind og sýna niðurstöður að um leið og tónlistarfólk fór fjárhagslega illa út úr ástandinu virðast streymistónleikar vera spennandi kostur sem getur gert aðgengi að tónleikum auðveldara, kynningarmöguleika fyrir tónlistarfólk meiri og gert fólki sem ekki hefur ráð eða kost á að sækja tónleika kleift að njóta þeirra í beinni útsendingu. Helsti galli við streymistónleika að mati tónlistarfólks er sá að engar tekjur fást úr miðasölu, og sýna niðurstöður að áheyrendur vilja mun frekar komast á hefðbundna tónleika, þótt gott sé að streymistónleikar standi til boða.

Þorbjörg Daphne Hall og Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir

Lykilorð: streymistónleikar, íslensk tónlist, COVID-19

Event Details
  • Start Date
    30/10, 2020 15:00
  • End Date
    30/10, 2020 16:45
  • Zoom meeting id: 617 1301 1645
Höfundar erinda
Annað / Other
Iceland University of the Arts
Verkefnisstjóri / Project manager
Annað / Other
Verkefnisstjóri / Project manager
Annað / Other
Aðjúnkt
Háskóli Íslands / University of Iceland
Event Details
  • Start Date
    30/10, 2020 15:00
  • End Date
    30/10, 2020 16:45
  • Zoom meeting id: 617 1301 1645