Verkefnastjórnun

Málstofustjóri: Eðvald Möller

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Innleiðing á verkefnamiðað vinnuumhverfi (VMV)

Markmið erindisins er að veita innsýn í það nútímastarfsumhverfi sem spratt upp á tíunda áratugnum og er að verða eitt vinsælasta vinnuumhverfið í heiminum, það er verkefnamiðað vinnuumhverfi (VMV) (e. activity-based workplace). Slíkur vinnustaður hefur leitt til mikilla breytinga á vinnubrögðum starfsfólks og veitt fyrirtækjum ýmsan ávinning.

Erindið beinir ljósi að þeim ávinningnum og vandamálum sem geta komið upp þegar VMV er innleitt og hvaða þáttum er mikilvægt að gera sér grein fyrir þegar fyrirtæki ætla að breyta vinnubrögðum sínum yfir í Newwow. Rannsóknarspurningarnar voru: Hver er ávinningur þessara fyrirtækja sem hafa innleitt VMV og hverju vildu þau fá áorkað með innleiðingunni?

Til að svara rannsóknarspurningunni var framkvæmd eigindleg rannsókn. Við val á viðmælendum var notast við tilgangsúrtak (e. purposive sample) með tilliti til markmiðs og tilgangs rannsóknarinnar. Niðurstöður leiða í ljós að mannlegi þátturinn er hvað erfiðastur við innleiðingarferli á VMV og mikilvægt er að stuðla að skýru upplýsingaflæði og virkri þátttöku stjórnenda, starfsfólks og annarra sem eiga hlut í máli, sérstaklega við eftirfylgni innleiðingarinnar. Því fyrr sem starfsfólk samþykkir vinnuumhverfið því meiri líkur eru á aukinni starfsánægju, en mikilvægt er þó að gera sér grein fyrir að aðlögun tekur tíma.

Elísabet Snjólaug Reinhardsdóttir og Eðvald Möller

Lykilorð: verkefnastjórnun

Straumlínustjórnun í ferðaþjónustu á krísutímum

Á Íslandi hefur ferðaþjónustan verið í verulegum vexti undanfarin ár og náði hámarki árin 2017-2018 þegar heildarfjöldi erlendra ferðamanna var um 2,3 milljónir. Vegna erfiðra aðstæðna hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu varð til þankagangur um uppbyggingu á ferðaþjónustu með straumlínustjórnun. Erindið fjallar um straumlínustjórnun innan ferðaþjónustunnar og hvort hún gæti ýtt undir betri árangur ferðaþjónustufyrirtækja, þá sérstaklega í krísum líkt og Covid-19. Leitast er við að svara rannsóknarspurningunni: „Getur straumlínustjórnun stutt við ferðaþjónustufyrirtæki í krísum?“. Markmið rannsóknarinnar er að stuðla að uppbyggingu atvinnugreinarinnar með því að nota rannsóknina sem aðstoðartól til þess að komast í gegnum þessa krísu. Til að afla gagna var framkvæmd eigindleg rannsókn (níu viðtöl) hjá ferðaþjónustufyrirtæki á íslenskum markaði, bæði fyrirtæki sem vinna eftir straumlínustjórnun og fyrirtæki sem gera það ekki. Niðurstöður benda til þess að straumlínustjórnun geti komið að góðum notum í krísu og því fyrr sem fyrirtækið tekur skref í átt að innleiðingu, því betra. Niðurstöður benda einnig til þess að til að innleiðing verði árangursrík er mikilvægt að fá verkefnastjóra sem skoðar aðstæður fyrirtækis og hefur yfirsýn með verkefninu.

Berglind Björk Sigurðardóttir og Eðvald Möller

Lykilorð: verkefnastjórnun

Getur straumlínustjórnun hjálpað til við að hagræða?

Straumlínustjórnun gengur út á að auka virði viðskiptavinarins en á sama tíma að lágmarka kostnað. Sífellt fleiri íslensk fyrirtæki bætast í hóp þeirra sem vilja hagræða í rekstri og ná betri árangri.  Markmiðið með rannsókninni var að kanna viðfangs-efnið með því að rýna starfsmannadeild fyrirtækis , greina núverandi stöðu, gera grein fyrir sóun og koma með umbótatillögur. Jafnframt að lýsa þeim hindrunum sem fyrirtæki í svipaðri stöðu standa frammi fyrir.

Lagt var upp með að rannsaka hvort straumlínustjórnun gæti nýst þegar kemur að viðfangsefnum og hindrunum í  starfsmannahaldi. Til að svara rannsóknarspurningunni var framkvæmd tilviksrannsókn með eigindlegum rannsóknar-aðferðum en þá eru eitt eða nokkur tilvik rannsökuð í smáatriðum til að þróa eins ítarlegan skilning og mögulegt er á tilvikunum með vettvangsrannsókn. Tekin voru viðtöl við starfsmenn fyrirtækis og virðistraumar settir upp í viðskiptaferla líkani (BPMN). Teiknað var upp núverandi ferli starfsmannadeildar, gerð grein fyrir sóun og lagðar voru fram umbótatillögur. Helstu niðurstöður benda til þess að hægt sé að greina sóun og gera ýmsar umbætur í ferlinu og hjálpa til við að hagræða í rekstri.. Niðurstöður munu nýtast hlutaðeigandi fyrirtæki til að vinna að enn frekari úrbótum ef þess er þörf en slíkt getur skilað sér í sterkari stöðu fyrir rekstur fyrirtækisins.

Ásta Sigríður Birgisdóttir og Eðvald Möller

Lykilorð: verkefnastjórnun

Event Details
  • Start Date
    29/10, 2021 11:00
  • End Date
    29/10, 2021 12:45
Höfundar erinda
MA/MS nemi
Háskóli Íslands / University of Iceland
MA/MS nemi
Háskóli Íslands / University of Iceland
MA/MS nemi
Háskóli Íslands / University of Iceland
Lektor / Assistant Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Event Details
  • Start Date
    29/10, 2021 11:00
  • End Date
    29/10, 2021 12:45