Afbrot og löggæsla 1

Málstofustjóri: Helgi Gunnlaugsson
Tilkynningar til lögreglu: Einkenni þolenda sem tilkynna ekki brot til lögreglu

Aðeins hluti af fórnarlömbum afbrota tilkynnir brotin til lögreglu sem leiðir til þess að töluvert vanmat er í opinberum gögnum um fjölda afbrota í samfélaginu. Í niðurstöðum erlendra rannsókna kemur fram að bakgrunnur fólks og tegund brotsins hafi áhrif á hvort það er tilkynnt til lögreglu. Fyrir vikið verður til skekkja í opinberum gögnum þannig að þar birtast hlutfallslega mörg auðgunarbrot í samanburði við hlutfall ofbeldisbrota, þá sérstaklega kynferðisbrota. Jafnframt hefur verið lögð áhersla á mikilvægi þess að rannsaka og auka fjölda tilkynninga til lögreglu því þá aukist líkur á að gerendum sé refsað og þolendur fái þá frekar viðeigandi aðstoð. Í erindinu verður greint frá rannsókn á tilkynningum til lögreglu á Íslandi. Rannsóknin byggir á þolendakönnun lögreglunnar sem er nafnlaus könnun lögð fyrir tilviljunarúrtak Íslendinga árlega. Í rannsókninni er kannað hvaða hópar tilkynna síst afbrot til lögreglu og hvaða brotaflokkar eru síst tilkynntir. Jafnframt verða tilgátur um tengsl viðhorfa til lögreglu og hvort fólk tilkynni brot prófaðar, en slíkt hefur ekki verið gert áður í rannsóknum á Íslandi. Niðurstöður benda meðal annars til að lægra hlutfall þolenda kynferðisbrota tilkynnir brotið til lögreglu en þolendur allra annarra brotaflokka, hlutfallslega flestir sem verða fyrir innbrotum tilkynna. Fólk sem ber traust til lögreglu er aðeins líklegra til að tilkynna brot, en það á þó ekki við um alla brotaflokka.

Margrét Valdimarsdóttir

Viðhorf íslenskra lögreglunema til skotvopnaburðar lögreglumanna

Þrætur um mögulegan skotvopnaburð almennra lögreglu­manna skjóta reglulega upp kollinum á Íslandi. Almennir lög­reglu­menn hafa aldrei verið vopnaðir við skyldustörf hér­lendis en fyrir utan vopnaða sérsveit ríkislögreglustjóra eru læstir skotvopnakassar í hluta lögreglubifreiða sem grípa má til með leyfi yfirmanns. Kannanir sýna jafnframt að meirihluti íslen­skra lögreglumanna vill ekki vera vopnaður skotvopnum við almenn skyldustörf. Hins vegar er minna vitað um viðhorf íslen­skra lög­reglunema í þessum efnum. Rannsókn þessi greinir við­horf ís­lenskra lögreglunema til almenns skotvopnaburðar lög­reglu­manna á grundvelli spurningalistakönnunar sem lögð var fyrir nýnema í diplómanámi fyrir verðandi lögreglumenn við Há­skólann á Akureyri (N=95). Gögnum var safnað haustið 2019 í teng­slum við samevrópska rannsóknarverkefnið „RECPOL – Recruit­ment, Education, and Careers in the Police“, sem Ísland hefur tekið þátt í frá árinu 2011. Svarhlutfallið í könnuninni var 70,4%. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að einungis 18% lög­reglu­nema eru hlynntir almennum skotvopnaburði, sem er næs­tum helmingi lægra hlutfall en í sambærilegri rannsókn meðal nor­skra lögreglunema. Karlkyns nemar eru hlynntari almennum skot­vopnaburði en konur. Ennfremur dregur fyrri háskóla­menntun úr stuðningi við skotvopnaburð. Breytingar á félags­legum bakgrunni lögreglunema samfara færslu lögreglunáms á háskólastig hérlendis munu líkast til móta viðhorf lögreglu­manna til almenns skotvopnaburðar lögreglu. Ennfremur má gera því skóna að stefna lögreglunnar hvað varðar skotvopna­burð almennra lögreglumanna hafi áhrif á hvers konar nem­endur skrá sig í lögreglunám.

Guðmundur Æ. Oddsson

Manndráp á Norðurlöndunum: Samanburður á milli landa

Manndráp og ofbeldi sem leiðir til dauða eru skilgreind með mjög líkum hætti í vestrænum ríkjum og hefur sá brotaflokkur þótt henta vel til samanburðar á milli landa. Í byrjun síðasta árs var samnorrænu verkefni hleypt af stokkunum sem hafði það að markmiði að útbúa sambærilegan gagnagrunn um eðli mann­drápa á öllum Norðurlöndunum. Í verkefninu var meðal annars unnið að gerð kóðunarleiðbeininga sem munu nýtast til þess að kóða manndráp með það að leiðarljósi að geta borið saman ólík einkenni manndrápa í tíma og rúmi. Í fyrirlestrinum verða birtar fyrstu niðurstöður úr þessu verkefni. Áhersla verður lögð á nútímagögn á öllum Norðurlöndunum. Meginmarkmiðið er að safna saman upplýsingum um hvað er líkt og hvað er ólíkt meðal Norðurlandanna og varpa ljósi á það hvar tíðni manndrápa er hæst og lægst. Niðurstöðurnar sýna að tíðni manndrápa er hæst í Finnlandi og lægst á Íslandi. Í flestum tilfellum eru karlmenn bæði gerendur og brotaþolar og algengast er að hnífi sé beitt. Athygli vekur að áfengi kom mjög oft við sögu í málum á Íslandi og í Finnlandi en síður í Noregi og Danmörku.

Jónas Orri Jónasson og Guðbjörg S. Bergsdóttir

Ofbeldi í samfélaginu og afleiðingar þess. Hvað þarf til að uppræta ofbeldi gegn börnum?

Umræða um ofbeldi og afleiðingar þess er mun opnari nú en áður. Átak gegn kynferðisofbeldi og heimilisofbeldi hér á landi hefur breytt viðhorfi almennings í garð þessara brotaflokka. Enn virðist ríkja nokkur þöggun varðandi ofbeldi gegn börnum. Upplýsingar eru heldur ekki eins aðgengilegar ef börn eiga í hlut, einkum ef enginn fullorðinn þolandi er inni í myndinni og upp­alendur sjálfir eru gerendurnir. Ofbeldi og vanræksla gegn börn­um er líklega mun algengari en áður hefur verið talið ef marka má orðræðuna, meðal annars í fjölmiðlum, samfélagsmiðlum og endurminningabókum auk þeirra rannsókna sem gerðar hafa verið. Fjölmargar erlendar rannsóknir eins og til dæmis ACE study, hafa sýnt fram á sterk tengsl æskuáfalla við geðraskanir og líkamlega sjúkdóma auk slakra lífsgæða. Í MA rannsókn í félagsfræði 2017: „Þegar eitthvað svona brotnar inni í manni” var skoðuð upplifun og afleiðingar ofbeldis og vanrækslu í æsku á heilsu og lífsgæði. Rannsóknin er eigindleg og var gagna aflað með viðtölum við 12 einstaklinga á breiðu aldursbili. Niður­stöður sýndu að afleiðingar voru margvíslegar en áþekkar hver sem birtingarmynd ofbeldisins var. Þær helstu voru andlegar áskoranir, ýmsir krónískir líkamlegir sjúkdómar, fíknivandi, sjálfs­vígstilraunir og fleira. Flestir viðmælenda sögðu að erfitt hefði verið að fá áheyrn og aðstoð og má segja að þar liggi ein helsta áskorunin.

Ragnheiður J. Sverrisdóttir og Ingólfur V. Gíslason

Event Details
  • Start Date
    01/11, 2019 09:00
  • End Date
    01/11, 2019 10:45
Höfundar erinda
Háskóli Íslands / University of Iceland
Dósent
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Sérfræðingur / Specialist
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Dósent / Associate Professor
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Event Details
  • Start Date
    01/11, 2019 09:00
  • End Date
    01/11, 2019 10:45